Brothers and sisters Einn af nýju þáttunum sem hófu göngu sína í Bandaríkjunum síðastliðið haust eru Brothers and sisters á ABC sjónvarpsstöðinni. Ekki hafa verið mikil læti í kringum þættina - enda ekki um “high-concept” þætti að ræða eins og er orðið svo algengt á þessum Lost og Heroes tímum - en áhorfið á þá hefur verið nokkuð samfellt og gott.

Ekki skrítið því þetta eru dramaþættir af bestu gerð sem taka sig ekki of hátíðlega. Þarna segir frá einum 5 systkinum og móður þeirra og hvernig þau reyna öll að pluma sig eftir að fjölskyldufaðirinn deyr óvænt og skilur eftir sig rjúkandi rústir - bæði í fjölskyldulífinu og hjá fyrirtækinu.

Nora Walker (Sally Field) er að uppgötva að lífið er til eftir sextugt þótt mikið af hennar orku fari í tjónka við all barnaskarann sem á heita vaxinn úr grasi.

Kitty Walker (Calista Flockhart) er repúblikani og stjórnmálaskýrandi. Hún er í algjörri andstöðu við restina af fjölskyldunni sem skilur ekki þessar hægri sinnuðu tilhneigingar hennar.

Sarah Walker (Rachel Griffiths) er gallhörð bissnesskona og rekur fyrirtæki föður síns heitins. Hún er róleg manneskja með eigin fjölskyldu og börn og ekki alltaf að hafa taumhald á öllu í sínu lífi.

Tommy Walker (Baltazar Getty) fór ekki í viðskiptafræðina eins systir hans heldur helgaði sig starfi hjá föður sínum. Hann á stundum erfitt með að sætta sig við systur sína sem yfirmann og hefur miklar áhyggjur af yngsta bróðurnum, Justin.

Kevin Walker (Matthew Rhys) er samkynhneigður lögfræðingur. Honum gengur ekki alltof vel að tolla í samböndum og á erfitt með að viðurkenna fyrir sjálfum sé hvernig stöðu samkynhneigð hans setur hann í gagnvart fjölskyldunni - sem er annars mjög skilningsrík.

Justin Walker (David Annable) hefur alltaf verið litla barnið og mjög pirraður yfir því að enginn skuli hafa trú á honum. Hann er þó ekki þroskaðri en svo að þegar hann kemur aftur heim frá stríðinu í Afganistan leiðist hann fljótt út í eiturlyfjaneyslu og almennan aumingjaskap.

Soul Holden (Ron Rifkin) er bróðir Kitty og næstráðandi hjá fjölskyldufyrirtækinu. Hann veit ýmislegt um fjölskylduna sem hann vildi síður láta uppi.

Holly Harper (Patricia Wettig) er vinkona Soul - og fyrrum ástkona fjölskylduföðurins, William Walker (Tom Skerritt). Illa gengur að halda henni fyrir utan fjölskylduna, systkinunum til mikillar mæðu.

Fleiri persónur koma við sögu - ýmsir makar og kærustur/kærastar - en aðalfókusinn er alltaf á fjölskyldumeðlimina.

Fæðing þessara þátta gekk nokkuð brösulega fyrir sig því upphaflega var Marti Noxon (Buffy the Vampire Slayer) við stjórnvölinn og meiri alvarleiki yfir öllum samskiptum fjölskyldumeðlima. ABC stöðin og höfundurinn Jon Robin Baitz var ekki spenntur fyrir þeirri stefnu sem virtist tekin og eftir að búið var að taka upp fyrsta þáttinn var Noxon skipt út fyrir Greg Berlanti (Everwood). Endurskipað var í tvö hlutverk - Sally Field fengin í staðinn fyrir Betty Buckley og Matthew Rhys í staðinn fyrir Jonathan LaPaglia og persónu hans gerbreytt - og ýmsar aðrar áherslubreytingar gerðar. Þetta virðist allt hafa verið gert á síðustu stundu því búið var að gefa út promo myndir fyrir þættina og því erfitt að finna góðar myndir af rétta leikhópnum. Ekki er þó að sjá annað en það hafi verið til góðs því frá því að þættirnir byrjuðu hafa þeir ekki gert neitt annað en að blómstra og frábært að sjá hversu vel þessar “viðbætur” hafa passað við restina af leikhópnum.

Einnig er gaman að benda á þarna eru að dúkka upp leikarar úr Alias í hrönnum. Ja - a.m.k. þrír; Ron Rifkin (Sloan), Baltazar Getty (Thomas Grace) og Patricia Wettig (Dr. Judy Barnett) - enda sami framleiðandi, Ken Olin - eiginmaður Wettig, á ferð.

Þættirnir hafa ekki verið sýndir á Íslandi ennþá en þess getur nú varla verið lengi að bíða.

Frekari upplýsingar um þættina
——————