Ég var að vinna að sálfræðiverkefni nýverið, sem fól í sér það að ég átti að kanna hvort möguleiki væri á því að í framtíðinni yrðu framleidd vélmenni sem væru gáfaðri en mennirnir. Ég ætlaði að búa til myndband með viðtölum og tilheyrandi. Spurningin var sú, hvert leitar maður ef maður vill taka viðtal við einhver þekkt andlit um jafn fáránlegt mál? Ég byrjaði á að leita til Sigurðs H. Richter, sem allir ættu að þekkja úr þáttunum um nýjustu tækni og vísindi, en hann tjáði mér það að hann væri bara einfaldur grasafræðingur og gæti lítið sagt um þetta mál. Hann benti mér hins vegar á háskólann, sem ég leitaði til en fátt var um svör.

Því næst ákvað ég að leita til alþingismanna, ég sendi Davíð Oddsyni og starfsfélögum hans öllum fyrirspurn um hvort þeir væru tilbúnir til þess að veita mér stutt viðtal þar sem þessar vangaveltur yrðu skoðaðar frá þeirra persónulega sjónarhorni (ekkert pólitískt þar). Engin svör bárust nema frá einum ráðherra.

Ritari Guðna Ágústssonar hringdi í mig til þess að tilkynna mér það að Guðni væri meira en til í að taka þátt í þessu. Hann væri reyndar að fara til útlanda og gæti ekki gert þetta fyrr en hann kæmi til baka, en málið var að hann var eini alþingismaðurinn sem gat séð sér fært að taka sér tíma frá áætlun sinni til þess að tala við ungt fólk um málefni sem öllum er sama um. Það gerir Guðna Ágústsson að ráðherra fólksins.

Það má fylgja sögunni að ég féll á mætingu í skólanum og gerði aldrei verkefnið, og þar af leiðandi tók ekki viðtalið við hann Guðna, en viti menn, nú fyrir um fimm mínutum hringdi ritari landbúnaðarráðherra í mig aftur (og það er ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta) til þess að tjékka hvort það yrði nokkuð eitthvað úr þessu. Þegar ég tjáði henni það að svo væri ekki, þá sagðist hún bara vilja vera alveg viss, og hún vildi líka benda mér á það að þetta hefði ekki gleymst af þeirra hálfu (það var ég sem gleymdi). Svo spurði hún hvort ég vildi ekki bara hafa samband næsta haust ef að ég vildi eitthvað ráðfæra mig við ráðherrann um önnur málefni.

Mín niðurstaða er því þessi: Guðni Ágústsson er svalasti ráðherrann eins og stendur. Hann er 100% maður fólksins og á allt gott skilið.

Það er amk mitt álit.. ég veit ekki með ykkar.