Frjálshyggjufélagið minnir mig á sértrúarsöfnuð. “Óskeikulir” leiðtogar þeirra eru Milton Friedman og Davíð sonur hans. Gallinn við sértrúarsöfnuði er vitlaus, en óbifandi sannfæring fyrir réttleika kenningarinnar. Kenning er bara kenning og það er reynsla sögunnar sem metur árangurinn.

Walter Lippman lýsti þessu vel í Public Opinion. Gömlu hagfræðingarnir lögðu upp með að lýsa félagskerfinu sem þeir bjuggu í og komust að því að það var of flókið til að lýsa því með orðum. Þess vegna settu þeir saman það sem þeir vonuðu að gæti talist einfalt skema af kerfinu.

Þetta skema samanstóð af kapítalista sem hafði bjargað fjármagni frá þeim sem unnu fyrir hann, athafnamanni sem skapaði eftirspurn og stofnaði verksmiðju, samsafni vinnandi manna sem gerði frjálsa samninga (þ.e. þeir gátu samþykkt þá eða ekki) fyrir vinnu sína, landeiganda og hóp af neytendum sem keyptu á ódýrasta markaðnum þær vörur sem myndu veita þeim mesta ánægju. Þeir sem höfðu auðgast mest af iðnaði sáu í digrum sjóðum sínum merki um velgengni sína en þeir sem höfðu orðið halloka í samkeppninni sáu merki um hversu illa þeim tókst til. Iðnjöfrarnir útskýrðu því hagfræði og dyggðir stórviðskiptanna þannig að hana ætti að láta í friði þar sem þeir væru verndarar og skaparar velmegunar og framfara í viðskiptum. Þeir sem urðu undir lýstu þeirri sóun og ofbeldi sem kerfið leiddi af sjóðunum og mótmæltu. Endalausar tölfræðigreiningar og spakmæla um hinn raunverulega sannleika voru settar fram til að sanna báðar hliðar málsins. Þeir sem höfðu undirtökin höfðu meiri burði til að kynna sína hlið málsins og þegar þeim hefur tekist að mynda staðalmynd af málinu fer athygli okkar að þeim staðreyndum sem styðja hana en ekki að þeim sem eru gegn henni. (bls. 77 – 78).

Og það er það sem frjálshyggjan er, kenning, ekkert annað. En kenningin hefur verið prófuð í hinum raunverulega heimi. Hvernig skyldi nú hafa tekist til?

Árið 1975 heimsótti Friedman Chile undir einræði Augustos Picochets. Þar hélt hann fyrirlestra um hagfræði og sannfærði Pinochet um hvernig ætti að haga málum. Hann safnaði saman fylgismönnum sínum frá háskólanum í Chicago, sem seinna hafa gengið undir nafninu “Chicago boys”. Þessi hópur fékk vinnu hjá Pinochet sem ráðgjafar um hvernig ætti að stjórna landinu. Næstu níu ár mótaði þessi hópur stefnu Chile í efnahagsmálum og fengu þar á silfurfati tækifæri til að sanna hvað í kenningunum byggi. Á stuttum tíma voru frjálshyggjuaðgerðirnar settar í gang; lágmarkslaun voru lögð niður, samningsréttur stétta- og verkalýðsfélaga var gerður útlægur, lífeyriskerfið var einkavætt, allir skattar á hagnað fyrirtækja og hátekjur einstaklinga voru lagðir niður, störf á vegum hins opinbera voru lögð niður og 212 ríkisfyrirtæki voru einkavædd. Ríkisbankarnir voru seldir á 40% undir markaðsverði og innan skamms höfðu tveir iðnjöfrar eignast allt bankaveldi Chile. Þeir nýttu sér fljótlega stöðu sína til að kaupa upp iðnað í landinu og notuðu þær eignir sínar sem veð í lán og veittu þeim erlendu fjárfestum sem vildu lán til að kaupa þær gjafir sem einkavæðing ríkisins gaf af sér.

Útkoman af þessum aðgerðum stóð ekki á sér og var mikið undur; Chile fór í rúst. Þegar Allende var við stjórn var atvinnuleysi í chile 4.3%, 1983 var það orðið 22%. Kaupmáttur launa í Chile hrundi um 40% og undir lok valdatíma Pinochets bjuggu 40% Chilebúa undir fátæktarmörkum. Milton og félagar lýstu þessu sem miklu efnahagsundri, “the fairy tale miracle of Chile” var frasi sem Milton smíðaði sjálfur við tilfellið.

Auðvitað má ekki gleyma því að taka með í undrið það að Pinochet pyntingum og morðum á pólitískum andstæðingum svo undrið gæti starfað óáreitt. Milton var fullkunnugt um Operation Condor, sem var barátta Picochets, Stroessners, Videla og fleiri yfirmanna Suður-Amerískra hægri-herstjórna við andstæðinga sína. Morð á þúsundum pólitískra andstæðinga voru framin útum allan heim. 6. mars 2001 skýrði New York Times frá því að í skjali sem leynd hafði verið aflétt af kom fram að bandarísk stjórnvöld tóku þátt í þessari baráttu. Stjórn Nixons og utanríkisráðherra hans, Henry Kissinger, hafði eins og forverar hans áhyggjur af því fordæmi sem Kúba hafði sýnt með því að taka mál sín í eigin hendur og gögn CIA sýna að leyniþjónusta BNA var tengd aðgerðunum
(sjá http://www.gwu.edu/~nsarchiv/news/20010306/).

Chicago strákarnir héldu um stjórnartaumana í Chile frá árinu sem Milton fékk verðlaun sænsku akademíunar í hagfræði og eins og áður sagði lét árangurinn ekki á sér standa. Á árunum 1982 og 1983 féll þjóðarframleiðsla Chile um 19% og spilið var búið. Efnahagur Chile var formlega í rúst og Pinochet hafði ekki þolinmæði fyrir meiri tilraunir. Strákarnir voru reknir og Pinochet stóð frammi fyrir ónýtum gjaldmiðli, gjaldþrota fyrirtækjum og reiðum íbúum ríkisins sem höfðu misst atvinnu, fé, lífeyrisréttindi og velferðakerfi sitt. Pinochet tókst að bjarga því sem bjargað varð og það ekki með nýfrjálshyggju Miltons Friedmans. Hann endurvakti lágmarkslaun og réttindi verkalýðsfélaga og setti á fót sósíalískt, eða Keynískt, prógramm um að skapa 500 þúsund ný störf. Hann þjóðnýtti aftur bankana og ýmsan iðnað og mikilvægast af öllu var að hann þjóðnýtti koparlindir Chile og landbúnað. Með þessum aðgerðum tókst að rétta efnahag Chile við.
Augljóslega eru fylgismenn Miltons hæstánægðir með árangurinn.

Af einhverjum undarlegum ástæðum var hugmyndin ekki grafin í kyrrþey. Innan skamms höfðu tvö af valdamestu ríkjum heims tekið kerfið upp. Níundi áratugurinn var tími Reagan og Thatcher stjórnanna. Hannes Hólmsteinn hefur predikað hugmyndafræðina sem náði á undraskömmum tíma að knésetja efnahag Chile. En frjálshyggjan hefur gagnast hinum allra ríkustu, þeir hafa undirtökin og kannski nægir það til að auka fylgi við hana.