Heil og Sæl
Ég er í rauninni að skrifa þessa grein mína sem svar við greininni hans Froztwolf (“Randomness vs. Stjórnun”), ég vissi bara að hún myndi teygjast svo mikið á langinn að ég ætti alveg skilið að fá stigin tíu fyrir hana í staðinn ;-)

Það sem Froztwolf spurði um var hvar best væri að finna jafnvægið á milli þess að láta teningana ráða annars vegar, og að láta stjórnandann taka ákvarðanir hinsvegar. Ég tel, einsog með margt í þessu blessaða lífi, að hina gullnu niðurstöðu sé að finna einhversstaðar mitt í miðjunni, enda er það nú sennilegast það sem orðið jafnvægi felur í sér.

Vandamál stjórnenda er nú sennilega að skilgreina þetta jafnvægi og nýta sér það. Því miður er ekki til nein patent lausn á þessu því þetta er eitt af þessum málum sem snúast um þarfir leikmannanna, og leikmenn eru auðvitað mislitur hópur. Þess vegna getur lausnin einfaldlega falist í því að spyrja leikmenn hreint út hvernig þeim þyki málum best háttað. Það ætti að vera einföld lausn, og ætti að virka, en það er samt kannski ekki það sem fólk vill heyra.

Sjálfur hef ég farið í gegnum mismunandi skeið á mínum “spilaferli” þar sem ég hef aðhyllst mismunandi stefnur í afgreiðslu þessa máls. Það sem mér þykir í dag réttast er að allar
ákvarðanir sem ekki snúist í sjálfu sér um tölur eigi að vera teknar af stjórnandanum. Þannig á ég t.d. við að ég kasta ekki teningum upp á skap eða afstöðu aukapersóna (NPCs). Þegar hins
vegar kemur að aðstæðum sem reglulega snúast um tölur og nákvæmni þá eru teningarnir látnir ráða (combat) og ekki gripið inní nema algjörlega nauðsynlegt sé til að haga framvindu sögunnar.

Þegar stjórnendur grípa í taumana og ákveða að taka örlög persóna í sínar hendur finnst mér rétt að hafa tvennt í huga. Annað er að fela það vel. Til að geta falið það vel verður stjórnandi að vera vel vakandi og greina vandamálið (það að persónurnar geti engan veginn ráðið niðurlögum drekans til dæmis) áður en það reglulega verður alvarlegt. Þannig er hægt að haga málum leikmönnum í vil hægt og rólega og því aðeins ósýnilegar. Það að koma skyndilega
með einhverjar ofurlausnir á síðustu stundu rænir leikmennina veruleikatálsýninni, og það er auðveldasta leiðin til að drepa persónurnar innan frá. Í tilfellinu sem ég nefndi með drekann
væri besta leiðin að veita persónunum möguleika á að flýja. Það bæði að láta drekann (með sína yfirburði) flýja sjálfan, eða að falla í valinn er ekki eins raunverulegt, og myndi að auki gefa ranghugmyndir um mátt drekanna. Einsog ég segi, besta leiðin er ekki að fjarlægja hættuna, heldur að fjarlægja persónurnar frá hættunni. Hitt atriðið sem ég vildi minnast á er það sem snýst um sanngirni. Ekki bjarga persónum leikmannanna ef þeir eiga það ekki skilið. Ef persónur lenda í hættu fyrir tilviljun eða útaf misskilningi er rétt að reyna að hjálpa aðeins til eins og ég lýsi að ofan. En ef þeir sjálfviljugir ana út í hættuna, vitandi fullvel að í hellinum í fjallinu býr heimsins stærsta gasgrill á fjórum fótum, þá er það þeirra ákvörðun og teningarnir fá fullkomnlega að ráða.

Spilakveðjur,
v a r g u r
Self-Proclaimed Veteran GM
(\_/)