Ég var áðan að horfa á NFS, á þátt frá Hrafni Gunnlaugssyni held ég, um byggðamál og annað í höfuðborginni okkar, henni Reykjavík. Mjög áhugaverður þáttur, og góðar hugmyndir sem hann kemur með þarna.

Ég er sammála honum að byggja hátt í Reykjavík. Það verður engin alvöru borg með bara þriggja til fjögurra hæða húsalengjum og tveggja hæða einbýlishúsum í miðbænum, það bara gengur ekki. Ég er ekki mikill aðdáandi Reykjavíkur, finnst hún of smábæjarleg eitthvað, maður þarf alltaf að fara frá gamla góða Íslandi til að fá alvöru borgarstemningu.
Mín skoðun er sú að Reykjavík sé ekki beint borg, heldur frekar lítið þorp sem er búið að vaxa og vaxa, en er ennþá hugsað sem þorp. Það telst til tíðinda þegar byggt er hús hærra en 4 hæðir í Reykjavík, meðan í t.d. Kópavogi er allt fullt af framkvæmdavilja, hröð uppbygging, 10 hæða turnar sem rúma auðvitað fleiri íbúa á minna svæði, sem eykur hagkvæmni í þjónustu. Þar sem er fleira fólk til að njóta þjónustunnar hlýtur að vera meiri þjónusta.
Þess vegna finnst mér að það ætti að byggja á áttina upp, breyta Reykjavík úr ofvöxnu þorpi yfir í þéttsetna borg, með allri þeirri þjónustu sem þar á að bjóðast. Neðanjarðarlestir til dæmis, þær myndu aldrei ganga hér, of fáir sem myndu nýta þær, það búa einfaldlega ekki nógu margir hérna til að borga upp fyrir þannig kerfi. Eða, það held ég ekki. London. Milljónaborg. Þekkt fyrir gott samgöngukerfi, sem samanstendur af þéttum neðanjarðarlestaferðum, maður er fljótur á áfangastað, og græðir mikinn tíma. Ég held samt að það myndi ekki ganga hérna…

Oooooog þetta flugvallamál, náttúrulega fásinna að hafa flugvöll á einu besta byggingarsvæði höfuðborgarsvæðisins! Sérstaklega þar sem hann takmarkar alla aðra byggð í kring í hæð, vegna aðflugs og því dæmi öllu. Ég sá hvernig hann setti þessi hugmynd upp í þessum þætti, hún passar akkúrat. Já, þetta mun kosta mikið. Já, nágrannabæjarstjórarnir eru ekki tilbúnir að gefa þetta sjóland sem þeir eiga undir flugvöll nema með þrýstingi. Þetta er bara miklu sniðugra að hafa flugvöll á Lönguskerjum en í Vatnsmýri, eða Keflavík, styttra að fara, heftir enga byggð, fullkomið. Það yrði líka æði ef millilandaflug kæmist til Reykjavíkur líka, byggja góðan og classy Reykjavíkurflugvöll, og hafa svo Keflavíkurflugvöll fyrir lággjaldaflugið eða eitthvað þannig, svipað og er með Heathrow og Stansted í London, Stansted er lággjaldavöllur fyrir utan borgina, Heathrow er aðeins stærri og betri flugvöllur í jaðri borgarinnar.
Ég væri til í að geta flogið til útlanda frá Reykjavík, sparar tíma á keyrslu til Keflavíkur.

Mínar skoðanir eru semsagt: Byggja háhýsi í Vatnsmýri, eins og t.d. á Skúlagötunni og Skuggahverfinu, og láta útsýnið yfir sjóinn njóta sín, því Ísland byggist náttúrulega allt á nálægðinni við sjóinn, það eru ástæður fyrir því að bæirnir á landinu voru ekki byggðir inni í landi…

Ég vil taka það fram að ég er reyndar ekki Reykvíkingur, en ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík, mér þykir vænt um borgina, og landið mitt, og vil að því vegni sem best miðað við önnur lönd og aðrar borgir.

Hvað finnst ykkur? Hvernig er ykkar framtíðarsýn á höfuðstaðnum okkar?