Af tilefni nýs huga og í framhaldi af samræðum sem hafa ofist um aðra grein datt mér í hug að senda inn gamalt bréf sem ég skrifaði til vinar míns, sem var forvitinn um stjórnmálaskoðanir mínar og ósammála þeim. Svo fyllstu sanngirni sé gætt tek ég fram að ég hef breytt því smávegis til að endurspegla breyttar skoðanir.

Noam Chomsky hefur fjallað um “power structures” víða og hefur þá skoðun að ef valdkerfi, ef við köllum þær það, eru til staðar, þá eigi maður að grandskoða þau, athuga hvort þau hafi réttlætt tilvist sína, og brjóta þau niður ef það er ekki tilfellið. Ástæða þess að ég tel fólk almennt sátt við tilvist ríkisins og ástæða þess að ég er algerlega ósammála notkun almenningsálits í réttlætingu valdkerfa er einfaldlega að ég er búinn að athuga það valdkerfi sem ríkið er og hef komist að því fyrir mitt leiti að það er ekki réttlætt, og það að aðrir hafi ekki gert það eða hafi gert það og komist að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi þeirra hagsmuni fyrir brjósti eða þvíumlíkt er mér óviðkomandi.

Almennt er ekki hægt að ganga út frá því að neinn viti betur en maður sjálfur hverjar þarfir manns eru. Hver þekkir sjálfan sig og þarfir sínar best og er þannig, að öllu jöfnu, færastur um að taka ákvarðanir um eigin velferð. Undantekningartilfelli eins og geðveilar manneskjur hljóta mismunandi meðferð eftir mismunandi samfélögum og réttarkerfum og ég sé ekki af hverju ríkisvald sé betri leið til að ákveða hver sú meðferð er heldur en “nágrannavald”.

Hvað varðar réttlætingu nágrannavalds þá er það valdkerfi sem hver nágranni fyrir sig þarf að grandskoða jafn oft og hann vill, getur og nennir. Nágrannavald er mikið auðveldara til athugunar en ríkisvald, enda nær manni, einfaldara og smærra. Það að auðvelt sé að rannsaka kerfi finnst mér bónus, því það að ekki sé hægt að réttlæta valdkerfi getur bæði orsakast af óréttlætanleika þess eða stærð þess, sem getur gert það of flókið til rannsóknar. Þessi röksemd er til dæmis grundvöllur andstöðu margra við ESB og stuðnings við aukið vald sveitastjórna.

Ef maður vill réttlæta meirihlutaræði þá er eðlileg spurning til að byrja með hve stór eining lýðræðisins á að vera. Allt mannkyn? Þá gætu yfir þrír milljarðar orðið undir ofríki meirihlutans, sem Alexis de Tocqueville kallaði það. Væri þá betra að smækka eininguna? Fyrir mér er hvergi hægt að gera samanburð af þessum toga og komast að því að stærri einingin sé réttlátari en sú smærri, og augljós afleiðing þess er það sem kalla mætti einstaklingsræði.

Svo við hugum að praktísku hliðinni þá tel ég það fólk, sem rannsakað hefur valdkerfi ríkisins og telur það óréttlætanlegt, vera í ástandi til að halda við ríkisleysi svo vel sé, á sama hátt og ég tel þann yfirgnæfandi meirihluta Íslendinga sem fylgjandi eru fulltrúalýðræði færa um að viðhalda því. Ef fólk er meðvitað hamingjusamt með ástand þá bregst það við ef ástandinu er stefnt í hættu. Íslendingum þótti vegið að ákjósanlegu ástandi sínu um miðja síðustu öld með niðurbroti hlutleysis landsins, og fyrir nokkrum árum með spillingu, svo það brást við. Sumir gengu lengra en aðrir, og það er bara eðlilegt að sumir leggi sig meira í líma við að verja sína hagsmuni, hvort sem það er vegna þess að þeir eru meðvitaðri um kosti þeirra eða vegna þess að þeir eru fórnfúsari fyrir þeirra hönd.

Það að á endanum hafi hlutleysi landsins brotnað niður hvort sem er, og að spilling hafi haldið áfram sem endranær* segir mér tvennt. Annars vegar að ríkinu er tiltölulega sama um almenning þegar á hólminn er komið, og er reiðubúið að gera honum grikk ef ekki dugir að kaupa velvild hans með velferðarkerfi, og hins vegar að fólki var of sama um þessa hluti til að ganga lengra en það gerði í að varðveita ákjósanlegt ástand.

Ég mælist alls ekki fyrir því að ríkið verði lagt niður um allan heim í allsherjar febrúarbyltingu, heldur er sjálfur frekar hlynntur kommúnukerfinu og því sem hefur verið kallað gegn-hagfræði (counter-economics) eða hagfræðileg úrsögn (economic secession). Kommúnukerfið er líkt Kristjaníu, þar sem andríkissinnar taka sig saman og afneita ríkisvaldinu, máske með hjálp gegn-hagfræði eða hagfræðilegri úrsögn, sem felst í upptöku eigin gjaldmiðils og svarts hagkerfis, sem er auðvitað hluti afneitunarinnar. Sú leið var farin síðla í Sovétríkjunum. Ég og fleiri höfum líka verið að spá í mínarkisma, sem felst í takmörkun ríkisvaldsins innan frá. Slíkt myndi gera hagfræðilega úrsögn auðveldari, því þá væri minna eftir til að segja sig úr. Ég hef aftur á móti litla trú á því sem heildrænni taktík, því það er alþekkt að “pólitík er ótemja sem bugar knapann”, í orðum Hugleiks Dagssonar.

Það gæti verið ljóst út frá því sem ég hef þegar sagt að ég vil ekki haga neinu á einn hátt fyrir alla, enda gæti ég það bara með valdi, heldur vil ég gefa sem flestum færi á að ákveða hver fyrir sig hvað þeim hentar, og því heldur lítið sem ég get sagt um hvernig ég myndi haga eignarrétti nema fyrir mitt leiti. Að halda einhverjum frá hlutum eða landi með valdi er að mínu mati óréttlátt. Ég myndi ekki gera það og myndi mótmæla þeim sem reyndi það. Einhverjir vilja meina að blöndun vinnu og afurða jarðarinnar skapi rétt til þess á náttúrulegan máta. Fyrir mér er þetta ekkert annað en hjátrú sem ekki skaðar neinn sem trúir á hana, en ætti ekki að hafa forgang yfir vantrú annarra á þeim rétti. Þetta er þó tilefni í aðra umræðu.

*Þetta er reyndar ekki endilega eina ástæðan fyrir búsáhaldabyltingunni, en ég skelli þessu undir einn hatt til hagræðingar.