Mig langar að ræða eilítið sem ég hef orðið sífellt meira og meira var við í samskiptum mínum við aðra spilara, stjórnendur, og spilahópa.

Nú er svo að ég hef mestallan minn spilaferil spilað með sama fólkinu, og höfum við því myndað okkur ákveðinn stíl, sem ekki endilega hentar hverjum sem er. Ég vil því taka fram að ég er ekki
að segja að mín leið sé betri, aðeins að segja að ákveðinn hlutur sem ég sé hjá öðrum veki furðu mína.

Það sem ég vil ræða er ákveðin nauðgun á efni. Ég hef síendurtekið veitt því athygli að spilamennska allmargra virðist snúast um mjög öfluga (“hátt levelaða”) charactera, sem virðast hafa allt í höndunum og verja ævi sinni í fátt annað en að reka á hol hinar ótrúlegustu forynjur úr dýpstu holum helvítis, notandi til verksins stórkostlegustu vopn sem upphugsuð hafa verið. Það sem mér þykir miður í þessu öllu saman er þegar stjórnendur gleyma einni af grunnreglum uppeldisfræðinnar: “Barnið verður ekkert
hamingjusamara þó það eigi fleiri leikföng. Það bara kann síður að meta hvert stykki”. Mér þykir leiðinlegt að stjórnendur noti þetta “cheap thrills” trikk, að veita bara nóg af galdrahlutum og levelum og gulli, til að gleðja leikmenn, vegna þess að með því eru þeir að draga úr þeirri upplifun sem leikmenn gætu haft af
spilamennskunni. Leikmenn verða ekkert glaðari fyrir vikið, þeir verða bara ofdekraðir, og kunna ekki að meta neitt nema það sé “af dýrustu tegund”. Á endanum er stjórnandinn ekki búinn að gera þessum leikmönnum neinn greiða, aðeins búinn að eyðileggja mögulega drauma þeirra. Það er algild regla að því meira sem þú þarft að vinna fyrir einhverju, því meira muntu njóta þess.

Hvað kemur til? Jú, ég held að það sé oftast nær einhver leti hjá stjórnendum. Þeir nenna ekki að leggja sig fram við að kalla fram töfra spilalistarinnar og grípa því til ódýrra ráða. Hverjir tapa svo á þessu? Leikmennirnir.

Mér hefur, sökum þessa, aldrei þótt annað en grátbroslegt þegar leikmenn hingað og þangað úti í bæ eru að monta sig á því að þeir eigi character með þennan eða þennan hlut, hæfileika, eða kraft.
Það er ekkert merkilegt, og varla sambærilegt milli hópa. Það segir ekkert annað en það að stjórnandinn sé týpan sem réttir leikmönnum Dungeon Master's Guide, og segir “Hérna, veljið ykkur bara þann hlut sem þið viljið.” Slíka vanvirðingu fyrir efninu og leikmanninum get ég ekki skilið að stjórnendur leyfi sér að sína. Það er hlutverk okkar að skemmta, ekki skemma.

Ég er kannski öfgamaður, en ég spila í hópi leikmanna með áratugarreynslu sem þykir ennþá mikið til koma um +2 Short Sword, og skjálfa á beinunum fyrir framan illan dreka, sem þeir sjá sem gríðarlegan ógnvald, ekki blaðsíðu xx úr Monster Manual, með AC þetta eða þetta.

Stjórnendur. Áttið ykkur á því að þegar þið hafið rétt leikmanni fyrsta +3 sverðið sitt, þá verður ekki aftur snúið. Eftir það fölnar allt í samanburði, og aðeins verður hærra farið. Því langar mig að ráðleggja ykkur að fara ykkur hægt. Byrjið á grunninum og færið ykkur hægt og rólega upp á við, eitt skref í einu. Þannig nýtið þið sögusviðið og efnið best og á endanum skiljið við glaðari og upphrifnari leikmenn en ella.

Kær Kveðja,
Vargu
(\_/)