Ég hef stundað huga lengi vel, síðan löngu áður en 94 og 95 módelin fóru að leka hingað inn eins og enginn væri morgundagurinn. Óneitanlega sakna ég gömlu góðu daganna, þegar meðstjórnandi minn Oops hét Sora, Skuggi85, Lecter, Tigercop, Fantasia og fleiri goðsagnir voru uppá sitt besta, JReykdal var konungur vor, korkarnir á /tilveran voru á forsíðunni og /syndir var ennþá í notkun og fullt af trollum. Þessir tímar voru svo sannarlega gullöld huga.is og hún er liðin. Reyndar hef ég ekki hugsað mér að væla yfir gömlu, góðu tímunum sem koma aldrei aftur heldur langar mig að ræða þá hluti sem hafa breyst og farið úrskeiðis. Sem sagt, það sem þið sem fallið í flokkinn ‘douchebags á huga’ eigið að hætta að gera til að draga huga eins langt frá því sem hann var hérna í denn og að því sem hann er núna. Svo, þess vegna hef ég tekið saman helstu atriðin sem eru hvað mest pirrandi á huga, eða hlutir sem fá mig (og eflaust marga aðra) til að langa að rífa tunguna úr gerandanum og berja hann til ólífis með henni.

1. Ekki fara að væla þegar stafsetningin þín er leiðrétt.
Í alvörunni talað, það er fátt sem hneykslar og pirrar mig á sama tíma jafnmikið og þegar óbreyttur hugari gerir stafsetningarvillu, er leiðréttur og sá hinn sami brjáááálast. Það koma alltaf sömu svörin ‘Kommon, þetta er hugi, ekki fokking íslenskupróf, mér er alveg sama þótt ég komi ekki vel fyrir á Netinu, það gera langflestir stafsetningarvillur, skiptir þetta svona miklu máli?’ Svarið er einfalt. JÁ, ÞETTA SKIPTIR SVONA MIKLU MÁLI. Lesblinda er heldur ekki afsökun. Hvað er eiginlega að ykkur fólki sem getið ekki tekið svona ábendingum vel? Viljið þið koma fyrir í skrifuðu máli eins og þið ætlið ykkur að vinna í Bónus eða á krana það sem eftir er ævinnar? Ég veit vel að þessi vefsíða er ekki íslenskupróf, en ef þið getið ekki hunskast til að skrifa rétt á Netinu, þá get ég ekki ímyndað mér að þið munuð koma vel út á íslenskuprófi. Ef þið kunnið ekki að tjá ykkur villulaust á veraldarvefnum, þá getið þið ekki tjáð ykkur villulaust á öðrum stöðum. Þetta er eins og að segja ‘Já, sko, ég er bara lélegur í þýsku í sumarbústöðum.’ Ég sjálf elska rétta stafsetningu og gott málfar meira en feitur krakki elskar kökur, svo að alltaf þegar ég sé einhvern segja ‘Mér er alveg sama um stafsetningu’ óska ég þess heitt og innilega að það sé til helvíti fyrir það fólk til að hunskast til. Í guðanna bænum, börnin góð, skrifið rétt.

2. Ekki senda inn mynd/ir af þér/húðflúrinu þínu/fötunum þínum án þess að búast við neikvæðum athugasemdum.
Núna ætla ég að kasta sjálfri mér fyrir hákarlana með því að vera hrottalega hreinskilin. Hvernig í ósköpunum getur einhver sem er ljótur, feitur, cyber goth eða ofur-skinka sent inn mynd af sér og virkilega búist við að skutlarnir verði ekki mannaðir og sá hinn sami skotinn svo djúpt í kaf að ekki einu sinni tveggja mánaða hlé frá Huga ásamt breyttu notandanafni gæti lagað mannorð hans? Núna gæti ég komið með ‘Netið er vondur staður, nafnleynd breytir fólki, etc’ klisjuna en ég ætla að láta það ógert. Hinsvegar ætla ég að segja, án þess að nefna nokkur nöfn, að ég hef svo sannarlega litið á myndir af nokkrum aðilum og hugsað ‘Hvernig datt þessari manneskju í hug að senda inn mynd af sér? Heldur hann/hún að ég eða aðrir actually viljum horfa á þetta?’ Og ég bara spyr, hvað getur fólk svo sem sagt við þessum myndum annað en eitthvað neikvætt? Það eru bara því miður ekki allir jafn indælir og ég að halda sér bara saman yfir skoðunum á misgóðu útliti fólks, og reglan Ef þú hefur ekkert gott að segja, segðu þá bara ekki neitt gildir bara ekki á þessari vefsíðu. Auk þess sem hún er bara asnaleg, fólk má tjá sínar skoðanir, hvort sem þær eru móðgandi eða ekki. Ef þið eruð ekki tilbúin til að taka því, ekki þá senda inn myndir af ykkur ef eitthvað af ofanverðu á við um ykkur. Sjálf er ég hvorki ljót, feit, cyber goth né skinka en það hvarflar ekki að mér að senda myndir af mér hingað inn. Sama á við um húðflúr og fatnað. Ekki senda inn mynd af drekanum sem þú ert með á hálsinum eða nýja, tólf lita outfit-inu þínu úr Spútnik og Gyllta kettinum án þess að búast við fleimi. Mér þykir leitt að segja það en fólk sem uppfyllir ekki útlitskröfur meðal-hugara en sendir bara samt inn mynd af sér (jafnvel ítrekað) á bara skilið að vera kallað afkáralegt.

3. Ekki senda inn þræði til að drulla yfir nútíma tónlist til að sýna hvað þú ert menningarlegur að vera yfir hana hafinn.
Þræðir um hvað Lady Gaga og annað sem er spilað á FM 957 er ömurlegt eru orðnir þreyttir. Mér og öðrum á Huga er alveg sama um hvað höfundir þessara þráða eru menningarlegir og frábærir að hlusta bara á pre-80s tónlist eða hardcore metal. Hérna er smá newsflash handa ykkur sem mega taka þetta til ykkar; þið eruð ekkert betri en aðrir þótt þið látið ekki bjóða ykkur sell-out tónlist. Þessi lög geta alveg verið skemmtileg þótt það sé ekki mikill metnaður í þeim. Sjálf er ég með mjög breiðan smekk á tónlist, hlusta á allt frá pre-1950 og upp í píkupoppið á FM 957 en ég finn enga þörf á að gera þræði til að drulla yfir þá tónlist sem er ekki sniðin að mínum smekk. Þessir þræðir um hvað er ekki tónlist og hvað tónlist er orðin léleg eru svo ógeðslega tilgerðarlegir að ég fæ hroll.

4. Ekki kvarta undan ritskoðun.
Mér þykir það svo leiðinlegt þegar fólk kvartar undan ritskoðun og kallar mig og aðra stjórnendur fasista fyrir þessi move. Hugi væri ekki ritskoðaður ef ekki væri fyrir ruslþræði og tilgangslaust spamm. Haldið þið að mér finnist gaman að vera þessi stjórnanda-douche sem læsir svörum og sendir viðvaranir? Mér þætti það afar ánægjulegt ef ég þyrfti aldrei að ritskoða, en heimurinn er ósanngjarn staður. En okei, segjum að við stjórnendur hættum bara að ritskoða. Getið þið ímyndað ykkur hvað Hugi, og þá sérstaklega /tilveran, yrði uppfullur af spammi, einnar línu þráðum og almennum leiðindum? Ég get allavega ímyndað mér að vælið hérna myndi aukast til muna, fólk myndi grenja ‘Hvar eru stjórnendurnir? Af hverju fær þetta að lýðast?’ Þá yrði kannski ekki svo slæmt að hafa Birki og Andreu á læsa takkanum og viðeigandi aðvaranir, er þaaaaaaað? Fyrir þá sem eru svo einfaldlega ekki fyrir að lúta reglum huga.is eru tveir möguleikar í stöðunni; biðjið yfirstjórnendur um anarchy áhugamál eða gtfo.

5. Ekki senda inn endalausa þræði um rakstur og/eða pilluna
http://www.hugi.is/kynlif er uppfullt af þráðum sem innihalda spurningar um þessa tvo hluti, og það besta við það er að ÞEIR ERU ALLIR EINS. Er virkilega svona erfitt að skoða bara eldri þræði? Þvílík sóun á plássi. Auk þess sem að sumar spurningarnar eru ekki alveg sniðnar að vitneskjuramma meðal hugara. Nei, ég veit ekki af hverju þú fékkst inngróin hár eftir rakstur þrátt fyrir að hafa gert all by the book, nei, ég veit ekki af hverju þú færð bólur af pillunni sem þú fékkst ekki áður, nei, ég get ekki svarið fyrir að þú verðir ekki ólétt eftir að þú gleymdir að taka pilluna í eitt skipti. Og svo fram vegis. Það eru tvær lausnir, ein fyrir rakstur og ein fyrir pilluna, sem mun spara ykkur pikkið, huga plássið og mér og mörgum öðrum pirring. Skríðið út úr pepsi max dósa fylltu tölvuholunni ykkar, farið í vax og talið við lækninn ykkar.