Sjálfgerðir fjötrar eru traustastir fjötra. Þannig orti Sigfús Daðason; og sú er staðan nú. Það var tekið veð í þjóðskránni án þess að þjóðin væri spurð og nú eigum við að viðurkenna veðið og játa á okkur glæpinn. Við erum að játa á okkur glæp sem við höfum ekki framið. Leyfið mér að vitna í Evu Joly: Einar Már á Austurvelli 13.8.09 “Ísland þar sem eru einungis 320 þúsund íbúar sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrgði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða.” Já, það er verið að hneppa okkur í ánauð. Icesave samningurinn er fyrsta stigið, skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er næsta stig og þannig koll af kolli, þar til einhverntíma í framtíðinni, þá fáum við afsökunarbeiðni á þeim mistökum sem verið er að gera núna … en þá verður það of seint … Þeir segja að við verðum Kúba norðursins ef við samþykkjum þetta ekki. En ættum við þá ekki að bæta því við: Við verðum Haítí norðursins ef við samþykkjum þetta. Þar var gengið að öllum kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nú ríkir þar hungursneyð. Á sunnudaginn var páfi að biðja fyrir Argentínumönnum vegna nákvæmlega sömu mála. Prógram Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur gert hálfa argentínsku þjóðina að fátæklingum. Þess vegna erum við komin hingað og þessu mótmælum við. Öll. Við eigum að játa á okkur glæp sem við höfum ekki framið. Við eigum að axla byrgðar hins alþjóðlega fjármálakerfis og verða Breiðavíkurdrengir þess. Í rauninni er þessi vandi ekki vandi þjóðarinnar heldur eigenda þessa einkavædda banka sem rakaði til sín fé í gegnum ICESAVE reikningana á sínum tíma. Okkar vandi er sá að stjórnvöld þessa lands og stjórnmálamenn vilja taka þennan vanda af eigendum bankans og færa hann yfir á okkur og ekki síst afkomendur okkar. Þetta getum við ekki samþykkt. Þessu mótmælum við öll.

Við ykkur í þinghúsinu segi ég: Hættið að bulla. Hættið að tala um vinaþjóðir, innistæðutryggingar, alþjóðasamfélag. Alþjóðasamfélagið er samfélag hinna ríku þjóða, innistæðutrygging þýðir þjóðnýting á tapi og vinaþjóðir er fróm ósk og gildir ekki yfirvöld og auðmagn. Svíar eru ekki Einar Már á Austurvelli 13.8.09 óvinir okkar en sænska fjármálakerfið fjármagnaði bankakerfi Eystrasaltsríkjanna þegar þau voru markaðsvædd og rænd. Sænskt fjármálalíf horfir því á svipað hrun þessara banka og skilur því málflutning Gordons Brown jafn vel og hann sjálfur, nei ruglið þessu ekki við vináttu, en Gordon Brown er einn helsti hugmyndafræðingur fjármálakerfisins í City og reglur þess eða réttara sagt regluleysi varð leiðarljós hins íslenska fjármálakerfis. Í þessu samhengi skipta öll ykkar lögfræðiálit engu máli né heldur hvað mennirnir í samninganefndunum heita. Það ríkir fjármálastríð í heiminum þar sem úrsérgengið kerfi reynir að ræsa vélarnar og á því verkstæði moka stjórnvöld okkar kolum einsog óð væru. Einn vitrasti hagfræðingur heims segir: “Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er nokkurs konar handrukkari alþjóðlegra lánardrottna og innheimtir tekjur … fyrir þá. Það ótrúlega er að þjóðir um allan heim eru að glata efnahagslegu og peningalegu sjálfstæði sínu án mótspyrnu.” Er það ekki nákvæmlega þetta sem við erum að gera með samþykkt ICESAVE-samningsins: Við erum að láta hneppa okkur í skuldafangelsi án minnstu mótspyrnu. Það er verið að gera okkur ábyrg fyrir fullkomlega ábyrgðarlausu fjármálakerfi, en áður var okkur sagt hið gagnstæða. Eigendur bankanna báru svo mikla ábyrgð. Þess vegna þurftu þeir himinhá laun og kaupauka. Sem sé; gróðinn skal einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Ef við samþykkjum þetta er hægt að láta okkur samþykkja hvað sem er. Jafnvel í undirheimunum þætti þetta ókurteisi.

Það breytir í raun engu hvort ICESAVE - samningurinn er vondur eða góður. Hann er í eðli sínu rangur. Ríkisstjórnin verður að sýna okkur hverjar þessar eignir eru. Þetta erum við búin að segja lengi en nú kemur bandarískur bankasérfræðingur og segir nákvæmlega það sama. Bandaríski Einar Már á Austurvelli 13.8.09 sérfræðingurinn veit einsog við að þegar lið kaupir knattspyrnumann vita forráðamenn þess hvernig hann er á sig kominn. Þeir undirrita ekki bara kaupsamning og síðan birtist feitasti maður í heimi og getur hvorki hlaupið né sparkað. Jafn misvísandi eru fregnirnar um eignir Landsbankans. Annars hefðu Bretar bara tekið þær en þeir vilja ekki taka þær. Þeir vilja taka okkur. Það eru svo góð veð í okkur. Þetta er bara hreint og klárt kennitöluflakk. Eigendur og stjórnendur Landsbankans eru með fullt af fyrirtækjum í rekstri og alls konar gjörninga í gangi. Þeir hafa valdið svo miklu tjóni með þessu fyrirtæki sínu að það á að ganga á önnur fyrirtæki þeirra og eigur. Það hefur enginn rétt á að setja þjóð á hausinn með þessum hætti. Og þjóð sem lætur setja sig á hausinn með þessum hætti, hver verða eftirmæli hennar? Peningarnir af ICESAVE reikningunum runnu til útrásarvíkinganna og fyrirtækja þeirra. Baugsfyrirtækin skulda hundruð milljarða. Eignir eru færðar yfir á önnur fyrirtæki en skuldir skildar eftir. Og aldrei skortir þá lögfræðiátlitin. Eigum við að láta þá komast upp með þetta? Eða eigum við að kenna þeim að reikna og setja jafnaðarmerkið á réttan stað? Bara arðgreiðslurnar úr loftbólufyrirtækjunum sem nú hvíla á ríkinu voru jafn háar og ICESAVE skuldbindingar ríkissjóðs og sömuleiðis ágóði íslenskra auðmanna af skortstöðutökum gegn íslensku krónunni. Ríkisstjórnin stendur sig illa í að kynna málstað okkar, enda er hún með allt kerfi gömlu stjórnarinnar í vinnu. Og hvar er forsetinn með öll sín sambönd? Eða þekkir hann bara auðjöfra og fjárglæframenn?

Við hljótum að spyrja: Þegar upp er staðið, hvað er það sem skilað hefur þjóðfélagi okkar árangri? Það er ekki hin sjálfumglaða fáviska sem aðeins hefur tekið út úr þjóðfélaginu en ekki skilað neinu til þess. Það er barátta alþýðunnar, sem skilað hefur okkur árangri. Það var baráttan á síðustu öld Einar Már á Austurvelli 13.8.09 sem skilaði okkur öflugu velferðarkerfi, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, símalínum, sundlaugum, lífeyrissjóðum og þannig mætti lengi telja. Hið svokallaða góðæri fólst í því að afrakstur stéttabaráttunnar, sameign fólksins var einkavædd og gerð að söluvöru. Það sem áður var sameign fólksins, fiskurinn, síminn og bankarnir, svo dæmi séu tekin, var færð til einkaaðila á silfurfati og henni sólundað. Góðærið fólst í því að svokallað „dautt fjármagn“, það er að segja þessi sameign fólksins, var sett af stað. Umferð þessa fjármagns skapaði veltu í samfélaginu, góðæri, en nú er þeirri umferð lokið. Það má eiginlega segja að það hafi orðið umferðarslys. Fjármagni fólksins hefur verið eytt i einskisnýtt drasl, glerhallir og partí og fátt er eftir til að selja. Þótt stór hluti góðærisins væri hagbóla, byggð á draumórum, þá má ekki gleyma því að undirstaða þess voru raunverulegar eignir fólksins: Fiskurinn, lífeyrissjóðirnir og ríkisfyrirtækin. Lífeyrissjóðir hafa verið mergsognir með aðstoð gjörspilltra stjórna og einkavæðing bankanna gerði auðmönnum kleift að skuldsetja fyrirtæki og félög og greiða sjálfum sér arð án þess að nokkur verðamætasköpun ætti sér stað. Sameign fólksins, hinu „dauða fjármagni”, var sóað. Það er okkar hlutverk að endurheimta það. Við þurfum að byggja upp nýtt hagkerfi þar sem þjóðin á auðlindirnar og það sem henni ber samkvæmt stjórnarskrá: nýtingarrétt á náttúruauðlindum og aflaheimildum í sjó. Við þurfum að brjótast gegn bölvun spillingar og því segi ég:

Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:

Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.

Við roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina