Ég sé ekki fyrir moldinni í augunum en ég finn lyktina af grasinu sem ég traðka á og heyri hljóðin í byssunum sem skjóta og öskrin í mönnunum sem kveljast. Ég er holdvotur af blóði og berar hendurnar eru frosnar við riffilinn minn, lífið mitt, traust mitt á framtíðina.Ég hreinsa moldina úr augunum á mér og sé, óljóst, mann fyrir framan mig. Mér bregður snöggt og bendi rifflinum mínum að honum. Hann liggur á jörðinni, heldur um blóðuga síðuna á sér og sundurskotið lærið og öskrar af alefli. Þetta er andstæðingur og mér var kennt að drepa hann en mér var sagt að taka hann til fanga. Í sýruþvegnum heilanum á mér snýst lítið sjálfvirkt tannhjól og ég geng nær honum en örugglega. Þegar ég stend yfir honum heyri ég hann öskra á óskýrri tungu biðjandi um hjálp. Ég set riffilinn á bakið, beygi mig niður og gái að því hvort hann sé með vopn á sér, ég tek skambyssu úr beltinu hans og hníf úr slíðri sem er bundið um fótlegginn á honum. Svo tek ég hann upp og blóðið úr honum fossast yfir mig. Hann tekur utan um mig með báðum höndum og þakkar mér fyrir með tárbrostinni röddu. Ég ber hann til baka í áttina að bíl sem flytur særða og læt hann á pallinn. Hann sleppir ekki takinu á mér strax og öskrar þakkir til mín þegar ég segi ökumanninum að þetta sé fangi. Þegar bíllinn ekur í burtu sé ég glitra í tárin í augum hans þar sem hann liggur dauðvona á bílpalli óvinahers. Ég tek aftur riffilinn í fangið, sný mér í áttina að vígvellinum og legg af stað á ný í dauðann.
Kíkið endilega á síðuna mína www.folk.is/nixey