Myrkur. Eilíft myrkur, ekkert nema svartnætti framundan. Ég sit hér aleinn, og depurðin gnístir hjarta mitt. Mér líður eins og algjörum lúser, eins og manneskju sem hvorki á, hefur átt né mun nokkurn tímann eiga sér einhvern tilverurétt. Er þetta allt mér að kenna, er ég svona hrikalega misheppnaður, óheppinn og klaufskur? Ég get ekki sagt til um það, þetta er mín skoðun og öllum er sama um hana, sem og mig, líf mitt, tilfinningar mínar og allt sem mér viðkemur.

Hef ég alla tíð verið sá auli, sá misheppnaði persónuleiki sem ég er í dag? Það vil ég ekki meina. Í rauninni, þá hef ég alltaf verið lífsglaður, nægjusamur, skilningsríkur og góðviljaður. Á hvaða tímapunkti í lífi mínu gerði ég skyssu? Var það þegar ég byrjaði að drekka? Þegar ég yfirgaf móður mína? Þegar gamli kallinn tók mig í rass? Þegar ég fluttist suður með sjó? Ég veit það ekki…

Foreldrar mínir, ekki hafa þau stutt við bakið á mér, aldrei. Pabba minn hef ég aldrei hitt, hann er óþokki. Þegar mamma mín var um það bil tvítug, var hann einn af vinum hennar. Svo, öllum að óvörum, nauðgaði hann henni, og hvarf síðan á brott. Hann hefur aldrei haft neitt samband við okkur, ekki einu sinni sent meðlag. Eftir að ég fæddist var svo móðir mín ekki ánægð með mig, einstæð móðir sem var alkahólisti, ekki besta staðan sem hægt er að vera í. Ég ólst upp við það að vera skilinn eftir óafskiptur, stundum í marga daga, meðan mamma sinnti fíkninni. Hvar var barnaverndarnefnd þá? Voru þau of merkileg til að fást um svona umrenning eins og mig?

Ég ólst upp við hræðilegan aðbúnað, það var meira að segja óljóst hvort að ég fengi að njóta sömu réttinda og aðrir, fara í skóla og annað því tengt. Ég fór í skóla reyndar strax í fyrsta bekk, þar leið mér vel. Engin drukkin mamma, í staðinn voru skemmtilegir krakkar og kennarar sem mér fannst veita öryggistilfinningu. Ég kveið því á hverjum degi að fara heim, og fór næstum alltaf heim til annarra, og reyndi að fresta heimferðum eins mikið og ég gat. Þarna var ég búinn að næla mér í hið ljúfa líf.

En svo kom að því, við urðum blönk, og þegar ég var að verða 8 ára var íbúðin hirt og við stóðum á götunni, allslaus. Engir peningar, ekkert að borða, hvergi hægt að sofa… Gamall maður í miðbænum ákvað samt að vera góðhjartaður, og gefa okkur tækifæri, eða það hélt ég þegar ég frétti fyrst að við værum að flytja inn á hann. En nei, það sem hann gerði okkur var ólýsanlegt, hann misnotaði mömmu, reyndi að ná í mig, og tókst það. Ég hef aldrei jafnað mig.

Loksins loksins, ég var orðinn 10 ára, þá kom barnaverndarnefnd í heimsókn. Þegar þau sáu hvernig farið var með mig, var ég tekinn frá mömmu. Ég grét ekki sáran yfir því þá, og hef aldrei gert, þessi kelling var ömurleg, það var henni að kenna hvernig fyrir mér var komið.

Fósturfjölskyldan mín nýja voru góðhjörtuð hjón á miðjum aldri. Þeim var ókleift að eignast börn, svo að þau tóku við mér. Hvílík sæla, ég flutti loksins í lítinn bæ við sjávarsíðuna, langt í burtu frá gamla lífi mínu. En Adam var ekki lengi í paradís, ónei.Það kom að því að ég fór í skólann, nýja skólann. Það var vægast sagt kvöl og pína, það er ótrúlegt hvað krakkar geta sært. Þau fengu einhvern veginn að vita um mína fortíð, hvernig veit ég ekki. Ég hef aldrei eignast neina almennilega vini hérna, ég hangi bara með fólki sem notar mig, hlær að mér, en vill annars ekkert með mig hafa. Ég hef þraukað í þessi 5 ár, þrátt fyrir mikið mótlæti, þunglyndi, svartnætti og annað.

Ég komst í vafasaman vinahóp um 12 ára aldur, var þá brothættur sem gler, og hafði varla neinn sjálfstæðan vilja. Þá byrjaði ég að drekka, því ég sá að vinsælu krakkarnir gerðu það. Það veitti mér, eins og áður sagði, góða tilfinningu, þar sem ég varð léttari og glaðlyndari við sopann. Svo, ég ákvað, að fyrst alkóhól gerði mig svona hressan, þá væri ennþá meiri hamingja í sterkari efnum. Ég byrjaði létt að reykja, eftir nokkurn tíma var ég orðinn háður reykingum, byrjaður lítillegaí hassi, og hafði prófað sterkari efni, og sælan sem þetta veitti, vá!

Ég fór í meðferð 14 ára, og aftur hálfu ári síðar. Fósturforeldrar mínir hafa miklar áhyggjur af mér, ég má varla fara út lengur, sit hér inni einn, og vafra um á netinu all day long. Þetta er ekkert líf, ég á enga vini lengur, bý hjá ströngum foreldrum, og eina sem ég geri er að bíða. Bíða eftir því að það birti til, að samfélagið taki mér eins og ég er.

Svo stutt frá, bara eitt stökk, og þá er þetta búið. Myrkrið virðist algert, ég sit hér einn, þverhníptur klettur með sjó fyrir neðan hér fyrir utan, tækifæri núna. Bless :'(