Sæl verið þið…langt síðan við höfum sést já? Það er satt. Hvað hefur á dagana drifið hjá ykkur upp á síðkastið?

Ég er í raun hissa á því að enn skuli ég vera stjórnandi á þessu áhugamáli. Ég heyrði einhvern tímann út undan mér að Reykdal hefði gert heljarinnar rassíu hér um daginn og hent öllum stjórnendunum út sem höfðu ekkert eða lítið fylgst með áhugamálum sínum.
Og ég á svo sannarlega heima í þeim hópi, svo ekki sé talað undir rós. Það hefur allt verið sjóðandi vitlaust hjá mér að gera, aðgangur minn að internetinu eða tölvum yfirleitt hefur tekið stakkaskiptum, aðallega í neikvæðu áttina, og þar af leiðandi hefur virkni mín á þessu áhugamáli tekið heljarinnar dýfu. Óvíst er hvort ég, flugstjórinn, nái að koma mér upp úr dýfunni eða hún endi með brotlendingu.

Ég gæti sumpartinn haldið stjórnendastöðunni, en það yrði því miður nær eingöngu að nafninu til. Og þar að auki væri ekki um neitt stórslys að ræða þótt flugvélin brotlendi, enda er Tolkien áhugamálið vonandi það stórt að það rúmi tvo flugmenn.

Sumir myndu segja að ég ætti ekki skilið að fá stjórnendaaðgang að þessu áhugamáli. Þau ummæli get ég fullkomlega umborið.
Hitt er svo annað mál, að stjórnendastaðan er ekki eins léttvæg og auðveld eins og margir myndu halda. Ætli maður að gera eitthvað meira en að vera einhvers konar brúðuleikstjóri bak við tjöldin, hvers aðgerðir þola ekki dagsbirtu, ætti sá hinn sami að pakka saman og yfirgefa huga. Því miður er staðan í dag að meirihluti stjórnenda gerir lítið annað en að kippa í spotta eins og brúðuleikstjórar sem gefa sjaldan skýringar á því hvers vegna þeir séu ekki betri stjórnendur en raun ber vitni.
Þar get ég rækilega litið í minn eigin barm. Þessa grein mætti kannski að einhverju leyti líta á sem kveðjuorð, minningargrein, frásagnarþátt; uppsagnarbréf…?
Og þó ekki. Gefist mér tími til skal ég með glöðu geði heimsækja þetta áhugamál, taka virkan þátt í umræðum sem skapast og leggja jafnframt mitt af mörkum í að senda inn efni, hvort sem það er á myndmáli eða rituðu máli. Forgangslistinn minn er því miður of stór til að rúmast á venjulegan blaðsnepil. Það hefur sína kosti og galla að hafa stóran forgangslista. Aðgerðaleysi mitt á Tolkien er ágætis kennslubókardæmi um einn af göllunum.

Þessa stundina líður mér eins og manni sem er að skrifa bréf til gamals vinar. Einhvers sem hann hefur ekki hitt lengi, en séð þó bregða fyrir við og við án þess að getað kastað kveðju á hann. Nú gefst loksins tími til þess að kasta kveðju á þetta áhugamál. Hvort það er til að segja halló eða bless get ég því miður ekki svarað.