Mig langar að koma á framfæri hérna einni hetju sem hefur verið í kastljósinu á undanförnum vikum.
Þessi maður er fimmtugur og heitir Guðmundur Sesar Magnússon. Hann á að mig minnir 14 ára dóttur sem hefur gengið í gegnum heim eiturlyfjanna og hefur nú komið henni í felur vegna aumingja sem þrífast hér á landi. Þetta eru eiturlyfjasalarnir og tilheyrandi handrukkarar sem hann hefur ákveðið að láta ekki kúga sig með óttanum heldur að standa í hárinu á þeim og neita að þessir aumingjar ráði framtíð dóttur sinnar.
Sjálfur hefur hann gengið í gegnum fíkniefnaheiminn og þeim sem vilja fræðast um hann og hans málstað bendi ég á helgarblað DV 8. nóvember.
Heimur fíkniefnanna hér á landi er óhugnarlegur og byggist þetta allt á peningum og færslu þeirra milli aðilla. Handrukkarar fíkniefnasalanna ganga manna á milli og innheimta skuldir húsbóndans með ofbeldi. Þetta er staðreynd í okkar litla samfélagi og það sem við þurfum að gera er að berjast gegn þessu og neita að láta kúga okkur með óttanum.
Það á að þyngja dóma við fíkniefnabrotum og koma fólki undir 18 ára aldri sem neitir fíkniefna tafarlaust á meðferðarheimili og ég teldi það ekki vitlaust að stíga skrefið til fulls og láta alla fíkniefnaneytendur sem hirtir eru af lögreglunni fara á meðferðarheimili. Alls ekki til refsingar heldur til að bjarga því úr klóm þessa heims. Ríkið þarf að grafa undan heimi þessara gaura sem telja sig mafíósa og vera algerlega verndaðir fyrir öllu áreiti ríkisins.
Það þarf að fara í sterka herferð gegn þessum heimi, ekki efnunum sjálfum heldur þessum heimi sem þrífst í kringum þau því það er stærsta vandamálið.
Guðmundur segir frá því í viðtali sínu við DV að hann sé orðinn gjaldþrota út af þessari baráttu sinni. Hvar er ríkið með sína peningahjálp þegar svona hetjur þurfa á því að halda. Þessi maður á skilið styrk frá ríkinu í þessari baráttu sinni og í kringum þennan einstakling væri hægt að byggja upp herferð gegn fíkniefnaheiminum. Ég skora á ykkur að taka Guðmund til fyrirmyndar og skora á ríkið að hjálpa þessum manni.

Fyrirfram vil ég afsaka allar málfarsvillur og slíkt ef þær kunna að leynast í textanum.