Á meðan þetta allt gerðist sat Jesper enn í dyragættinni á Snauðustöðum og hugsaði um óheppni sína.
Viður gamli lá við fætur húsbónda síns og svaf vært og áhyggjulaust.
,,Ég verð að athuga hvort það vilji ekki einhver kaupa bæinn og jörðina” hugsaði Jesper.
Hann ákvað að fara fljótlega til herra Gráðugs á Grobbstöðum, en hann er sveitastjóri Ráðríkusveitar.
Gráðugur átti heima á næsta bæ við Snauðustaði, en Snauðustaðir voru á milli Snýtukots og Grobbstaða.

,,Kannski veit herra Gráðugur um einhvern sem langar í jörðina mína” sagði Jesper og ýtti við sofandi kettinum sem spratt á fætur. Viður gamli hvæsti öll ósköpin og flúði svo burtu.
,,Æ, æ” hugsaði Jesper.
,,Ég ætlaði alls ekki að reka Við á flótta” andvarpaði hann. Honum fannst allt ganga á afturfótunum þessa dagana.
,,Það byrjaði nú allt með látunum þegar Skjóna gamla kom í vor og var eitthvað að rífast í pabba og mömmu” hugsaði hann.
,,Skömm að því að láta þetta fara svona” hafði hann heyrt Skjónu segja.
,,Hann hefði átt að fara í skóla og læra góða siði í stað þess að hanga hér og verða klaufalegri og klaufalegri með hverju árinu” hafði hún þusað.

,,Nær út yfir allan þjófabálk að fela allt svona vandlega” rausaði hún líka.
,,En þau höfðu þagnað þegar ég kom inn” hugsaði Jesper og áttaði sig allt í einu á því að eftir þetta samtal þeirra hafði allt breyst.
Foreldrar hans höfðu verið meira og minna allt þetta sumar yfir hjá Skjónu gömlu og verið mjög leyndardómsfull. Hann hafði hins vegar alltaf verið sendur í einhver verk og aldrei fengið að fara með. Síðan þegar Jesper hafði náð í Skjónu til að hjálpa við að vekja gömlu hjónin af svefninum langa, hafði hún tuðað og tautað allan tímann um þennan Guð þarna uppi.

Hún hafði sagt að tíminn væri kominn og fortíðin væri að banka og allt yrði gott á endanum.
Þetta var nú mest allt einum of mikið til að Jesper gæti áttað sig á því svo hann hætti að hugsa um þetta og horfði upp á ásinn sem lá að Snýtukoti.
Þar sá hann Alla skoppa upp og hverfa yfir um.
,,Ég er þó feginn að Allir og Enginn sleppa við að fara í sláturhúsið í haust” sagði hann við sjálfan sig.

Allt í einu spratt Jesper á fætur og lagði við hlustirnar. Skerandi óp barst yfir hæðina og sá Jesper hænur koma í loftköstum yfir ásinn og tvístrast í allar áttir.
Hann hugsaði sig ekki um heldur hljóp af stað til að athuga hvað í ósköpunum væri að gerast þarna hinu megin hæðarinnar.

Ebba reyndi að fara eins hratt yfir og hún gat.
Hún hlakkaði til að sjá svipinn á Jesper þegar hún færði honum hænurnar, myndina, pinkilinn frá Skjónu og sparilambhúshettuna sem hann hafði misst.
Hún var svo niðursokkin í að hugsa um Jesper og framtíðina að hún tók ekki eftir Öllum koma stökkvandi yfir ásinn og lenda beint framan á henni fyrr en of seint.
Hún rak upp skelfingaróp og datt aftur á bak um leið og hún missti allt út úr höndunum.
Hænurnar þeystust upp brekkuna og hurfu þar yfir en Ebba sat eftir á aumum bossanum. Hún var viss um að hún myndi aldrei ná þeim aftur.
Hún horfði á eftir hrútlambinu sem stökk áfram niður brekkuna og virtist ekkert kippa sér upp við áreksturinn.
Þegar hún leit aftur upp ásinn sá hún hvar Jesper kom hlaupandi með skelfingarsvip á andlitinu.

,,Já en Ebba mín, hvað ert þú að gera hérna? Og hvaða fiðurfé var að þjóta í allar áttir hérna áðan og lét eins og að kötturinn minn væri að reyna að éta það?” spurði Jesper og hjálpaði Ebbu að standa upp.
,,Ó Jesper minn” vældi Ebba alveg miður sín þegar hún stóð upp.
,,Annað lambið þitt hljóp beint á mig og ég datt og missti takið á böndunum sem héldu hænunum sem ég ætlaði að gefa þér, og..og..eh.” sagði hún og ætlaði að fara að gráta.
,,Svona, svona gæskan þetta er allt í lagi” reyndi Jesper að róa stúlkuna sem honum fannst bara mjög aðlaðandi þrátt fyrir grettið andlit og úfið hár.

,,Komdu með mér heim og við skulum tala saman í ró og næði” sagði hann og hjálpaði Ebbu að tína upp það sem hún hafði misst.
,,Já en hvað er að tarna” hrópaði hann himinlifandi og tók upp lambhúshettuna sem hann hafði misst hjá herra Einráði og átti ekki von á að sjá aftur.
,,Ef þetta er ekki bara sparilambhúshettan mín” söng hann hástöfum og henti hettunni upp í loft og ætlaði að grípa hana aftur en Ebba hafði fengið sömu hugmynd og ætlaði líka að grípa hana þannig að þau skullu saman og féllu kylliflöt hlið við hlið. Þau skellihlógu og litu hvort á annað.

,,Hann er enn meira aðlaðandi en mig minnti” hugsaði Ebba og leit rjóð undan augnráði Jespers, sem var rannsakandi en þó saklaust og blítt.
Þau flýttu sér að tína saman það sem lá á jörðinni og fóru heim að Snauðustöðum.
,,Hvað varst þú að segja um að gefa mér hænur” spurði Jesper og leit á Ebbu.
,,Jú sjáðu til, ég tók þessar hænur, sem sluppu frá mér, úr búinu hans pabba og ætlaði að gefa þér, ef við náum þeim ekki á undan kettinum þínum þá færðu sennilega ekkert nema bein og fjaðrir” sagði hún og varð aftur leið á svip.
Jesper brosti hughreystandi til hennar.
,,Ef ég þekki Við gamla rétt að þá er hann væntanlega að elta þær núna, þó hann sé líklega ekki mjög svangur eftir síðustu máltíð sem samanstóð af þeim Sillu, Villu og Millu” sagði hann og gretti sig.
,,Heyrðu Jesper” sagði Ebba sem vissi ekki alveg hvernig hún átti að byrja en reyndi þó.
,,Það verður mikið um að vera í næstu sýslu, í næsta mánuði, og okkur var boðið á hátíðardansleik sem verður haldinn á Voldugustöðum” sagði hún.

,,þar ætlar nýi herragarðseigandinn að kynna sig og halda einhverja skemmtun” hélt hún áfram og dró djúpt að sér andann.
,,Ég á afmæli sama dag og mig langar til að þú komir með okkur” sagði hún svo og hélt augnablik niðri í sér andanum. Jesper varð eins og sól í framan.
,,Viltu að ég komi með” spurði hann og trúði varla eigin eyrum.
,,Það hefur aldrei neinn viljað hafa mig með eitt eða annað” sagði Jesper, hann var ekki vanur að vera innan um aðra.
Allt í einu varð hann niðurlútur.
,,Ja, já en líklega get ég ekki komið hvort sem er þar sem ég á engin föt sem hæfa tilefninu” sagði hann og hugsaði til svipsins á andliti Gunnu þá um morguninn þegar hún opnaði dyrnar á Ríkabæ og sá hann í fínu fötunum sínum. Svipurinn á henni hafði sagt meira en nokkur orð.

,,Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af fötum, ef þú vilt koma þá skal ég sauma á þig ný spariföt” sagði Ebba og var staðráðin í að reyna að láta Jesper ljóma oftar eins og hann hafði gert rétt áðan.
,,En hárlubbinn verður að hverfa” hugsaði hún með sér og horfði á óstýrislátan hárlubbann á Jesper.
,,Heyrðu Jesper” sagði hún allt í einu.
,,Af hverju spurðir þú mig að því í morgun hvort ég væri orðin nógu gömul til að giftast?” spurði hún og leit vonaraugum á unga piparsveininn sem henni leyst alls ekki illa á.
Jesper varð vandræðalegur á svipinn og hugsaði með sársauka til flugferðarinnar út á hlað á Ríkabæ vegna þessarar spurningar.

,,Ja, ég var að hugsa um að mig langaði allt í einu alls ekki til að giftast henni systur þinni, því að hún særði mig mikið” sagði Jesper og gretti sig.
,,En þú hefur alltaf verið svo góð og húsmóðurleg þannig að mér datt augnablik í hug að kannski þú vildir giftast mér og gerast húsmóðir hérna á Snauðustöðum” hélt hann áfram.
,,En það er auðvitað ekki hægt núna því að öll húsdýrin mín eru ýmist dauð, étin eða á flótta” sagði hann og stoppaði svo orðflauminn.
Hann leit á Ebbu sem hann bjóst við að mundi skellihlæja að sér. En Ebbu var svo sannarlega ekki hlátur í huga, þvert á móti.
,,Viltu í alvöru giftast mér” spurði hún alvörugefin því hún hafði aldrei lent í einhverju svona spennandi, það var Gunna sem lenti í öllu spennandi.

,,Já auðvitað vil ég það, en eins og ég sagði þá á ég ekki neitt til að bjóða lengur svo það þýðir ekkert” sagði hann leiður á svip. Ebba greip í handlegginn á Jesper og hristi hann.
,,Ef þú vilt giftast mér þá skiptir engu máli með húsdýrin því ég á minn heimamund sem er meðal annars fullt af húsdýrum” sönglaði hún.
,,Snauðustaði getum við svo byggt upp saman og ég get gert hann glæsilegan að innan með handavinnu, nýjum gardínum og ýmsu fleira” sagði hún og var strax byrjuð að leggja drög að nýrri handavinnulínu.
Jesper starði hissa á ungu stúlkuna sem ljómaði eins og þessir glitrandi punktar sem hanga uppi í loftinu í myrkrinu, stjörnur hugsaði hann dreymandi.

,,Þú vilt þá eiga mig, þó að ég eigi ekkert nema dýrahræ út um allt og ösku sem einu sinni var dráttarvél” spurði hann og þorði varla að draga andann. Ebba leit á hann og tók ákvörðun sem engin skyldi fá breytt, ekki einu sinni sjálfur stórbóndinn herra Einráður F. Ríkisdal faðir hennar.
,,Já Jesper ég vil giftast þér” sagði hún og brosti ákveðin en blíðlega til tilvonandi eiginmanns síns.
,,Við verðum þó að bíða þar til ég verð 16 ára” sagði hún og í fyrsta skipti hlakkaði hana allt í einu mikið til að eiga afmæli.

,,Þarf ég nokkuð að koma heim til þín og biðja hann pabba þinn um að mega giftast þér” spurði Jesper og hugsaði með skelfingu til auðmýkingarinnar frá því um morguninn sem hann vildi alls ekki þurfa ganga í gegnum aftur.
,,Já Jesper minn, þú verður að gera það” sagði hún og sá hræðslusvipinn á honum.
,,En þú þarft ekki að hafa áhyggjur, við skipuleggjum allt áður og pabbi mun ekki vita hvað hitti hann fyrr en það er lent á honum” sagði hún og hló. Jesper leit undrandi á Ebbu.

,,Ætlarðu að henda einhverju í pabba þinn?” spurði hann og leyst ekkert á blikuna.
,,Væri ekki betra að fara vel að honum?” spurði hann svo.
,,Nei, ég ætla ekki að henda neinu í hann Jesper minn, maður tekur bara svona til orða” sagði hún og hugsaði með sér að það mundi taka sinn tíma að skóla Jesper til og kenna honum að umgangast aðra vandræðalaust.
,,En ég skal kenna honum almenna siði innan um annað fólk og hjálpa honum þannig að hann losni við eitthvað af klaufaskapnum” hugsaði hún með sér.

,,Jesper” sagði hún og tók upp pinkilinn frá Skjónu gömlu.
,,Hún Skjóna sendi mig með þetta til þín og sagði að ef þú vildir koma með okkur á dansleikinn þá gætir þú notað þetta” hún rétti Jesper pakkann og saman rifu þau bréfið utan af því bæði voru þau forvitin um innihaldið.
,,Já en þetta eru aldeilis glæsileg föt” hrópaði Jesper himinlifandi upp.
,,Já, það eru skór líka og eitthvað rosalega flott merki sem þú getur nælt í barminn” hrópaði Ebba jafnhrifin.
,,Líklega þarf ég ekki að sauma á þig ný föt eftir allt” sagði hún og velti fyrir sér af hverju gamla konan hefði verið að kaupa allt þetta handa Jesper.
,,Ég veit ekki hvers vegna hún kaupir þetta handa mér, ég lét hana ekki fá neinn pening” sagði Jesper þegar Ebba spurði hann.

,,Jæja, það er sama hvaðan gott kemur” sagði Ebba og hugsaði hlýlega til gömlu konunnar í Snýtukoti sem hafði sparað henni talsverðan saumaskap.
,,Ég er alveg viss um að við getum gert eitthvað fyrir hana í staðinn seinna” sagði hún og brosti til Jespers sem var að skoða barmmerkið frá Skjónu.
,,Þetta virðist vera eldgamalt merki” sagði hann og gretti sig þegar hann sýndi Ebbu rispur á því.
Hún tók við merkinu og skoðaði myndina á framhliðinni.
,,Hvaða mynd skyldi þetta vera?” spurði hún hugsandi og fannst sem hún kannaðist við að hafa séð þessa mynd áður.

,,Þetta líkist höttunum sem kóngarnir og drottningarnar í spilunum eru með” sagði Jesper sem líka hafði spáð í myndina.
,,Já það er satt, þetta er mynd af gamalli kórónu” sagði Ebba og mundi nú að hún hafði séð alveg eins mynd í fallegum, gullskreyttum ramma sem hékk á veggnum við skrifborðið í viðhafnarstofu föður síns.
,,Myndina hafði hann fengið að gjöf þegar hann hafði eitt sinn verið viðstaddur einhverja opinbera athöfn í Kaupmannahöfn hjá Kristjáni konungi okkar” sagði hún Jesper frá.
,,Hvar skyldi hún hafa náð í þetta merki?” sagði Ebba hugsandi. Hún ákvað að spyrja gömlu konuna á heimleiðinni.
Jesper tók allt í einu eftir myndinni sem Ebba hafði komið með og tók hafa upp.
,,Já en hvílíkt listaverk” hrópaði hann og skoðaði myndina á alla kanta.
,,Saumaðir þú þessa mynd?” spurði hann hrifinn og leit á tilvonandi húsmóður Snauðabæjar.
,,Já ég saumaði hana” sagði Ebba og sótroðnaði undan hrósinu.
,,Ég ætlaði að gefa þér myndina en líklega munum við koma til með að eiga hana saman” sagði hún og henni leið vel við tilhugsunina um að eiga eitthvað með þessum unga manni.

Þau töluðu saman um stund í viðbót og lögðu á ráðin með hina ýmsu hluti. Meðal annars samþykkti Jesper að koma með þeim á hátíðardansleikinn með því skilyrði að Ebba mundi kenna honum að dansa og eitthvað um hvernig á að bera sig innan um veislugesti. Þau ákváðu að Ebba mundi koma heim að Snauðustöðum á hverjum degi, fram að stóra deginum, og kenna Jesper allt sem þau töldu nauðsynlegt að hann þyrfti að kunna fyrir hátíðina, annað kæmi með tímanum.
Unga parið ákvað einnig að láta pússa sig saman, hvað sem hver segði, og það jafnvel áður en að dansleiknum kæmi. Þau skemmtu sér konunglega yfir öllu plottinu og tóku ekki eftir því hvað tíminn flaug hratt áfram fyrr en það byrjaði að skyggja.

Ebba tók undir handlegginn á piparsveininum unga.
,,Sveitalúði er hann sko ekki” hugsaði hún þegar hún horfði glaðlega á mannsefni sitt.
,,Heyrðu Jesper” sagði hún svo og fannst sem henni hefði sjaldan fundist nokkur jafn skemmtilegur og aðlaðandi eins og þessi drengur sem svo margir kölluðu sveitalúða, hún skyldi sko sína öllum hið gagnstæða. Hún brosti til hans.
,,Ég þarf að flýta mér heim því það er langt liðið á daginn og ég var búin að lofa Skjónu því að koma við hjá henni í bakaleiðinni” sagði Ebba og brosti.

,,Ég kem aftur í fyrramálið og þá byrjum við allan lærdóminn og danskennsluna” sagði hún og hlakkaði til nýs dags.
Þau kvöddust og Jesper horfði á heitmey sína hverfa yfir ásinn í áttina að Snýtukoti.
Hann raulaði glaðlega á meðan hann hugsaði með tilhlökkun til morgundagsins sem og næstu þrjátíu morgna eða svo.
,,Sennilega hefur aldrei verið svona mikið í vændum hjá mér” raulaði hann. Jesper hugsaði með söknuði til foreldra sinna og leit upp til himna.
,,Þið væruð örugglega stolt af mér ef þið væruð hérna í stað þess að vera þarna uppi” sagði hann út í loftið.
Honum fannst leitt að þau skyldu missa af öllu fjörinu, giftingunni og dansleiknum.
Samt var hann því feginn að þau skildu ekki sjá öll húsdýrin þeirra eins og þau voru núna, ofan í holu og búið að moka yfir, ofan í tunnu með saltpoka, ofan í maganum á Við gamla og úti í buskanum, og að síðustu glæsivagninn brunninn á hlaðinu. En hann hugsaði nú með bjartsýni til þess er framtíðin bar í skauti sé. Með Ebbu sér við hlið mundi þetta allt saman blessast, það var hann viss um.

Framhald seinna: