FJALLKVIÐUR

Af persónulegum ástæðum hef ég breytt nafni Arnórs Grímssonar yfir í Steindór Grímsson. Skríðið um í hyldýpi þeirra óþæginda!
Ég veit að ég geri það.


Sólin var enn hátt á lofti þegar Steindór kom, nánast táraður af sársauka í baki og fæti, aftur til Eikarþorps. Fólk á götunum sýndi honum mikinn áhuga, enda höfðu fréttir um hetjudáðir hans í bardaga við Skugga frést vel. Steindór hinsvegar skipti sér ekkert af þeim heldur kom Þyt fyrir í hesthúsunum og gekk inn í vel kynt Grímshús. Fáfnir var fyrstur til þess að ganga til hans og styðja.
,,Hvað… ætlaði Skugga algerlega að stúta þér?‘‘ spurði hann stríðnislega og lét Steindór hlammast niður í lokrekkju sína.
,,Það var annað hvort hann eða ég,‘‘ muldraði Steindór og lagðist niður. Fólk í húsinu hópaðist í kringum hann og spurði fregna en Guðrún bandaði þeim í burtu.
,,Hvar ertu meiddur?‘‘ spurði hún þreytulega.
,,Skurður á baki og fótbrotinn, held ég, en ekkert sem góð hvíld lagar ekki. Ekki fárast yfir mér,‘‘ sagði Steindór og benti nálægum húskarli á að sækja handa sér mat.
,,Nokkuð spurst af fréttum þingverka?‘‘ spurði hvítskeggjaður og hettuklæddur maður sem lá á gólfinu fyrir framan rúm Steindórs.
,,Þingið segir lítið, en svo má skilja ða konungur ætli í aukin útlát,‘‘ svaraði Steindór og lygndi aftur augunum.

Líkt og þúsund ryðgaðar járnkeðjur var eins og vindurinn sjálfur lyfti upp rymjandi Steindóri. Hann gekk fram á náttserknum einum saman með hálfopin augun. Þegar hann ætlaði að leggjast aftur niður rykktu keðjurnar honum út í vegg. ,,Ái! Þá það, þá það,‘‘ Steindór hristi hausinn. Það var kominn tími til að uppfylla loforð. Kaldir fæturnir sukku ofan í freðna næturmoldina þar sem þeir ferðuðust á vit Þyts. Fálmandi hendur opnuðu hlið stíunnar og drógu fram svarta grímu.

Stjörnublandin ský var það eina er Steindór mundi af ferðinni, Þytur sá um að rata og halda Steindóri á baki. Þegar Þytur staðnæmdist rann Steindór ljúflega af baki og í mjög viljandi hrúgu við hófana. Steindór staulaðist þó syfjulega á fætur þegar Þytur stuggaði við honum. Gríman í höndum Steindórs var látlaus og óaðlaðandi og Steindóri var skapi næst að henda henni frá sér en gerði sér þá grein fyrir hvar hann var staddur. Hrundir steinveggir og götóttir turnar, næturmyrkrið magnað upp af skugga Grímufjalls. Hinn hættulegi Silfurkastali, fornt heimili Gráeyjarhöfðingja, nú bústaður slysa og reimleika.
,,Undir fjallinu, sagði Baldur,‘‘ muldraði Steindór og haltraði inn um hálfopið hliðið. Fáar kóngulær þorðu lengur að spinna um rústir kastalans, síst af öllu þorðu flugur þar nálægt. Stjörnur og ský sýndu sig í gegnum göt á veggjum og þaki, áður ríkulegur forsalurinn nú tómur og eyðilagður. Nokkur búsáhöld og húsmunir voru á dreif um salina, skilið eftir af ræningjaflokkum, auðnulausum og útlögum. Þessi kastali hafði hýst marga, en þó átt einungis einn húsbónda í öll þau ár sem hann stóð auður. Úr forsalnum gekk Steindór inn eftir auðum gangi. Einhver eðlislæg hvöt studdi hann framhjá ýmsum gildrum á leiðinni, ótraustum veggjum, holum í gólfi og hrynjandi þaki. Steindór hirti ekki einu sinni um að líta til baka þegar steinar hrundu úr þakinu fyrir aftan hann. Frá ganginum gekk hann inn í hrölegt hásætið. Stór salurinn var ennþá með langborð og stóla, drykkjarkönnur frá því í síðustu veislunni þarna voru þar enn. Við endann var hásætið sjálft á háum tröppum, lægsta fyrir erfingja, næst hæsta fyrir drottningu og það hæsta, með rispuðum gullskreytingum og máðum gimsteinum þar sem ekki var enn búið að rupla, var ætlað konunginum og mjór pallur þar við hliðina ætlaður ráðgjafa. Steindór gekk á milli stólanna, lét fingurna dansa á borðunum og gekk upp tröppurnar að hásætunum. Hann skoðaði ekki það fyrsta, leit ekki við því síðara, en staðnæmdist við hið hæsta. Fingurgómarnir struku gullbryddinguna og dáðu upphleyptar rúnirnar. Þykkur, dökkur viðurinn myndi aldrei brotna né rotna. Jafnvel núna, autt, máð, eyðilagt og yfirgefið stafaði af því máttur. Fætur Steindórs voru þreyttir.
,,Nei,‘‘ sagði hann þreytulega. ,,Bara konungar,‘‘ Steindór læddist niður, hræddur af innantómu bergmáli salsins. Líkt og á veturna í æsku, forðaðist hann myrkrið. Bergmál raddar hans undirstrikaði einmanaleikann í kastalanum. Drífum þetta af. Steindór hafði ekki komið hingað til einskis og lygndi aftur augunum. Í fjarska minningu sá hann vegg, óskemmdan og skreyttan. Steindór greikkaði sporið og flýtti sér eftir handahófskenndum göngum. Skyndilegur gríðarlegur sársauki slæmdist upp fótinn og bergmálaði í gegnum líkamann þegar Steindór slengdist niður með brotna fótinn í gegnum holu í gólfinu. Hann lá flatur á gólfinu og mjakaði sér hægt upp úr og settist upp. Hann hafði ekki lengi kveinkað sér þegar honum var litið á vegginn fyrir framan sig. Myndir af herjum riddara og jötna voru málaðar á vegginn, svartur skuggi læddist fyrir botni myndar en eitt auga vakti efst. Á miðri myndinni var ritað:
Vára er ok skugg
vel kann vopna
afskræmis athafn
skul menn forgefa
eður hefnd ríkja

Steindór virti fyrir sér gátuna um stund. Þegar afskræmis athafnir gerast, hvort skulu menn fyrirgefa eða hefna? Steindóri var litið á grímuna í hendi sér. Það er manna að fyrirgefa, hugsaði hann, en Skugga að hefna. Núna tók hann eftir því að nokkrir riddarar voru myndaðir í líki norræanna rúna. F. Steindór pikkaði í rúnina. O. Feitur riddari fékk ærlegan magaskell. R. G, e, f, a. Í stundarkorn velti Steindór fyrir sér geðheilsu sinni. Þar sem áður hafði staðið veggur, í minningunni allavega, lá nú mjór gangur niður á við. Steindór leit í kringum sig, og ótruflaður hélt hann niður á við. Það leið ekki löng stund þar til Steindór var staddur í litlum sal, með tveimur litlum fangaklefum, nokkrum snögum með vopnum og skikkjum og litlu skríni til heiðurs goðanna. Vopnin virtust ekki ryðguð, skikkjurnar nýjar og kertin á skríninu heilleg. Skápar með nýlegum lyfjajurtum og meðulum voru í einum enda en tunna með ýmsu matarkyns í hinum endanum. Þó svo að kæstur matur endist vel vissi Steindór að hann ætti ekki að endast í mörg hundruð ár, en girnilegt slátrið lét vel í nefi. Steindór reyndi að finna eldfæri en gafst upp og muldraði nokkur galdraorð yfir nálægum kyndli. Allir þrír kyndlarnir í hellinum blossuðu upp og lýstu ánægjulega. Í þessu nýkomna ljósi, sem skar þó í augun eftir heiftarlegt myrkrið uppi, sá Steindór nokkuð er vakti athygli hans. Á borði við hliðina á skríninu var stafli af nokkrum bókum og fjaðurpenni. Ein bók lá opin og fjaðurpenni ofan á henni. Á opnunni kannaðist Steindór vel við skrift Baldurs. Þessi síða sagði frá falli Skugga í gil í bardaga við Ragtanna. Steindór fletti aftur og sá ýmislegt sem hann kannaðist við, svo sem björgun Fáfnis frá Alfonzo Montoya og viðvörun Skugga um storminn á skipinu. En… Baldur kom aldrei hingað eftir þau atvik, hver… Steindór leit hugsandi í kringum sig og draugalegur dragsúr barst í gegn. Steindór hryllti sig, með ánægjulegum undirtón, og blaðaði aftur á bak í gegnum skinnbókina. Brátt sást ekki lengur skrift Baldurs og ný tók við. Steindór kannaðist eilítið við hana, og sá handskrift föður síns Gríms. Hann blaðaði lítillega og fann lítið merkilegt, nema eitt atvik fyrir um þrjátíu og fimm árum. Svo þess vegna gat hann ekki verið viðstaddur afmælið mitt, hugsaði Steindór glaður þegar hann las um dáð Skugga þegar hann verndaði Eikarþorp fyrir skipulagðri árás stórs glæpagengis, þar sem Skuggi stóð og felldi tugi og tugi aftur í húsi rétt við hliðina á Grímshúsi, þar sem Steindór nokkur sat og saknaði föður síns. Hann var semsagt ekki á kránni. Steindór lagði frá sér bókina og blaðaði í gegnum næstu. Blekið varð máðara og tungumálið eldra og skrýtnara og loks gafst Steindór upp en teygði sig í stakt skinnblað er lá á hvolfi á borðinu. Fyrsti textinn var óskiljanlegt fornmál, en þýðing var fyrir neðan hann:
Aldrei gefa loforð fyrir hönd Skugga.
Aldrei selja eða gefa burt einu veraldlegu eigur Skugga nema til næsta grímubera.
Aldrei deyða saklausan.
Sá er sekur er hindrar framgöngu Skugga.
Aldrei deyða mennskan mann er ekki hefur lifað sextán vetur.
Aldrei segja til örlaga sinna sem grímubera. (Steindór minntist Baldurs, en það var búið að krota yfir helming fyrsta orðsins)
Næsti grímuberi skal ávallt drepa eða særa þann fyrri.
Steindór lagði blaðið frá sér en greip aftur nýjustu skinnbókina og fletti að því þar sem Baldur hafði dáið. Jæja, höldum áfram þessari kviðu. Eftir að hafa leitað Baldurs var Steindór tekinn til fanga…

Trjángur gekk fram í salinn í eirðarleysi svefnlauss manns. Hófatak nálægðist og bogar voru spenntir. Örlítið orðaskak átti sér stað og inn gekk ungur, sköllóttur maður í rauðum og svörtum kufl í fylgd tveggja varða. Hann sýndi Trjáng enga hefðarlega virðingu heldur lagði á borðið skinnrúllu og hélt aftur til baka. Verðirnir fylgdu honum aftur út. Trjángur tók upp skinnið og hinni hendinni veifaði hann yfir sandinn. Með veiku hljóði smaug sandurinn til og frá og myndaði merkið sem Skuggi hafði letrað þar áður. Í andartak virti Trjángur það fyrir sér en afmyndaði svo aftur með litlu sparki. Án þess að líta á skinnrúlluna gekk hann aftur til vistarvera sinna og læsti rúlluna ofan í skúffu. Síðan ávarpaði hann dottandi vörðinn við herbergi sitt.
,,Heriður ætti að kalla til fundar strax, eða verða ei meir áheyrandi ráða minna,‘‘

Steindór leit upp úr bókinni og á kulnaðan kyndilinn fyrir ofan sig. Kalt loftið píndi hann þar sem hann sat á grúfu við borðið í náttserknum einum. Steindór fann létt fyrir blekinu sem var klesst út um andlit hans, og sá til staðfestingar ögn afskræmda stafina á síðunni. Hann hafði verið að mest alla nóttina, og var nú kominn að því þegar þrítugasti og fimmti grímuberi fann Silfursalinn. Hann skráði þó ekki hjá sér punkta um skort á silfri. Steindór gekk aðeins um salinn og í myrkrinu tókst honum að koma auga á annan helli, lítillega falinn á bakvið dropasteinavegginn á bakvið skrínið. Steindór klöngraðist þangað og var staddur á bakka með lítilli, grænbblárri laug. Það sem fékk Steindór þó til þess að gapa var að laugin var öll útötuð í blautum blaðsniflum. Rólega teygði hann sig í einn þeirra og las. Þarna var rún Skugga, og beiðni um matarastöð frá gamalli konu á Hafey. Steindór lagði miðann frá sér. Honum varð litið á lítið eldstæði í hellinum og gerði sér strax grein fyrir til hvers væri. Seinna. Dauft hnegg heyrðist fyrir utan. Steindór reif sig upp og svefndrukkinn staulaðist hann aftur út úr kastalanum. Þó svo að morgunbirtan bægði burt sumu myrkrinu var það ekki einungis hún sem gerði Steindór meira heimkominn þangað, það var líkt og kastalinn hefði tekið við honum. Steindór flýtti sér út úr kastalanum og til móts við Þyt.
,,Jæja þá, Baldur,‘‘ ávarpaði Steindór heiminn. ,,Ég hef leitað, og ég hef fundið kviðurnar undir fjallinu. Ég leysti gátuna og fann salinn. Ég hef ritað þá kafla sögu minnar er til eru komnir, og lesið reglur grímuberans. Má ég núna fá almennilegan nætursvefn?‘‘

Það var kominn miður morgunn þegar Steindór kom loks aftur til Eikarþorps. Garðar tók á móti honum.
,,Hvar hefurðu verið, bölvaður?‘‘ spurði hann.
,,Skyndilega mundi ég… að ég átti eftir að sjá svolítið á… gömlu skrifstofunni,‘‘ sagði Steindór og fór af baki sárfættur.
,,Skiptir ekki máli, hversu mikilvægt sem það er,‘‘ Garðar leit vænissýkislega í kringum sig.
,,Gerðu það ekki líta svona í kringum þig, fólk fer að horfa á okkur,‘‘ sagði Steindór kæruleysislega.
,,Byltingin kallar, fundur eftir tvo daga, allir mæta,‘‘ hvíslaði Garðar og kinkaði kolli. ,,Þeir segja að Skuggi verði þar,‘‘ Því miður, þá verður Steindór að mæta.