Nú deila menn hart um aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka,aðgerðir lögreglu, og að sjálfsögðu framvæmdirnar sjálfar og orð og gjörðir þeirra sem að þeim standa.
Ég var ekki staddur þarna þegar virðist hafa skorist í odda milli lögreglu og mótmælenda og veit því ekki hvor átti upptökin eða hvernig þetta fór beinlínis fram, enda stendur vissulega nokkuð orð mórti orði.
Ég veit hins vegar að fréttaflutningur af mótmælunum hefur einkennst af miklu háði í garð mótmælenda og mótmæla. Alltaf talað um hve fáir þeir séu, ef þeir mótmæla friðsamlega er litið á þá sem sauðmeinlaus grey og kjánalega en um leið og þeir taka sig til og beita beinum aðgerðum, þá er talað um þá eins og verstu hryðjuverkamenn, þá fyrst fá þeir einhverja meiri athygli. Ég þekki það af eigin raun hvernig lögregla getur beitt valdi sínu gagnvart friðsömum mótmælendum, ef þeir gera ekki eins og valdstjórnin býður þeim. Ef lögreglan veitist að mér er hún að vinna vinnuna sína, en ef ég verst henni þá er ég að ráðast á laganna vörð. Upphæðirnar sem fyrirtækin nefna og hið gífurlega tjón er líka áhugavert að skoða. Eftir skyrslettuhryðjuverkin ógurlegu var talað um 5 milljóna eignatjón, hvorki meira né minna. Svo var upphæðin einhverja hluta vegna minnkuð, uns hætt var við að krefjast skaðabóta. Af þremur mótmælendum var einungis einn kærður. Það var auðvitað „helvítis útlendingurinn“, Paul Gill. „Atvinnumótmælandinn”, „málaliðinn” „náttúru-hryðjuverkamaðurinn“. Hvað þið viljið kalla hann. Nú var málað á skilti, brotin rúða í bíl og spreyjað á vinnuskúr. Að sögn er ekki hægt að ná því af. Nú veit ég ekkert um það. En það er talað um tjón frá tugum þúsunda upp í hundruðir þúsunda. Finnst mér einum vera dálítill munur á hvort það eru tugir eða hundruð? Hef ég einn á tilfinningunni að þeir nefni einhverja tölu út í loftið og reyni að gera sem mest úr tjóninu sem þeir geta? Stóriðjuhöldar vilja kæra mótmælendurna og vísa „helvítis útlendingunum“ úr landi. Hvað sem aðgerðum líður styð ég málstað mótmælenda. Finnst mér einum þetta tjón smámunalegt miðað við þau gífurlegu náttúruspjöll sem þessir menn eru að vinna landinu okkar með þessari virkjun og vilja auka með frekari stóriðju? Hvað sem mönnum kann að finnast um eignatjón þá er ljóst að orðræðan dugði ekki til. Skýrslur, rannsóknir, greinar, umræða, það var ekki hlustað á neitt af þessu. Rök skiptu engu máli fyrir stóriðjuhölda. Mér fannst flott hjá mótmælendum að hlekkja sig við vélarnar. Slíkt skemmir ekkert, tefur framkvæmdir og sýnir að mótmælendur eru ekki bara meinlausir kjúklingar sem hægt er að hunsa. Að ætla mótmælendum einn dag til að taka niður búðirnar er svívirðilegt. Þetta er aðeins stærra batterý en svo að það verði gert si svona. „Hafa þessir menn ekkert betra að gera?” spyr Jón Kaldal í Fréttablaðinu í gær. Þá spyr ég: Hafa fréttamenn ekkert betra að gera en að hæðast að mótmælendum sem vilja ekki sjá landinu rústað, gríðarlegu fé er eitt í þetta dæmi, kapítalið fer aðallega út úr landinu, útlendingar verða mest að vinna þarna, við þrælakjör. Þessu eru mótmælendur tilbúnir að berjast gegn og munu vonandi halda áfram af efldum krafti. Á sama tíma hæðast menn að þeim, sömu menn og hafa ekki hreyft litlafingri til að sporna gegn eyðingu náttúrunnar, og er eflaust skítsama um hana. Auðvitað var varla séns á að geta stöðvað aðgerðirnar við Kárahnjúka, og varla margir sem bjuggust við því. Þetta var fremur fordæmi, til að láta áljöfra finna að þeir eru ekki velkomnir og við munum ekki láta þá komast upp með áframhaldandi framkvæmdir án baráttu.