Svart er það. Dauðinn nálgast. Með hverri sekúndu styttist líf þitt. Pældu aðeins í þessu. Þú gætir vel lent fyrir bíl á morgun. Eða runnið til í sturtunni og drepist. Þú ert viðkvæmt tól. Það þarf ekki mikið til að þú bilir.

Þrátt fyrir stöðuga hættu á því að lenda undir fallandi píanói, öðum við áfram í ys og þys nútímans, og gleymum að stöðva andartak, og njóta nú aðeins lífsins. Við baktölum náungann, og sumir ganga jafnvel svo langt að þeir hafa ekki einu sinni fyrir því að fela andúð sína. Munið, aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Allir eru skemmtilegir. Allir eru fyndnir. Þetta er spurning um viðleitni. Ef þú sérð einhvern, átt þú gjarnan til að dæma hann strax, eftir útliti hans og fyrstu kynnum þínum af manneskjunni. En, oft er það þannig að fyrstu kynni gefa ranga mynd af persónuleikanum. Þegar þú talar við mannveru, átt þú umfram allt að vera opin, nú eða opinn, fyrir hans persónuleika, og leyfa þér að aðlagast persónuleikanum. Ef þú ferð eftir þessum ráðum, þá mun þér finnast fólk mun minna pirrandi. Eins og ég sagði, þetta er bara spurning um viðleitni.

Þegar þú ert farinn að líta á fólk öðrum augum, muntu sjá að heimurinn virðist skemmtilegri einhvernveginn. Þú hættir jafnvel að láta þessa litlu kæki, sem sumir vinir þínir og kunningjar hafa, fara í taugarnar á þér. Þetta er hluti af þeirra persónuleika.
Breiddu arminn út mót þeim, sem fáa vini hafa. Vendu þig persónuleika manneskjunnar, og þú gætir jafnvel verið kominn með tryggan vin til æviloka. Þeir sem jákvæðir eru, lifa oft betra lífi.

Samt er það ekki endilega svo létt, að líta jákvæðum augum á lífið. Það koma augnablik, þar sem þú ert orðinn svo yfir þig pirraður, nú, eða pirruð, á vinum þínum og vandamönnum, og bara lífinu yfir höfuð, að þú sérð engan tilgang í þessu. Þú freistast jafnvel til þess að taka líf þitt, þegar tilgangsleysið virðist endalaust. En, ef þér líður þannig, hvet ég þig til að trúa vinum og vandamönnum fyrir þessari líðan þinni, og leyfa þeim að fá hjálp fyrir þig. Því að þegar að þér líður ekki svona lengur, þá muntu sjá ánægjuna í því að dansa við blómin, ánægjuna í því að sjá andlit ljóma upp af einskærri hamingju, ánægjuna af því að lifa.




Ég þakka þeim er lásu þessa grein. Ég veit að það hefur nokk svipuð grein borist hingað fyrir stuttu, en þessi er nú samt eilítið öðruvísi. Lífið getur verið mjög gott.