Afi Félaga míns átti Blæ frá Torfunesi en Seldi hann nú á dögum fyrir aðeins 8 milljónir vegna illrar meðferðar á Blæ.

Að lokinni síðustu sónarskoðun hjá Blæ frá Torfunesi í Langholti laugardaginn 15. september sl. komu forsvarsmenn Torfuness Blæs ehf. mánudaginn 17. september sl. til að færa hestinn norður yfir heiðar. Ástand hestsins þegar komið var að honum var með slíkum ólíkindum að félagið hefur ákveðið að senda frá sér yfirlýsingu í þeim tilgangi að hindra að slík meðferð á dýrum endurtaki sig. Ljóst er að hesturinn hefur mátt sæta illri meðferð og hefur nú verið settur í umsjá dýralækna þar sem reynt verður að byggja upp fyrra þrek og þol.

Eins og meðfylgjandi myndir bera með sér er hesturinn í mjög slæmu ástandi. Í skýrslu dýralæknis segir m.a. að hesturinn hafi dapur augu og standi og hími. Hesturinn sé horaður og fallinn á makka, baki og lend. Hægt sé að sjá nær öll rif og hálsinn sé eins og á veturgömlu trippi. Bak og lendarvöðvar mjög rýrir. Jafnframt kemur fram að veikindi hestsins hafa verið útilokuð og ástandið sé alfarið vanfóðrun um að kenna. Umtalsvert tjón er fyrirsjáanlegt fyrir aðstandendur hestsins en þó er hér fyrst og fremst um að ræða mál um illa meðferð á dýrum.

Blær frá Torfunesi stóð langefstur í A-flokki gæðinga á FM07 í sumar og vakti þar mikla athygli fyrir afköst á gangi, kraftmikla framgöngu og glaðan vilja. Að öllu jöfnu hafði verið stefnt með hestinn til keppni í A-flokki gæðinga á komandi landsmóti. Hesturinn hefur jafnframt vakið athygli sem kynbótahestur í sumar þar sem fyrstu afkvæmin hafa verið að koma fram í dómi. Mikil eftirspurn hefur verið eftir að halda undir hestinn. Það eru því eigendum og aðstandendum Blæs gríðarleg vonbrigði að koma að hestinum í þessu ástandi.

Að afloknu FM07 var Blær fluttur á suðurland þar sem hann átti að taka á móti hryssum í Langholti á vegum Fola.is. Var þessi ákvörðun tekin þar sem forsvarsmenn Torfuness Blæs ehf. hafa frá upphafi tekið mjög jákvætt í það framtak sem Foli.is er og aðra atburði sem fram hafa farið á vegum sömu aðila s.s. sýningar á stóðhestum. Hins vegar komu í upphafi fram brestir í ábyrgð og framkvæmd á hirðingu Blæs þar sem hann var látinn bíða inni í húsi í nokkra daga á meðan verið var að flytja aðra hesta úr því hólfi þar sem taka átti á móti hryssum. Fram hefur komið að á sama tíma var hryssunum safnað saman í lítið hólf á meðan þessi bið fór fram. Þegar líða fór á gangmálið var ljóst að haginn í hólfi Blæs var ónógur og hafa forsvarsmenn Blæs síendurtekið komið að málum við forsvarsmann Fola.is og krafist úrbóta. Var þetta endurtekið þegar enn leið á tímabilið. Ljóst má vera af ástandi hestsins að um langtíma vanfóðrun er að ræða og engar úrbætur hafa verið gerðar.

Blær er nú í fóðurmeðferð undir umsjón dýralækna og standa vonir til þess að bati náist á næstu mánuðum enda hesturinn bæði duglegur að drekka og éta. Hvort fyrri vöðvastyrkur og þol náist mun tíminn einn segja til um.

Ábyrgð umsjónarmanna stóðhesta og hesta almennt er mikil. Þegar um er að ræða skipulagða starfsemi þar sem eigendur verða að geta gengið að því sem vísu að full ábyrgð sé tekin á umhirðu og ástandi. Þegar alvarlegir misbrestir verða á þessu er mikilvægt að málin séu meðhöndluð á faglegan hátt en ekki á vettvangi sögusagna eða persónulegra árása. Mál Blæs frá Torfunesi hefur þ.a.l. verið tilkynnt til dýraverndunaryfirvalda með vísan til dýraverndunarlaga nr. 15/1994 og búfjárlaga nr. 103/2002 og verður rekið í þeim farvegi.

Stjórn Torfuness Blæs ehf.


Tekið af MBL.is

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1292784