Þetta er verkefni sem ég gerði í íslensku 603 nú fyrir stuttu síðan.



1. Taktu þér bók Sölva í hönd og flettu upp á fyrsta kaflanum. Veltu fyrir þér þessu skrýtna fyrirbæri, tungumáli. Hvað er tungumál? Sölvi svarar þessari spurningu og nú skalt þú líka svara henni. Hvað finnst þér tungumál vera? Hvernig notum við tungumálið? Reyndu að gera þér grein fyrir hvað hefur breyst í okkar tungumáli frá byrjun tuttugustu aldar til loka hennar.
o Tungumál er eitt af sameiningartáknum þjóða. Það er samansafn af hljóðum sem mynda orð, sem síðan mynda setningar o.s.frv.. Mér finnst tungumál vera einn af merkilegust “uppfinningum” sem við mennirnir höfum tileinkað okkur. Tungumál hafa eflaust byrjað sem einhvers konar hljóð, t.d. þekkjum við öll hljóð sem við gefum frá okkur þegar okkur líður vel, erum reið o.þ.h.. Þessi hljóð hafa svo þróast út í að vera flókin samansöfn margvíslegra hljóða. Ég tel að ef að þjóð tapar tungumáli sínu, tapi hún miklu í menningu sinni, eitt gott dæmi sem Sölvi nefnir eru öll þau fallegu orð sem við Íslendingar eigum yfir snjókomu; skafrenningur, ofankoma, bylur og lengi mætti áfram telja. Væri ekki sorglegt ef við tækjum upp enskuna og töpuðum öllu þessu, hluti af okkur væri í raun týndur, við værum hálfpartinn mállaus.
Við notum tungumálið til að tjá okkur, tjá tilfinningar okkar, ræða saman um stjórnmál, lesa bækur og svo margt fleira. Við værum mun fátækari ef ekki væru til tungumál.
Íslenskan hefur breyst mikið frá því Njáll og Gunnar gengu um Alþingi. Það sem helst hefur breyst er orðaforðinn. Þegar ungmenni nútímans lesa söguna um þessa kappa verða þau að hafa orðskýringar sér í hönd, annars ná þau varla inntakinu. Hinsvegar er alveg jafn víst að þeir félagar Njáll og Gunnar myndu lítið minna skilja ef þeir ættu að lesa nútímabókmenntir. Við höfum breytt merkingu orða, eins og skjár og sími, tekið inn í málið tökuorð eins og jeppi, og búið til nýyrði fyrir tækninýjungar, eins og tölva, sjónvarp og mótald.
Fleira hefur þó breyst í íslenskunni, þar má til dæmis nefna fallbeygingar, framburð og beygingar sagna. Við segjum synir en ekki sonu og makaði en ekki mauk. Merkilegt er þó að þrátt fyrir breytingu á framburði, höfum við haldið stafsetningu mjög svipaðri og hún var í fornöld. Við berum ufsilon ekki lengur fram sem sér hljóð, en höldum því samt ennþá inni í stafsetningu. Ég tel þetta vera eðlilegt, mikið hefur verið rætt um að leggja beri ufsilon niður og er ég mjög ósammála því. Aðalástæðan er sú að ég held að íslenskan yrði ljótari á að líta ef við gerðum svo.

2. Af hverju eigum við að tala íslensku, af hverju eigum við, þessar þrjú hundruð þúsund manneskjur, að halda í tungumál sem er í raun í stórhættu? Rökstyddu.
o Við, þessar örfáu hræður, ættum svo sannarlega að halda í íslenskuna. Íslenskan er mjög merkileg, hún er falleg og hún er hluti af okkur, hluti af okkar menningararfi. Íslenskan er eitt elsta ritmál heims og eigum við mikinn og góðan bókmenntaarf. Íslensku fornsögurnar eru þekktar um heim allann, og hver, ef ekki við, á að lesa þær! Ef við töpum íslenskunni töpum við þessari tengingu við fortíðina, við forfeður okkar. Ef aðeins örfáir fræðimenn kynnu íslensku fengi aldrei neinn að kynnast þessum sögum og eftir einhverjar kynslóðir myndi sjálfsagt íslenskan tapast fyrir fullt og allt.
Einnig, eins og ég nefndi áðan, hentar íslenskan best til að lýsa íslenskum aðstæðum. Hvaða tungumál hentar betur til að lýsa íslensku veðurfari, gangtegundum íslenska hestsins eða litum íslenska sauðfésins?
Ég tel ólíklegt að við Íslendingar leyfum íslenskunni að tapast, því ef við gerum það, erum við að segja heiminum að við erum ekki lengur þjóðernissinnar, að okkur sé nokk sama um land og þjóð. Nú þegar aðrar þjóðir berjast fyrir sjálfstæði sínu, af hverju ættum við þá að sína þann hroka að tapa niður einu af okkar merkilegasta þjóðareinkenni.

3. Líttu nú á diskinn góða og hafðu grein Guðrúnar fyrir framan þig. Smelltu á myndina sem er efst í greininni. Hvaðan kemur forníslenska?
o Forníslenskan kemur úr frumnorrænu, sem aftur á móti kemur úr frumgermönsku sem á rætur sínar að rekja til frum-indóevrópsku.

4. Hvaða heimildir hafa menn um frumnorrænu? Taktu saman í tvær til fjórar málsgreinar fróðleik um rúnir.
o Til eru takmarkaðar heimildir um frumnorrænu, ekki var hafin ritun með latnesku stafrófi á tímabili hennar, en ritað var með rúnaletri. Rúnaletur er flókið og erfitt að skrifa og eru því áletranir oft mjög takmarkaðar, flest aðeins örfá orð. Einnig er til í dæminu að hlutir sem letrað var á hafi brotnað eða rúnir máðst af.
Rúnastafrófið heitir Fúþark eftir fyrstu sex stöfunum í því. Röðin á stöfunum er vituð því nokkur rúnastafróf hafa fundist. Elstu rúnaáletranir sem hafa fundist eru frá um 2. öld e.Kr., en ekki er vitað um uppruna letursins. Sum tákn þykja þó lík með rúnaskrift og latnesku stafrófi, og einnig hefur verið bent á líkindi milli rúnaskriftar og Etrúra á Norður-Ítalíu.
Um 600-800 varð mikil breyting á rúnaletri á Norðurlöndum, rúnum fækkaði niður í 16 og sumar breyttust að gerð. Þessi fækkun varð þó ekki til góðs, mörg hljóð voru táknuð með sama rúnastafnum og oft var erfitt að lesa texta. Í kringum árið 1000 varð breyting á þessu, var farið að nota punkta til að greina mismunandi hljóð að. Rúnir með punkti kallast stungnar rúnir.
Gaman er að geta þess að þrátt fyrir að norrænir menn kynntust latneska stafrófinu lifði rúnaskriftin áfram samhliða.

5. Bæði Sölvi og Guðrún tala um breytingar sem urðu á frumnorrænu, svokallaðar hljóðbreytingar, sem urðu löngu fyrir fund Íslands. Gerðu grein fyrir þessum breytingum og taktu dæmi um hverja breytingu til að gera mál þitt skýrara (skoðaðu dæmin á myndunum í greininni):

o hljóðvörpum:Hljóðvarp verður þegar sérhljóði í orði dregur sérhljóða sem er framar í orðinu nær sér í hljóði.
Gastir verður gestir (i-hljóðvarp).
Saku verður söku (u-hljóðvarp).
Til að útskýra þetta betur fyrir leikmanni má láta hann mynda hljóðin í munni sér. Hann byrjar á a rennur yfir í e og svo yfir í i. Sama máli gegnir um a – ö – u.
o klofningu: Við klofningu breytist e í ja vegna áhrifa frá a-hljóði í næsta atkvæði á eftir. Þetta kallast a-klofning. Ef e breytist í jö-hljóð* er það vegna áhrifa frá u-hljóði í næsta atkvæði á eftir. Þetta kallast a-klofning.
Herta verður hjarta (a-klofning).
Erþu verður jörð* (u-klofning).
Þess ber að geta að ö-hljóðið er ekki alveg eins og ö íslenskunnar í dag, heldur forveri þess.
o brottfalli: Vegna áherslu frumnorrænu á fyrsta atkvæði voru sérhljóðar í seinasta atkvæði áhrifalausir. Á 6. öld gekk yfir frumnorrænuna mikið brottfall sem saman er kallað Stóra brottfall. Við Stóra brottfall gerðist það að þessir áhrifslausu sérhljóðar duttu út.
Gestir (sjá hljóðvarp) varð gestr.
Söku (sjá hljóðvarp) varð sök.

6. Þá erum við komin að frumgermönsku. Hvað er frumgermanska og hvenær er hún tímasett samkvæmt fróðleik Guðrúnar? Skoðaðu vel ættartréð sem sýnt er hjá kafla 7. Frumgermanskan klofnaði í þrjár greinar, hvaða? Komdu með dæmi um tungumál í hverri grein. Gerðu grein fyrir þróun hollenskunnar.
o Frumgermanska er móðurtunga germanskra mála, erfitt er að tímasetja hana en miðað er við fyrsta árþúsund f.Kr..
Frumgermanska klofnaði í vestur- (enska), austur- (gotneska) og norðurgrein (íslenska).
Þróun hollenskunnar er eftirfarandi: Hún á uppruna sinn úr vesturgrein forngermönsku, hún þróaðist svo í fornlágþýsku, úr henni í fornlágfrankversku, síðan í loks í hollensku.

7. Hvað er germönsk hljóðfærsla? Útskýrðu eins vel og þú getur.
o Germanska hljóðfærslan er líka nefnd Lögmál Grimms, en það var þýski málfræðingurinn Jacob Grimm sem gerði grein fyrir henni árið 1822. Reyndar hafði Daninn Rasmus Kristian Rask uppgötvað fyrirbærið nokkrum árum áður og sagt frá því í ritgerð.
Við germönsku hljóðfærsluna urðu órödduð lokhljóð að órödduðum önghljóðum, rödduð lokhljóð að órödduðum lokhljóðum og rödduð, fráblásin lokhljóð að rödduðum önghljóðum. Myndunarstaður hvers hljóðs breyttist hins vegar ekki. Sem sagt:
p t k í latínu samsvara í germönskum málum f þ h
b d g í latínu samsvara í germönskum málum p t k
Dæmi:
Íslenska: faðir þrír hundur
Latína: padre tres canis
Hægt er að finna dæmi um hljóðfærslu í öllum germönskum málum.

8. Lestu vel um Vernerslögmálið og komdu með dæmi um þær breytingar ef þú mögulega getur.
o Nú þegar höfðu samhljóðar breyst samkvæmt lögmáli Grimms. Við þá breytingu hefðu orðið til órödduðu önghljóðin f, þ, x og xw. Nú varð sú breyting á að þessi hljóð í innstöðu breyttust aftur, í b, ð og g.
Faþer varð faðir

9. Sagnorð hafa ýmist sterka eða veika beygingu. Finndu þrjár sterkar sagnir og beygðu þær í kennimyndum. Finndu tvær veikar sagnir og beygðu þær líka í kennimyndum.
o Sterkar sagnir:
Bjóða – bauð – buðum – boðið
Liggja – lá – lágum – legið
Fara – fór – fórum – farið
o Veikar sagnir:
Skrifa – skrifaði – skrifað
Dæma – dæmdi - dæmt

10. Lestu bls. 58-59 í bók Sölva. Þar er fjallað um ástæðu þess að tungumál breytast. Teldu upp fjögur til sex orð sem við notum í dag en voru ekki notuð fyrir hundrað árum. Hvers vegna voru þau ekki notuð þá?

o Tölva: Nýyrðið tölva var búið til um fyrirbærið sem hlaut nafnið „computer“ upp á ensku. Var notað að fyrirmynd orðið völva, en tölvur þóttu búa yfir nánast yfirnáttúrulegum kröftum. Beygingar orðsins tölva eru sömu og orðsins völva. Fyrir hundrað árum var ekki búið að finna upp tölvuna og þessvegna engin not fyrir slíkt orð.
o Hljómtæki: Er nýyrði sett saman úr mynd af gömlu íslensku orði og tökuorði. Þetta er tæki sem hljómar. Eins og með tölvuna var ekki búið að finna upp hljómtæki fyrir 100 árum, þótt sjálfsagt einhver mynd af útvarpi hafi verið til.
o Sjónvarp: Sama sagan er með sjónvarpið, ekki var búið að finna það upp. Eins og hljómtæki er orðið samansett, en nú úr tveimur gömlum íslenskum orðum; sjón og varp. Eitthvað sem er varpað og þú sérð.
o Erfðafræði: Hér kemur eitt flott nýyrði, fræði er gott og gilt íslenskt orð og erfðir líka, þú erfir t.d. eignir eftir föður þinn. En nú kemur á það ný merking, þú erfir genin eftir foreldra þína. Ekki var mikið hugsað um erfðafræði fyrir 100 árum, get ég þó ekki fullyrt að ekki hafi verið búið að uppgötva hlutverk genanna.
o Kók: Coca Cola er bandarísk uppfinning og barst hún til Íslands með hermönnum í kringum seinni heimsstyrjöldina. Nú er orðið reyndar líka notað yfir fíkniefnið kókaín. Orðið er tökuorð.
o Jórturleður/tyggigúmmí: Önnur uppfinning sem barst til Íslands með hermönnum. Fyrra orðið er búið til úr tveimur góðum íslenskum orðum, að jórtra og leður, en það seinna úr tökuorði; gúmmí, og mynd af íslensku sögninni að tyggja.
Just ask yourself: WWCD!