Ljósastaurarnir stóðu hoknir í herðum með fram götunum. Ásamt óteljandi jólaséría sem lýstu upp skammdegið og fylltu miðbæinn af hlýju og ljósi tileinkað frelsaranum sem fæddist fyrir tvö þúsund árum.
Daprir störðu ljósastaurarnir á jólaösina fyrir neðan. Fólk á fleygi ferð í jólainnkaupum og útréttingum en aðeins ljósastaurarnir tóku eftir einmana útigangskonu sem skakklappaðist um. Fólkið rakst oft á konuna svo hún missti næstum jafnvægið en það hafði hvorki tíma til að stoppa og biðjast afsökunar né gá hvað amaði að þessu einmana greyi. Hvers vegna hún gekk um göturnar í tuskulegum fötum, skítug og skildi eftir sig tárugaslóð sem var þrungin sorg og vansæld.
Enginn spurði hana hví hún gréti á aðfangadag eða af hverju hún átti sér engan samastað? Enginn nema lítill strákur sem enn hafði ekki lært miskunnarleysi og afskiptaleysi samfélagsins.
,,Hvað er að?,” spurði lítill pjakkur með brúnt, nýþvegið hár, glitrandi, blá augu og rjóðar kinnar. Mjúk, hlý hendi stráksins snerti vanga konunar og strauk nokkur tár í burtu. Þetta hlyti að vera engill hugsaði konan með sér.
,,Af hverju ertu að gráta? Mamma, af hverju grætur hún?,” spurði drengurinn og togaði í kápuermi móður sinnar. Von kviknaði í hjarta konunar um aumkun og hlýju en vonin dó jafnfljótt og hún hafði verið gædd lífi því móðirin snéri sér við og starði á hana með fyrirlitningarsvip. Drengurinn hafði augu móður sinnar en augu hans voru full af hlýju sakleysins en hennar voru hvöss og grimm.
Andstyggðin sló útigangskonuna svo harkalega að hún hljóp burt frá góðlátlegum augum drengsins og í skjól frá viðurstyggðinni sem skein af augnatiliti móðurinnar.
Hvernig gat afkvæmið verið ljúft þegar foreldrið var kaldranalegt og stirt?
,,Þú veist að þú mátt ekki tala við ókunnuga Gabríel,”urraði mamman að drengnum. ,,Allra síst fólk eins og hana. Maður á ekki að tala við útigangsfólk. Það getur verið stórhættulegt. Er það skilið, Gabríel?,” konunni sárnaði við að heyra orð móðurinnar. Tárin flæddu á ný en frusu á kinnunum í vetrarkuldanum.
Þvílík örlög að svo góður strákur skuli eiga svona vonda og leiðinlega móður. Hann var svo ljúfur. Hvað ætli að hann heiti? Mamma hans hafði kallað hann Gabríel. Gabríel. Dökkhærði, fagureygði pilturinn hét Gabríel.
Útigangskonan fann enn fyrir vingjarnlegu hönd hans á vanganum og brosti í fyrsta skipti þann daginn. Gabríel erkiengill.
Dagurinn leið og um fimm leytið var bærinn nánast tómur. Langflestir heima að borða jólamatinn. Sitjandi inni í stofu fulla af ljósum og kertum ásamt ættingjum eða vinum.
Konan var heldur ekki ein þótt hún væri enn úti við. Hún var með tveim félögum sínum, þeim Daníel skalla og Möggu sígó. Hún stóð upp við lítinn eld sem þau höfðu kveikt í ruslatunnu og hlýjaði sér við eldinn. Logarnir léku glatt og iljuðu lúna, kalda fingur.
,,Ég hitti Gabríel erkiengil í dag. Hann var svo fallegur með blá augu,” sagði konan stolt.
,,Englar eru ekki til Þula. Vertu ekki með þessa vitleysu,” fnæsti Magga.
,,Gabríel er víst til. Hann er dökkhærður með augu hafsins og áru geislandi eins og gimsteinar.”
,,Jæja, já. Hvað ertu þá að gera hér? Af hverju gaf hann þér ekki mat eða vín þar sem hann er engill? Ég myndi nú hald að englar væru nógu indælir til að hjálpa manni að fá smá hita í kroppinn með ögn brennivíni. Ég hefði vel getað þegið dropa af þér,” sagði Daníel hlæjandi. Magga tók undir.
,,Það er vegna þess Daníel, að ef englar væru til þá myndu þeir aldrei heimsækja hana, Þulu.” Þau hlógu bæði.
,,Þið um það. Ég veit hvað ég sá og ég veit að hann var engill. Ég tala ekki meira við ykkur í bili. Ég sef einhver staðar annars staðar í nótt.”
Sár og reið gekk Þula burt frá félögum sínum og upp Laugaveginn og þaðan að Skólavörðustíg. Hún hugsaði ekkert út í hvert hún var að fara heldur gekk bara áfram.
Það brakaði í snjónum undir fótum hennar og ljúfur vindurinn strauk vanga hennar þar til það rann af henni reiðin.
Jólaljósin skinu allt um kring og stjörnurnar sindruðu á desember himninum. Ljósastaurarnir horfðu á eftir henni. Þá langaði innilega að hjálpa henni og hughreysta en þeir gáti sig hvergi hrært. Þeir höfðu oft þurft að fylgjast með fólki ganga um með sorg í hjarta en ekki getað gert neitt annað en að horfa á.
Áður en Þula vissi af var hún stödd fyrir framan Hallgrímskirkju.
Hún fann eitthvað blautt og kallt setjast á nefbroddinn á sér. Það var snjókorn. Það var byrjað að snjóa. Hún leit upp í himininn, dró dúpt andann og fann snjókornin lenda mjúklega á hrukkóttu andlitinu og bleyta aldrað og frosið hörundið.
Hún kjagaði í átt að kirkjunni, gekk upp tröppurnar og settist upp við kirkjudyrnar. Hún heyrði í kirkjukórnum og í rödd prestsins þegar hann talaði yfir söfnuðinn. Hún fylltist dásamlegri ró, hallaði sér upp að veggnum og sofnaði.
Þula vaknaði við það að einhver hristi öxl hennar varlega. Hún opnaði þung augnlokin og starði í augliti við piltinn með góðlátlegu bláu augun. Þetta var Gabríel, en nú var hann í ljósbláum, síðum kirtli.
,,Þú verður að koma með mér,” hvíslaði hann og brosti svo skein í snjóhvítar tennurnar.
,,Hvert? Hvert eigum við að fara?”
,,Það er leyndarmál. Það kemur í ljós,” flissaði hann. Hann tók í hönd hennar og leiddi hana inn í kirkjuna sem var öll í ljóma og fullt af fólki stóð og söng yndislega sálma sem kysstu eyrun og gældu við heyrnina. Hún ætlaði að ganga inn og taka þátt í messunni en Gabríel togaði hana aftur inn í forstofuna og í átt að lyftunni.
,,Ýttu á takann. Við ætlum upp. Efst upp þar sem himinninn er.”
Án nokkurrar spurninga þrýsti hún á takann og lyftudyrnar opnuðust. Þau gengu inn, dyrnar lokuðust og þau skutust upp á nokkrum andartökum. Þegar þau gengu út úr lyftunni komu þau að hringstiga. Þula leit upp. Stiginn virtist óendanlega langur. Hana kiknaði í hnjánum.
,,Ekki vera hrædd,” hvíslaði Gabríel.
Þula leit ekki á hann heldur glápti á heljarinnar stigann.
,,Sérðu allar þessar tröppur? Hvernig í ósköpunum á ég að komast þangað upp? Ég er að verða sextug. Allt of gömul fyrir svona lagað. Allt of gömul.”
,,Ég skal bera þig ef þú vilt,” sagði Gabríel djúpri röddu. Þá leit hún á hann en hann var ekkert barn lengur heldur fullvaxta með stóra hvíta vængi. Þvílík dýrð.
Hann beið ekki eftir svari heldur tók hana upp í fang sér og flaug með hana upp stigann.
,,Ég vissi að þú værir engill. Þú hlýtur að vera ævaforn? Eld gamall.”
,,Já, ég er það. Mörg hundruð ára. Ég hef verið til frá því upphafi tímans.”
,,Manstu þá eftir risaeðlunum?,” spurði konan angdofa. Gabríel hló og kinkaði kolli.
,,Ja, hérna hér. Og ég kvarta undan lúnum, gömlum beinum.”
Þau flugu í aðeins andartak en þetta andartak virtist teygja úr sér í heila eilífð. Loks sáu þau síðustu tíu tröpurnar en efst skein skærasta og tærasta ljós sem Þula hafði augum litið.
,,Ég geng héðan af. Þú getur sett mig niður.”
Gabríel lagði hana varlega niður á jörðina. Hún steig varlega fyrstu skrefin en sem ofar dró fannst henni hún yngjast upp. Þegar hún átti aðeins tvær tröppur eftir staldraði hún við og leit á hendurnar sína. Þær voru ekki lengur æðaberar og hrukkóttar. Þær voru mjúkar og smágerðar hendur tíu ára telpu. Áfram gekk hún og á þegar upp var komið varð hún fimm ára á ný og böðuð í ljósi.
,,Velkomin,” sögðu sönglandi raddir. Þula hló.
Hún leit aftur fyrir sig. Gabríel var horfðinn. Hún horfði niður tröppurnar og sá jörðina í órafjarlægð og heyrði kirkjuklukkur klingja svo tók hún annað skref inn í birtuna sem gleipti hana í heilu lagi.

Klukkurnar hljómuðu og fyrir utan kirkjudyrnar lá gömul kona um sextugt sem myndi aldrei hreyfa sig framar í þessum heimi.
Þegar messunni lauk streymdi fólk út og enginn veitti aldraðri konunni sérstaka eftirtekt. Hún var svo friðsæl að hún leit út fyrir að vera sofandi.
Lítill, dökærður drengur staldraði við og horfði á lík gömlu konunnar með sínum bláu augum.
,,Hvað þarf ég að segja þér það oft Gabríel,” dæsti móðir hans og gekk í átt að bílnum.
,,Ég veit mamma. Ég veit. Ég er að koma,” svaraði hann. Bláeygði drengurinn beygði sig niður að eyra gömlu konunar.
,,Vertu sæl að sinni, Þula. Við sjáumst aftur,” hvíslaði hann, hljóp á eftir móður sinni.
Enginn tók eftir því sem gerst hafði nema ljósastaurarnir sem héngu yfir fólkinu í bænum, bognir í baki og sáu alltaf allt. Þessir þöglu áhorfendur sem enn í dag lýsa okkur leiðina heim.
Why be normal, when strange is much more interesting