Tónlistarnám getur verið svo mismunandi eftir kennurum. Ég er búin að fara í gegnum þá marga. Ég lærði á klarinett í 9 ár í skóla.

Fyrsti kennarinn minn á klarinett var frábær. Hann elskaði tónlist og vildi gefa af sér. Hann var mikið fyrir djass og því einkenndust lögin sem ég fékk frá honum af djassi. Hann var líka meira fyrir fallegan hljóm og að þroska tóneyra en að fá sem mesta hraða og tækni.
Næsti sem ég fékk var morð. Ég var 11 ára og fékk tíma kl. 8 að kvöldi til. Hann lét mig spila í einn og hálfan tíma samfleytt (átti að vera í einn tíma) og heimtaði að ég myndi ná upp meiri hraða og tækni en gaf nánast skít í hljóm.
Þriðji sem ég hafði var ágætur, smá tungumálaerfiðleikar reyndar en ekkert sem var ekki hægt að bjarga. Er ekki sagt að tónlistin sé tungumál allra?? Hann var sambland af hinum tveim en aðhylltist mikið klassíska tónlist og vildi ekki að ég væri að bæta miklum tilfinningum inn í verkið.
Fjórði sem ég hafði var ekki mikið fyrir klarinettið og vildi fá mig á óbó. Ég var ekki samþykk og því kom upp smá erfiðleiki. Hann kunni svo lítið á klarinett þó svo að gripin séu nánast þau sömu þá er allt annað að fá tón úr klarinetti og óbó. Hann gat kennt grunninn (sem ég var löngu búin að læra) en ekki neitt frekar en það.
Fimmti sem ég hafði var frábær. Hann kom mér af stað með að tjá mínar tilfinningar eins og ég gat tjáð þær í gegnum verkið sem ég var að spila. Hann gat sýnt mér alminnilega á klarinettið og kennt mér alminnilega á alla takkana. Eitthvað sem enginn hinna gat.

Það sem ég er búin að sjá út úr þessum kennurum er að enginn á að kenna á hljóðfæri sem hann er ekki búinn að ná 8. stigi á og er búinn að læra að kenna á. Þó að fólki hér í Rvk þyki það sjálfsagt er það ekki þannig úti á landi í smærri skólum. Það er kannski einn blásturskennari og hann fær að vita hvaða hljóðfæri skólinn á og það verður hann að kenna á. Það getur verið ansi skrautlegt að fylgjast með því.
Hvað finnst ykkur um það??

Ég er mjög hlynnt því að koma fleirum krökkum til að læra á hljóðfæri en mér finnst ekki rétt að neyða alla til þess. Það hafa ekki allir áhuga fyrir því. Margir vilja bara vera úti á boltavelli og leika sér. Mér finnst rangt að neyða alla krakka til að fara í tónlistarnám eins og margir vilja gera. Það er rétt að tónlistin getur verið þroskandi og gefandi fyrir krakka en sömuleiðis geta íþróttir verið það. Mér finnst að krakkar eiga fá val. Kannski tvo tíma í viku geta einhverjir lært á hljóðfæri en hinir fengið aukatíma í íþróttum.
Hvað finnst ykkur??

Kv. Kata