Einhver skrifaði:
,,Það er fyndið, í raun, þegar nútíma íslendingurinn segist geta lesið og skilið, teksta skrifaðann á 12 og 13 öld.
Til þess, þarf að minnsta kosti að kynna sér búhætti og stjórnsýslu umhverfi, þess tíma.
Það fólk sem heldur fram hreinleika íslenskrar tungu á grundvelli óbreitts forms, er að blekkja sjálft sig.“
Og annar:
,,Íslenska er ekki mál sem hefur verið óbreytt frá örófi alda eins og margir halda fram. Það er ein að mestu lygum um Ísland sem nú veður uppi. Að fólk í dag geti t.d. lesið íslendingasögurnar eftir frumskriftinni.”
Ég vil biðja þessi gáfumenni sem lögðu sér þessi orð til munns, að lesa eftirfarandi texta og sjá síðan hvort þeir geti staðið við orð sín:
Úr Hávamálum:
Deyr fé,
deyja frændr,
deyr sjálfr it sama.
En orðstírr
deyr aldrigi
hveim, er sér góðan getr.
Úr Snorra-Eddu:
Úlfinn fæddu æsir heima, ok hafði Týr einn djarfleik at ganga til at gefa honum mat. En er goðin sá, hversu mikit hann óx hvern dag, ok allar spár sögðu, at hann myndi vera lagðr til skaða þeim, þá fengu æsirnir þat ráð, at þeir gerðu fjötur allsterkan, er þeir kölluðu Læðing, ok báru hann til úlfsins ok báðu hann reyna afl sitt við fjöturinn.
Ég verð að segja að ég átti í minni erfiðleikum að lesa þennan texta heldur en að átta mig á orðum eins og ,,óbreitts“ og ,,teksta”.
Íslenskan hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina, hvort sem miðað er við önnur tungumál eða ekki. Einu sinni hefðu Danir, Svíar og Norðmenn skilið þennan texta, en nú þurfa þeir að læra íslensku til þess. Berið saman þennan texta við t.d. dönsku.
Íslenskan hefur staðið verr heldur en hún gerir í dag og eru slettur ekkert nýtt, t.d. var danska opinbert tungumál yfirstéttarinnar á 19. öld að mig minnir. Þannig að þetta er ekkert nýtt vandamál, en okkur tókst að sigra dönskuna og ég held að það sé ekki spurning að við náum að eyða enskunni líka.
Mig langaði bara að minnast á eitt í viðbót:
Það sagði einhver ,,En ef fólki er virkilega svo mjög í mun að finna einhverja “stóra lygi” um Ísland, þá er lygin um að Alþingi sé elsta löggjafaþing í heimi mun stærri."
Það er vanalega talað um að alþingi sé elsta starfandi löggjafaþing í heiminum, ef það var það sem þú meintir þá biðst ég afsökunar.