Jæja, ég hef veeeerulega stórt vandamál sem ég var bara rétt að fatta í kvöld. Endilega reynið að endast við að lesa þetta allt og mögulega reynið að svara :)

Jæja. Málið er að ég hef verið þunglyndur, mjög. Ef einhver stundaði áhugamálið /sorp þegar ég var admin þar man fólk kannske eftir þeim stundum þarsem ég fór í “frí vegna persónulegra ástæðna” oft og mörgum sinnum. Það voru tímar þarsem ég hreinlega réð ekki við þá ábyrgð sem fylgdi admin-starfinu, og á sama tíma datt ég einnig algerlega útúr skólanum þá önnina. Gat aldrei mætt í tíma en fékk alltaf samviskubit frá helvíti eftir á. Ég var eins langt niðri og ég gat mögulega verið, fékk margoft upp þá tilfinningu að ég vildi einfaldlega ekki lifa lengur og mig langaði allra helst til að deyja. Það var mjög algengt t.d. þegar ég ferðaðist í rútu eða strætó að ég óskaði þess innilega að bifreiðin ylti eða keyrði útaf eða eitthvað álíka, svo ég myndi deyja eða allavega fara í langt dá. Vildi þá bara að ég myndi sofa í gegnum þetta tímabil og vakna upp til betra lífs.

Önnina áður hafði ég staðið mig vel í skóla og náð 23 einingum úr önninni. Næstu önn fékk ég bara 2 einingar, og þær báðar fyrir félagsstarf sem ég sinnti sama sem ekkert. Ég var óendanlega óánægður í skólanum og bara með lífið. Persónulegt líf mitt var ekki í sem bestu standi, vegna mikilla down-tímabila átti ég það til að skera mig þó ég hefði lofað vinum mínum að gera ekkert slíkt. Ég bara gat ekki staðið við loforðið! Ekki að ég vilji einfaldlega svíkja þetta fólk, ég bara þurfti einhvernveginn að losna frá innri tilfinningum og ég gat ekki gert það á nokkurn annan hátt.

Ég fór í próf hjá sálfræðingi og ég fékk hæsta sem hægt var að fá í “depurð”. Mér leið einfaldlega of illa. Ég átti til að vera með sting í hjartanu heilu tímana af vanlíðan, þó það væri stundum engin ástæða fyrir þessu sem ég gat komið auga á.

Síðan kom sumarið og það var nokkuð fínt, ég var í vinnu og gekk bara vel. Innan skamms losnaði um þunglyndið og mér fór að líða eitthvað betur, get þakkað vinum mínum það, hafa verið frábærir við mig í gegnum þetta allt saman. Mér leið aftur einsog lífið væri einhvers virði, ég hafði alltaf eitthvað að gera og allt var bara nánast frábært.

En núna hefur skólinn byrjað aftur og mér fer að líða verr og verr. Var með vinum mínum úti í kvöld (27ágúst), og ég get engan veginn kvartað, það var frábært. En um leið og ég yfirgaf þau og hélt heim á leið, fékk ég yfirþyrmandi tómleikatilfinningu. “Skóli á morgun!” Og ég hef pælt frekar í þessu, og þó margt hafi stuðlað að þunglyndi mínu svosem, þá er það sem átti mjög stóran þátt í því sú staðreynd að ég er engan veginn að læra neitt áhugavert.

Ég hef engan áhuga á áframhaldandi stærðfræði, ég fékk átta í samræmda prófinu þrátt fyrir að hafa nánast ekkert lært undir prófið og í grunnskóla fékk ég alltaf auðveldlega níur og álíka. En í framhaldsskóla er ég núna á þriðju önninni í stærðfræði102. Fékk fyrst 3, tók svo ekki prófið og er núna að byrja á þessu aftur. Ég hef alveg getuna til að læra þetta, en áhuginn er langt fyrir neðan núll! Svo er það íslenskan, ég tel mig kunna stafsetningu og almenna málnotkun mjög vel, ég hef actually talið og ég hef fengið undir 10 villur samanlagt í stafsetningarprófum síðan ég byrjaði í skóla. Fann nýlega sögu eftir mig síðan í fyrsta bekk, hún var fullkomlega rétt stafsetningarlega séð. Ég næ dönsku og enskuáföngum alltaf án þess að þurfa að hugsa um það, þessi mál falla mjög vel fyrir mig og ég þarf ekki að læra til að ná prófum í þeim. Hef samt engan áhuga á þessum tímum.

Í stuttu máli er ég einfaldlega fullkomlega óánægður með hvern einasta tíma í stundatöflunni minni, hef engan áhuga á þessu en get ekki lært það sem ég vil læra nema ég klári próf í þessu.

Ég veit vel hvað ég þarf og hvað ég hef áhuga á. Ég elska að skrifa rímur og semja tónlist, er að reyna að detta á fullu inní það núna í mínum mögulega frítíma. Ég elska að skrifa sögur og bara að skrifa eitthvað, þegar ég byrja get ég sjaldnast hætt. Ég hef alltaf elskað video-camerur og allt tengt þeim, þegar ég var í grunnskóla eyddi ég miklum tíma útí félagsmiðstöð að búa til stuttmyndir og eru örugglega til þar a.m.k. 10 stuttmyndir sem ég tók þátt í. Ég elska leiklist þó ég hafi sjálfur fattað að ég er engan veginn góður leikari, get flokkast sem sæmilegur aukaleikari í lélegu skólaleikriti í mesta lagi. Ég elska semsagt að skapa eitthvað svona, tónlist, sögur, rímur, kvikmyndir, það er það sem ég vil gera í lífinu. En nei, ég þarf að halda áfram í skóla og læra efni sem mun engan veginn gagnast mér. Og það gerir mig einfaldlega þunglyndan, og ég hata það!

Hvað get ég gert? Ég vil skapa, ég vil gera eitthvað þannig, en skólinn dregur mig algerlega niður.

Svo er það hitt málið með að ég er einstaklega einmana mjög oft, eiginlega alltaf þegar ég er ekki með vinum mínum. Mig virkilega langar að kynnast stelpu sem getur eytt þessari einmanatilfinningu úr hjarta mínu, en hingað til hef ég algerlega klúðrað öllum málum (að ég held) með öllum stelpum sem ég hef verið hrifinn af.

Ég er einmana gaur sem þolir ekki stundatöfluna sína basically.

Mér leiðist þetta líf sem ég lifi núna, kíki af og til út með vinum, fer í skólann og eyði svo frítímanum heima í tölvunni. Ég þarf ferskleika í lífið, ég vil gera eitthvað, gera eitthvað algerlega óútreiknanlegt. Ég hefði t.d. ekkert á móti því að skreppa í surprise-ferð til útlanda núna í vikunni með skemmtilegu fólki og eytt ferðinni í að skapa og skemmta mér, það er aaaakkúrat það sem ég vil núna, hef nú reyndar ekki efni á því. Ég vil gera eitthvað sem fólki dettur venjulega ekki í hug að gera, ég vil gera eitthvað spennandi og skemmtilegt.

Ég veit hvað ég þarf að gera, ég þarf að rífa mig upp af rassgatinu og fara actually að gera þessa hluti í staðinn fyrir að væla um þetta hérna. Veit hinsvegar ekki hvað ég get gert í sambandi við skólann. Og ég veit ekkert hvað ég get gert til að losna við þennan einmanaleika, og veit ekkert hvað ég get gert til að losna fullkomlega við þetta þunglyndi sem hangir yfir mér og skellir sér niður á mig þegar ég síst býst við því. Ég er orðinn hundleiður á þessu öllu!

Nú væri gaman hinsvegar ef ég gæti komið samhengi í greinina en ætli hún verði ekki að vera fremur samhengislaus. Endilega reynið að skilja hvað ég er að tala um, og mögulega gefa ráð ef þið getið :)