Undanfarið hefur umtalsverð umræða verið um minimótin og hvernig skuli staðið að þeim (hægt er að lesa anga af þeirri umræðu hér í korkunum). Ég ákvað að punkta niður nokkrar hugmyndir mínar. Þeir Skari og Jens fóru jú fram á að einhverjar hugmyndir kæmu fram um hvað væri hægt til að gera mótin eftirsóknarverðari, bæði fyrir stjórnendur sem og spilara.

Ég sem spilari sækist fyrst og fremst eftir tvennu. Annars vegar að spila skemmtileg, krefjandi og frumleg ævintýri. Auðvitað er ekki til nein töfralausn, að því hvernig slíkt ævintýri er. Það fer jú eftir kerfi og/heimi. Ég kýs þó helst að ævintýrin sem ég spila kalli á ég þurfi að hugsa, bæði í persónu og sem spilari. Að ævintýrin krefjist þess af mér ég geti sett mig í aðstæður en til þess þarf stjórnandi náttúrulega að hjálpa mér að sjá fyrir mér aðstæðurnar. Að ævintýrin séu frumleg en detti ekki niður í löngu bragðlausar tuggur, þó svo gaman sé að leika sér með klisjurnar (gott dæmi um hvernig unnið er með klisjur, eru t.d. Shrek kvikmyndirnar). Nú eru fjölmörg ævintýri sem vinna einmitt með klisjur og gera jafnvel mikið úr þeim, en hafa eitthvað annað í staðinn, t.d. góða sögu, skemmtigildi þeirra er hátt eða frumleikinn felst í öðrum þáttum (mér finnst Classics gott dæmi um klisjukennt ævintýri sem fer þó vel með klisjurnar). Mér finnst mikilvægt að stjórnendur sem ákveða að taka klisjur og gera úr þeim ævintýri, að þeir reyni amk. að höfða til mín á hinum sviðunum, annars er hætt við að ég, sem hef spilað kannski fulllengi, missi áhugann fljótt.

Hitt atriðið sem ég sækist eftir er að spila áhugaverða persónu. Ég vil að hún sé eitthvað meira og annað en tölur á blaði. Myndir, bakgrunnslýsingar/-saga skipta mig gríðarlegu máli. Mér nægir ekki á mótum að láta rétta mér persónublað þar sem er búið að fylla út í nauðsynlegustu tölurnar og síðan ekki söguna meir. Þegar ég bý mér til persónu þá tekur það drykklangan tíma, því ég reyni að búa til einhvern persónuleika, eitthvað sem ég þarf að nota til að spila og setja mig inn í hugarheim viðkomandi. Talan 7 í charisma segir mér ósköp lítið (annað en að viðkomandi er ekki efni í paladin eða sorcerer), en ef sú saga fylgir að viðkomandi er mjög óöruggur, stamar og vill helst ekki tala fyrir framan aðra, af því hann varð fyrir áfalli í æsku, þá segir talan mér heilmargt. Annað sem er mikilvægt við áhugaverða persónu, er að hún er sérstök. Allir eru sérstakir, það skiptir engu máli hvaða einstakling við skoðum. Mér finnst mikilvægt að stjórnandi sem réttir mér persónublað útskýri fyrir mér hvað er það sem gerir þessa persónu sérstaka. Af hverju er viðkomandi eins og hann/hún er? Ég held, að æskilegast sé að koma með einhverja punkta um persónurnar en leyfa síðan spilurunum að vinna úr punktunum.

Sem stjórnandi snúa ofangreind dæmi einmitt að mér. Ég reyni að skapa ævintýri sem ég hefði gaman af því að spila. Ég legg mikla vinnu í að skrifa upp ævintýrin mín. Ég er kannski af kynslóðinni sem TSR ól upp. Fyrir þá sem ekki vita, þá var TSR það fyrirtæki sem gaf út D&D og Ad&d til að byrja með en var síðar keypt af WoTC. TSR gaf út ógnarmikið af ævintýrum sem mörg hver voru virkilega vel skrifuð og það situr í manni. Sem stjórnandi er ég enn þann dag í dag að sækja í þann brunn sem þessi ævintýri eru. Þessi ævintýri fylgdu mjög einföldu skipulagi og má finna í flestum sögum í dag, jafnt skáldsögum sem Íslendingasögum. Skipulagið er svona:

Kynning: Aðstæður, aukapersónur osfrv. kynnt til sögunnar. Hver kannast ekki við að sitja á bar í upphafi ævintýris og fá verkefni þar frá skuggalegum manni? Klisja, en engu að síður ákv. kynning. Oftast er eitthvað status quo sem hefur verið sett úr jafnvægi og er það hlutverk hetjanna að koma status quo aftur á.

Saga: Hér fara fram helstu þættir sögunnar eða ævintýrsins, t.d. rannsókn á morði, förin að greni drekans, rata í gegnum dýflissuna osfrv. Oft er eitthvað sem hækkar flækjustig sögunnar, sidequests, aðkoma aukapersóna, átök milli persóna (non-violent að sjálfsögðu). Sagan nær hámarki eða risi þegar leyst hefur verið úr flækjunni, afhjúpun morðingjans, drekinn sigraður, leiðin úr dýflissunni finnst.

Niðurlag: Status quo. Hetjunum fagnað. Allir eftirmálar koma fram.

Þó svo Sagan sé langstærsti hluti ævintýris má alls ekki gleyma hinum þáttunum tveimur, en því miður hef ég lent í því. Ég held, að með því að verða meðvitaðri um atriði sem þessi, eiga bæði spilarar og stjórnendur auðveldara með að skoða hvað var skemmtilegt, hvað virkaði osfrv. í hverri spilun fyrir sig.

En jæja, þá er svona þessum inngangi lokið og komið að því að fjalla um það sem þetta átti að fjalla um. Sem sagt minimótin. Ég hef ekki mætt í töluverðan tíma á þessi mót, þannig sú reynsla sem ég sæki í er kannski ekki marktæk í dag en engu að síður þá hef ég skoðun á þessum annars þarfa atburði fyrir spunaspilara í Reykjavík.

Áður en ég fer út miklar pælingar, langar mig þó til að taka fram að mér finnst þeir félagar Skari og Jens Fannar hafa unnið óeigingjarnt starf að halda þessu úti, sér í lagi þegar vanþakklátir einstaklingar eins og ég erum sífellt að gagnrýna þá.

Þegar ég hef komið til að spila á þessum mótum hefur mér oftast fundist vanta upp á eitthvað af ofangreindu. Ég hef samt stjórnað oftar og því miður ekki alltaf náð að uppfylla mínar eigin kröfur, þannig kannski ætti maður ekki að vera rífa sig. Engu að síður held ég að ágætt sé að halda þessari umræðu á lofti. Ævintýrin hafa oft verið ágætt, en samt ekki eitthvað sem ég myndi kalla frábært og ef satt best skal segja þá man ég ekki eftir neinum þeirra, að einu undanskildu en þá var Helgi Nexus að stjórna. Það er hins vegar upplifun sem mér finnst ágætt að leggja upp með á þessum mótum, þ.e. að ævintýrin séu eftirminnileg og ég held, maður nái því í gegn ef þau eru allt í senn, skemmtileg, krefjandi og frumleg.

Ég legg því eftirfarandi til:

1. Að við tökum upp matskerfi. (Þessi tillaga hefur verið samþykkt og ég hef, með aðstoð Helga Nexus, verið að setja saman örstuttan spurningalista sem ætti ekki að taka langan tíma að svara eftir hvert mót)

2. Að meiri kröfur séu gerðar til stjórnenda.
a. Að ævintýrin séu vel skipulögð, úthendur og kort klár osfrv.
b. Að persónur séu vel skapaðar og auðvelt fyrir spilara að setja sig inn í þær.

3. Að framlag stjórnenda sé metið hærra.
a. Ég legg þessa vinnu á mig fyrir spilahópinn minn, enda eru það vinir mínir. Ég legg ekki þessa vinnu á mig fyrir ókunnuga, ef svo mætti segja, án þess að fá eitthvað fyrir minn snúð.
b. Til þess að svo megi verða, legg ég til að hið hóflega mótsgjald sé hækkað örlítið og þeir í Nexus fengnir til að afhenda stjórnendum frekar bækur en inneignir. Ég kaupi amk. eina rpg bók í mánuði og væri alveg til í að vinna hluta af þeim kostnaði af mér.

4. Að jafnvel taka upp einhvers konar RPGA kerfi.
a. Ef hluti af mótunum nýtist undir RPGA, þá held ég að auðveldara sé að tryggja endurkomu spilara.
b. Mig grunar að þetta muni hleypa auknum krafti í spilasamfélagið hérna, m.a. hér á huga, ef hægt er að koma upp einhvers konar stigakeppni á mótum.

Jæja, þá held ég að ég sé að verða búinn að týna til þær hugmyndir sem ég hef um minimótin. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að koma einhverjum þeirra í verk.