Miðgata. Afhverju í andskotanum heitir ekki ein einasta gata í miðbænum Miðgata? Eða Sultumið. Allar þessar götur eru eins, og allar eru þær milli hverrar annarrar, en nei – þetta er Njálsgata. Sæll, Njáll. Gaman að sjá þig. Svo þú ert gata í dag. En gaman.

Ég lít til vinstri og sé Týsgötu. Bara ef Týr gæti séð þessa götu, hugsa ég, og beygi til hægri inn Klapparstíg, honum myndi örugglega ekkert lítast á hana. Ég stöðva í skyndi. Hvað er ég að gera á Klapparstíg? Ég hata Klöpp. Hún stríddi mér.

Ég beygi í flýti til hægri inn Grettisgötu, sest þar og næ andanum. Þarna munaði mjóu. Of mjóu. Ég get enn séð Klapparstíg, og langar næstum til að vara fólkið þar við Klöpp, en geri það ekki. Svo lengi sem Klöpp lætur mig í friði…

Það er ekki fyrren fyrst núna að ég geri mér fulla grein fyrir því hvar ég er. Grettisgata. Gata sjálfs Grettis. Og sjá mig, að húkast hér af hræðslu við Klöpp, þegar mér meiri maður svaf úti, veiddi sér ljón til matar og kramdi björg! Minnir mig…

Ég stend upp, enda meiri Grettir en mús. Um mig fer ólýsanlegur styrkur, einsog ég sé sjálfur Grettir, og ég veit fyrir víst að þessi gata ber krafta hans. Ég hleyp af stað, einsog köttur, en þó ekki einsog Grettir. Grettir er svo mikið meira en bara appelsínugul lasagnaóð fituhrúga… Frakkastígur nálgast, og ég bý mig undir átök. Þessir Frakkar hafa aldrei verið sanngjarnir.

Um stund held ég að ég sé í Frakklandi, en ég er á Íslandi, afþví að Frakkland lítur ekki út einsog Ísland. Ég stend í fjalli og lít til vinstri yfir dal og til hægri sjóinn. Eitthvað knýr mig niður, og eftir svolitla stund stend ég og þarf að velja hvert ég held. Fer ég til hægri, í átt að saltþungum sænum, opið land hvert sem augað eygir, eða held ég mig í skjóli fjalla og kletta með vinstrisinnaðri ákvörðun? Ég er Grettir, svo svarið er augljóst, og ég held til vinstri. Skógi þakið hraunlendi – eða hrauni þakið skóglendi? Hvoru sem ég er á, er ég á því, og ég bít í laufblað til fagnaðar, þartil ég man hversu illa það meltist, og spýti því á snigil.

Ég kem að miklu klettabelti – held ég – og dæsi af vellíðan. Þráttfyrir að hafa aldrei áður séð klettabelti, hef ég saknað þeirra. Mikil ósköp hvað ég hef saknað þeirra. Ég geng inní völundarhús guðanna, þó hér séu engir guðir, né sé þetta mikið völundarhús. Eftir því sem ég beygi milli grátgrárra bjarganna dettur mér í hug að reyna að kremja þau, og hleyp með exina á lofti að einu, hegg, og missi marks, enda ekki með exi. Ég stend örlítið gáttaður í smástund, svikinn því hinir miklu kraftar Grettis brugðust mér, en hristi svo hausinn og lít áfram.

Þar sé ég að ég heiti ekki Palli, því þarna er stelpa, á aldur við mig, sem gengur hröðum skrefum og er fljótt horfin úr augsýn. Ég hugsa mig um í snatri. Ef stelpur eru á aldur við mig, eru þær ekki konur? Ég hefði átt að hugsa það áðan. Engu að síður hef ég loksins séð aðra manneskju, því þó ég hafi ekki verið að leita, var ég að leita og vildi ekki vera einn í heiminum. Grettiskraftarnir brugðust mér ekki, þeir voru bara að hugsa um mun mikilvægari mál en auðkremjanlega steintitti.

Ég stekk af stað, öruggur um að ná henni fljótlega, eða að minnsta kosti að geta kallað til hennar, því hver ætti að geta heyrt það annar? Það kemur því fílslega á óvart að rekast á mann þegar ég dríf mig fyrir hornið – og sjá að ég er á Laugavegi. Þú færð þetta borgað, Laugi…

Konan er þá horfin. Það er mér morgunljóst, vegna þess að ég finn ekki lengur krafta Grettis streyma um æðarnar, blóðið er rautt einsog þitt, en ekki útfjólublátt einsog Grettis. Ef morguninn bara væri Grettir, og maður gæti notið hans hversdagslega.

Ég geng því niður Laugaveginn, leiðari en í gær, og lít innum stöku glugga. Ég er að hugsa um að taka strætó til Keflavíkur, þegar ég sé henni skyndilega bregða fyrir, sötrandi te (eða kaffi, en ég veit samt að þetta er te) inná tehúsi (eða kaffihúsi, en ég veit samt að þetta er tehús). Ég dríf mig inn í snatri, en bjallan hringir inn dalinn, en ekki mig, og dyrnar eru horfnar. Eða hurðin? Bæði, allavega.

Ég bölva óheppninni, en geri mér þó grein fyrir að Grettir vildi að þetta gerðist, því annars væri ég ekki hérna. Ég öskra þó nafn konunnar til öryggis (STEEEEELPAAAAAAAA!) en hún svarar ekki. Ég geng því áfram og finn fljótt dalsfegurðina hellast yfir mig og nærri drekkja mér. Hér á ég heima, í Grettisdal á Grettislandi í Grettrópu á Grettisjörð. Hver þarf aðra, þegar maður hefur alltaf sig? Ég yrði fyrst áhyggjufullur ef mig vantaði.

Ég kem fljótlega að læk og svala þorstanum. Hvað með það þó ég sé að innbyrða örverur? Eru þær ekki nógu góðar fyrir þig, lindaóða tærvatnsfrík? Þetta er vatn Grettis, og ég drekk það, því allt sem Grettir hefur snert, er gott.

Eftir svolitla stund fer ég að skimast um eftir mat, því gangan hefur gert mig svangan. Einsog Manga? Jafnvel. En þráttfyrir að hafa dreypt á læknum og gengið frá bakkanum sæll hefur ævintýrið ekki enn endað vel, því ég sé ekki svo mikið sem fugl á sveimi, og skordýrin sem skutu upp kollinum einsog skordýr áðan skjóta núna upp kollinum einsog risaeðlur, kolllaus og hvergi. Ég óska þess heitt að skordýrin hafi ekki breyst í risaeðlur og bíði handan næstu hindrunar, en fljótlega er ég þó farinn að óska þess, ef aðeins til að fá tækifæri til að borða þau. Ber, hvar eruði? Eitthvað ætilegt hérna? Hvar ertu, matur?

Ég er við það að gefast upp og leggjast til hinstu hvílu í einum af ljótari dölum heimsins þegar ég heyri undurfagurt, sakleysislegt hljóð. Me. Meeeehehehe.

Ég geng á hljóðið og sé fegurstu veru fegursta dals veraldar spóka sig við grasát. Ég hreyfi mig hljóðlaust, einsog Grettir, og bý mig undir að borða. Ég litast í skyndi um eftir beittum stein, og finn hjartað slá hraðar þegar augun líta einn, næstum hannaðan til dráps. Ég gríp hann og færi mig nær, ég er svo nálægt, og ég stekk, og lambið kemur engum vörnum við og er stungið úr tilvist sinni. Ég gríp fagnandi um ullkenndan líkama þess, þartil ég rekst í hálsinn og æpi, því hann er mannslegur viðkomu, og ég fell í gólfið haldandi um líflausa lopapeysuklædda konuna. Ég heyri öskrin í kring, en þau skipta ekki máli, því ég er ekki Grettir, þó ég vildi það.