Stjórnmál. Það er hagur allra að hafa skoðanir á þeim málefnum sem stjórnmál taka á hverju sinni. Þess vegna langar mig að skrifa stutta grein um þau málefni sem mér eru hugleikin þessa dagana.

Eins og við öll vitum eru kosningar framundan og því gott að gera sér grein fyrir því hvaða málaflokka maður er tilbúinn að merkja við. Þannig er ekki úr leið að ég deili? mínum hugmyndum með ykkur hinum sem ekki eruð búin að mynda ykkur skoðun á hinum ýmsu málaflokkum.

Til þess að einfalda mér skrifin þá ætla ég að skipta þessari grein minni upp í nokkra kafla. Þannig er auðveldara að renna hratt yfir greinina og lesa fyrst það sem þið hafið áhuga á og síðan það sem ykkur finnst skipta minna máli.



Mótmælin í upphafi ársins

Hverju skiluðu þessi mótmæli íslensku þjóðinni í raun og veru? Ég get ekki betur séð að þau hafi skilað okkur vanhæfri ríkisstjórn, veikum seðlabanka og helling af kostnaði. Má þjóðin við þessu nú á jafn erfiðum tímum og raun ber vitni? Ég segi nei.

Fólk stóð fyrir utan Alþingishúsið og seðlabankann og truflaði vinnu, dag eftir dag. Hverju var fólkið að mótmæla? Jú, því ástandi sem skapast hefur í þjóðfélaginu eftir að kreppan skall á í október síðastliðinn. Samt sem áður hafði ég það á tilfinningunni allan tímann að fólkið vissi í raun og veru ekkert hver krafa þess var. Fólkið vildi breytingar eingöngu breytinganna vegna. Ég hef ekki séð neinn fræðimann segja að við höfum grætt á þessum breytingum sem urðu í kjölfar mótmælanna.

Erum við með hæfari ríkisstjórn? Heldur betur ekki, núverandi stjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ekki skilað neinu nýju, ekki neinu haldbæru. Þannig getum við borið ríkisstjórn Geirs Haarde, en það var sú ríkisstjórn sem stóð af sér bankahrunið og bar sig þokkalega í því björgunarstarfi sem farið var út í strax eftir hrunið. Einnig má benda á það, að núverandi ríkisstjórn hefur ekkert á sinni stefnuskrá sem sú gamla hafði ekki. Þannig myndi ég segja að þetta væri enn eitt dæmið þar sem fólk telur grasið vera grænna hinum megin.

Við fengum líka nýjan seðlabankastjóra, sem er auðvita frábært. Það sjá það allir sem vilja sjá það að einn erlendur seðlabankastjóri er að sjálfsögðu mun betri en þrír færir íslenskir forverar hans.

Þannig að þegar ég tek þetta svona saman, þá finnst mér ekkert gott hafa komið út úr þessum mótmælum. Þau hafa einfaldlega fært þjóðinni meiri ógæfu en gæfu. Ég tek einnig undir orð Ingibjargar Sólrúnar, það var ekki þjóðin að mótmæla, heldur brot af henni. Af hverju að láta þetta litla brot skemma jafn mikið og raun ber vitni? Þessari spurningu fæ ég víst seint svarað.


Hver ber ábyrgðina?

Þetta er spurning sem hefur heyrst mjög oft síðan í október. Það hefur margt stungið mig í þessari umræðu, en þó fátt jafn mikið og þegar ég heyri fólk kenna nokkrum auðmönnum um þetta allt saman. Málið er ekki alveg svona einfalt. Íslenska þjóðin missti sig í góðærinu, græðgin varð skinseminni yfirsterkari og fólk tók lán í hrönnum til þess að borga háan lífsstíl, dýra jeppa og flott hús.

Ég er ekki að segja að ábyrgðin liggi ekki að einhverjum hluta hjá auðmönnunum, en það sjá allir að nokkrir vel stæðir einstaklingar geta varla komið heilli þjóð á barm gjaldþrots. Reyndar ætla ég samt að skella töluverðri skuld á bankanna. Hvað gerðu bankarnir rangt? Þessu er auðsvarað og raunar hefur svarið komið fram hér að ofan. Bankarnir lánuðu þjóðinni allt of mikinn pening, þeir hleyptu fólki lengra en þeir hefðu átt að gera í þeirri vitleysu fólksins að lifa eins og allir væru eigendur stórfyrirtækja. Það er sök sem mun liggja hjá bönkunum.

Ég er nokkuð viss um það, að án þessara auðmanna sem allir vilja skella skuldinni á hefðum við aldrei komist jafn langt og raun ber vitni. Þeir gerðu þjóðinni mikið á tímum góðæris, en nú þegar þeir hafa það fínt, en við hin höfum það ekki eins gott, er þetta allt þeirra sök. Er þetta samgjörn öfund hjá okkur? Nei. Þessir menn hafa eitthvað sem flestir höfðu ekki í viðskiptum og að mínu mati ættum við að virða það.

Annars held ég að við ættum að hugsa hver um sig, og skoða hvað við gerðum rangt í aðdraganda kreppunnar. Var jeppinn málið? Var húsbílinn það sem við þurftum mest? Nú þarf hver að hugsa fyrir sig og ekki kenna hinum um.


Eigum við að ganga í ESB?

Mitt svar er ekki flókið. Ég segi nei. Af hverju ekki? Það eru nokkrar ástæður fyrir því að mitt mat sé það að við ættum ekki að ganga í ESB. Fyrst og fremst er það sú ástæða að mér þykir vænt um fiskinn í sjónum og um bændur landsins. Það að ganga í ESB myndi kippa undan þessum tveim atvinnugreinum fótunum.

Hver er ástæða þess að þessar tvær atvinnugreinar munu lamast við inngöngu í ESB? Þetta eru í grunnin tvær ástæður, önnur fyrir sjávarútveg og hin fyrir landbúnað. Ástæðan fyrir því að sjávarútvegurinn mun lamast á Íslandi er sú, að þegar við höfum gegnið inn í ESB hafa allar aðrar þjóðir sem eiga aðild að ESB jafnan rétt á við okkur Íslendinga að veiða hér við land. Þá held ég að gamla góða kvótakerfið sé mun betra til þess að stjórna fiskimiðunum. Ástæðan fyrir því að landbúnaðurinn mun lamast er einföld, þegar við höfum gengið inn í ESB þá mun það vera ódýrara fyrir okkur að flytja inn landbúnaðarvörur frá Evrópu en að framleiða þær hér heima. Í þessu samhengi má benda á það að þegar kreppan skall á okkur í byrjun októbermánaðar á síðasta ári, þá hrannaðist fólk út í næstu matvöruverslun til þess að byrgja sig upp af matvöru. Af hverju gerði fólk það? Jú fólk átti von á vöruskorti og höftum á innflutningi. Segjum sem svo að það væri ekki neinn landbúnaður og innflutningur myndi skerðast verulega af einhverjum orsökum. Hvar værum við þá?

Ég ætla ekki að halda því fram hér að ESB sé eingöngu af hinu illa, við vitum öll sem höfum eitthvað vit eftir að íslenska krónan er handónýtur gjaldmiðill og jafn nýtur sem salernispappír og gjaldmiðill. Þess vegna þurfum við nauðsynlega nýjan gjaldmiðil, en viljum við ganga í ESB sitja uppi með allt sem því fylgir til þess eins að fá evruna? Ég held ekki. Ég held því fram að íslenska þjóðin geti komist betur af með því að taka upp einhverja aðra mynt svo sem norska krónu. Evran er ekki það eina sem við höfum möguleika á í stöðunni í dag. Skoðum fleiri möguleika.

Einnig er ég á þeirri skoðun að við ættum að bindast efnahagsbandalagi með hinum norðurlanda þjóðunum, sér í lagi Noregi. Þar sem við höfum miklu meira af sameiginlegum hagsmunum með þeim en öllum Evrópuþjóðunum saman. Segi nú ekki ef við myndum finna olíu við Íslandsstrendur, viljum við láta Þjóðverja eða Frakka koma og hirða alla olíuna?

Hugsum lengra en ESB, hugsum um rétta hagsmuni ekki bara núið. Hugsum til framtíðar, til næstu áratuga.


Auðgum efnahaginn

Til þess að auðga efnahaginn er hægt að gera marga skynsama hluti. Þar ætla ég að nefna hvalveiðar, álver, sölu á orkuauðlindum og síðast en ekki síst að losa okkur við viðskiptabankana.

Hvað græðum við á þessum hlutum sem ég hendi fram hér á undan, skoðum það aðeins nánar.

Byrjum á hvalveiðunum, þessi atvinnugrein getur vaxið hratt á næstu árum ef ríkið hlúir rétt að henni. Mikið er af hval í sjónum og því ekki úr vegi að nýta hann sem best. Jafnframt því sem hvalútgerðir stækka og störfum við veiðarnar og úrvinnsluna fjölgar þá þarf að huga að áróðri með hvalveiðum. Við þekkjum öll andspyrnuna gegn hvalveiðum, þar sem hampreykjandi mótmælendur með lítið vit hafa á þessum málum eru hvað háværastir. Til þess að sporna við því að þessi mótmæli skemmi fyrir veiðunum þarf vissulega að framleiða markaðsefni og kynningarefni sem kynnir í raun og veru gæði þess að veiða hvali. Hvernig við hjálpum t.d. öðrum fiskistofnum að stækka sem við svo getum veitt einnig. Þessar veiðar myndu því skapa ótal störf og mun fleiri störf en þessi þrjú sem myndu hverfa, þ.e. hvalaskoðunarstörfin. Þannig myndu hvalveiðar færa þjóðinni meiri pening í þjóðarkassann.

Álverin, enn eitt dæmið um fávisku þjóðarinnar. Af hverju ekki að virkja nokkrar sprænur sem tíu manns sjá á ári og skapa þar með atvinnu fyrir fleiri hundruð manns. Við erum með eina umhverfisvænustu orkuframleiðslu veraldar og því ekki úr vegi að byggja hér álver til þess að nýta þessa frábæru orkuframleiðslu betur. Með þessu myndum við vinna að varðveitingu Jarðarinnar til framtíðar? þó við þyrftum að fórna nokkrum hekturum lands hér. Mengun af álverum hérlendis er töluvert minni en erlendis, þar sem þarf eitt styrki kjarnokruver til að knýja álverið áfram. Með því að byggja eins og fimm til tíu álver víðsvegar um landið erum við ekki bara að vera umhverfisvæn, heldur myndu gjöldin og störfin sem þessi álver sköpuðu skila sér margfallt inn í ríkissjóð. Fórnum nokkrum sprænum og vænkum hag þjóðarinnar umtalsvert.

Ég held ég þurfi ekki að hafa mörg orð um hagkvæmni þess að selja orkulindir landsins. Fyrst og fremst þá myndi þjóðarbúið fá töluverðar tekjur við söluna sjálfa. Jafnframt er ekki nokkur leið að leggja þessar auðlindir niður og gjöldin sem myndu vera borguð af þessum rekstri væri umtalsverður og kæmi að góðum notum áfram, þannig myndi þjóðin aldrei tapa á þessu, en áhættan á þessum rekstri færi á aðrar hendur en ríkissjóð. Þannig myndi tap ekki skipta þjóðan miklu máli, nema í smávægilegri hækkun á gjaldskrá, en sú hækkun myndi sennilega ekki vera mikil vegna samkeppni á markaðnum þar sem þær yrðu ekki allar seldar sömu aðilum.

Sala á viðskiptabönkunum held ég að sé mikilvæg, það er ekki hlutverk ríkissins að reka banka, að seðlabankanum undanskildum. Jú ég get keypt það að ríkið reki einn banka. Annars er þetta áhættufjárfesting fyrir ríkið. Þannig tel ég réttast fyrir ríkið að losa sig við þessa fjóra viðskiptabanka sem það nú, á og rekur.

Þjóðkirkjan. Til hvers erum við að eyða öllum þessum peningum í kirkjuna? Það er aðeins brot þjóðarinnar sem nýtir sér kirkjuna. Til að mynda nýtir mun stærri partur þjóðarinnar sér mennta- og heilbrigðiskerfið. Þess vegna er ég á þeirri skoðun að ríkið eigi að skera verulega niður í styrkjum til kirkjunnar. Bara þessi liður myndi spara þjóðinni umtalsverða upphæð. Nú kann að einhverjir kirkju sinnar spyrji hvernig eigi að greiða fyrir rekstri á kirkjunni, þá finnst mér ekkert eðlilegra en að fólk greiði félagsgjöld í sína kirkju, alveg eins og fólk greiðir félagsgjöld í þeim félagsstörfum sem það sækir. Það eru ekki allir sem vilja vera í kirkjunni og því ekki samgjarnt gagnvart þeim að þeirra skattpeningar renni til kirkjunnar. Tala nú ekki um óréttlætið til annarra trúarfélaga.

Síðasta tillaga mín að úrbótum í efnahagsmálum þjóðarinnar er sú að lækka atvinnuleysisbætur. Ég tel það meira hvetjandi fyrir fólk til þessa að reyna að útvega sér vinnu, burtséð frá menntun og fyrri störfum. Fólk myndi ganga frekar inn í störf sem það teldi ser ekki samboðið, ef atvinnuleysisbætur væru lægri. Þannig myndi ég telja sjötíu þúsund krónur sanngjarnar bætur miðað við ástandið í dag. Þetta er ekki aðeins hvetjandi fyrir þá sem eru atvinnulausir til þessa að finna sér vinnu, heldur er þetta líka stórlega hagkvæmt fyrir þjóðina. Þarna myndu sparast u.þ.b. helmingur á við það sem þessi útgjöld eru í dag. Hvetjandi og til sparnaðar.


Stærri íbúakjarnar

Hvaða vitleysa hefur ríkt hér um aldir? Hver er ástæða þessa að íbúar landsins geta ekki búið saman í stærri kjörnum en er reynd. Í dag eru fjölmargir smábæir dreifðir um landið. Þangað koma fáir aðrir en íbúarnir, aftur á móti er ætlast til þess að íbúar þessara litlu bæja njóti sömu kjara og réttinda og stærri bæjarfélaganna. Þessir litlu bæjir eru með öðrum orðum hrikalega kosnaðarsamir fyrir þjóðina. Leggja vegi, byggja brýr, búa til göng, skólar, sjúkrastofnanir og margt fleira sem kostar fúlgu fjár.

Kostir þess að sameina þessi litlu krummaskurð í fjóra stóra íbúa kjarna. Þá horfi ég til þess að landið telji fjögur bæjarfélög í reynd, Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði. Ég er ekki að ætlast til þess að fólk flytji allt til Reykjavíkur. Heldur er ég að ætlast til þess að ríkið sjái um þjónustu fyrir íbúa í fjörum byggðarkjörnum og ekkert út fyrir það. Þannig væri hægt að spara umtalsverða peninga. Með þessu einu sér tel ég þjóðan eiga stóran möguleika á að snúa blaðinu við. Þetta mundi stuðla að hækkuðu íbúðarverði sem ekki væri slæmt á þessum tímum, þar sem lán eru mörg hver að verða komin langt umfram verðmæti eigna.

Með þessari breytingu er hægt að stuðla að bættu heilbrigðiskerfi, skólakerfi og töluvert betri samgöngum fyrir alla íbúa landsins. Þannig mætti einnig deila atvinnu niður á þessi fjögur bæjarfélög, t.d. með því að hafa allan þungaiðnað á Eigilsstöðum, hafa Akureyri sem landbúnaðarbæ, Ísafjörð sem fiskvinnslubæ og Reykjavík sæi svo um menntun og viðskipti fyrir landið. Þetta myndi gera betri samfélög á hverjum stað og hvern hóp mun samrýmdari en áður. Skoðum þennan kost í alvöru, ekki hafa þetta sem hugmyndir á blaði. Komum þessu í umræðuna!


Innflytjendamál

„Í gegnum aldir hefur hinn íslenski kynstofn orðið sterkari og sterkari
Því hinir sterku, ég endurtek: aðeins hinir sterku lifðu af.
Kæru landar nú er vá fyrir dyrum: Hingað streymir litað fólk“


Þetta orti Bubbi Morthens í lagi sínu Nýbúin, laginu var að vísu ætlað að gagnrýna þá sem bera fordóma í hjarta sér, þó svo að margir hafi ekki skoðað textann það vel og álitið svo að hér væri á ferð mjög fordómafullt lag. Ég tek þó aðeins ákveðinn bút úr laginu til þess að endurspegla mína skoðun á innflytjendamálum að eitthverju leiti. Ég er ekki allskostar á móti erlendu fólki, en ég er heldur ekki á því að við eigum að hleypa of mörgum af erlendum uppruna inn í landið.

Ég ber jafna virðingu fyrir fólki af erlendum uppruna sem leggur það á sig að falla inn í íslenskt samfélag. Fólk sem lærir tungumálið og tekur upp íslenska menningu og siði. Aftur á móti þá fer ég ekkert í felur með það að ég er á móti fólki sem lifir í hópum síns fólks og reynir ekkert að falla inni í íslenskt samfélagi. Þannig fólk vil ég reka úr landi án tafar. Við höfum dæmin fyrir framan okkur. Sjáið Danmörk, hvernig er ástandið þar. Morð eru daglegt brauð, slagsmál og blóðsúthellingar milli innflytjenda og innfæddra eru mikil. Þessi átök eiga ekki að eiga sér stað í jafn siðmenntuðu þjóðfélagi og Danmörku. En hvers vegna verða þessi átök? Þau verða vegna þess erlent fólk sem heldur sínu siðum og venjum sem stangast á við þá siði og þær venjur sem fyrir eru í dönsku þjóðfélagi.

Viljum við Íslendingar að þetta gerist hér? Nei, við verðum að sporna við þessari myndun strax. Í dag eru íbúar af erlendum uppruna farnir að nema nokkrum prósentum af þjóðinni og því ekki seinna vænna að byrja. Til þess að útskýra lagstúfinn sem ég setti inn, þá hugsaði ég sem svo að „litað fólk“ væri táknmynd þess fólks sem ekki tæki upp íslenska tungu, menningu og siði. Hingað til hefur Ísland byggst upp á íslensku hörkunni, í dag erum við fjölþjóðlegt samfélag, samt sem áður þurfum við að standa vörð um hina íslensku menningu.


Vald forseta lýðveldisins

Að mínu mati er forsetinn okkar allt of valdlaus, ef við skoðum t.d. forseta Bandaríkjanna hefur hann mun meira vægi en forsetinn okkar. Ég tel það vera rétt skref að auka völd forseta og gera hans embætti mikilvægara en það hefur nokkru sinni verið. Ég myndi vilja sjá þjóðina fara að bandarískri fyrirmynd og láta forsetann skipa ríkisstjórn, þannig að ríkisstjórnin fylgdi hverjum forseta fyrir sig og væri þar með óháð löggjafarvaldinu.

Með þessu móti væri hægt að laga þrískiptingu valdsins mun betur og koma enn frekar í veg fyrir hagsmunaárekstra eins og eru nú í kerfinu.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur til að mynda sannað það, hversu góður forseti getur verið. Ef við horfum aftur til ársins 2004 þegar Davíð Oddsson reyndi að steypa af stóli nokkrum af okkar virtari fjölmiðlum með því að setja svokölluð fjölmiðlalög. Þar reyndi hann að koma sínum persónulegu málefnum á framfæri í gegnum Alþingi. Þar setti Ólafur honum stólinn fyrir dyrnar og sannaði mikilvægi forseta. Þannig sjáum við það að vald forseta er allt of lítið, hann á að gegna miklu miklvægara starfi en raun ber vitni um.



Ég hef flakkað um víðan völl í þessari stuttu grein minni. Greinin er aðeins byggð á mínum skoðunum og álitum um það hvernig stjórnmál og þau málefni sem þau taka á meiga vera. Eins og sést þá er ég á því að mörgu megi breyta, en auðvitað er margt gott líka. Ég vona að þið hafið náð að lesa ykkur í gegnum þetta og séð eitthvað við ykkar hæfi. Með von um góða umræðu segi ég þetta gott í bili.