Himinninn var grár og sólin náði varla uppfyrir húsþökin þótt það væri komið upp undir hádegi. Sólin var í lægsta punkti en svo lágt fór hún ekki nema fjórum sinnum á ári. Einu sinni fyrir löngu höfðu forfeður mínir búið á stað þar sem sólstöður voru bara einu sinni á ári. Raunar, þá held ég að það sé ástæða þess að árið sem tímaeining er eins og það er. Jörðin fór einn hring í kringum sólina, það tók svo og svo langan tíma, og við kölluðum það ár. Ég sparka í stein og velti því fyrir mér hvort það séu líka sólstöður á þeirri plánetu núna en veit að það er þýðingarlaust að velta því fyrir sér hvort eitthvað gerist á sama tíma, ef það er ekki á sama stað í geimnum og ferðast ekki jafn hratt.

Mannkynið er endanlega búið að hólfa sig í sundur út af þessu, en það var samt ábyggilega ekki ætlunin þegar landnámið hófst. Auðvitað freistar fólk gæfunnar ef það sem það hefur er ekki upp á marga fiska… en í leiðinni týndum við hvert öðru. Kortin eru auðvitað mjög fullkomin, við vitum nákvæmlega hvar við erum staðsett í rúmi með tilliti til annarra sólkerfa í vetrabrautinni. En við erum týnd í tíma. Fyrsta fólkið sem fór frá jörðinni og ætlaði að snúa aftur með fréttir af öðrum veröldum, fundu ekki plánetu fulla af lífi heldur eitthvað allt annað. Þegar það snéri svo aftur þaðan sem það kom þá fann það ekki heldur neitt í líkingu við það sem það hélt að ætti að vera þarna. Þetta virtist handahófskennt. Stundum koma ferðalangar að einhverri ótilgreindri framtíð og stundum komu þeir að löngu horfinni fortíð, en enginn fékk ráðið við neitt.

Þannig að eina sem við gátum gert var að koma okkur fyrir og vera um kyrrt. Þetta er tiltölulega einangrandi líf en fólk lærir á endanum að koma sér upp menningu og láta hana duga sér. Þeir sem hugsuðu sér til hreyfings urðu að sætta sig við það að ef þeir létu vaða yrði ekki aftur snúið. Það sem við hin höfum hins vegar eru slitrur. Saga. Sumt komu við með okkur upphaflega og höfum svo bætt við. Annað höfum við fengið frá nýbúum, bæði frá fortíð og framtíð. Saman myndar þetta ágætis línulega framvindu sem margir á plánetunni minni lifa og hrærast í. Sagnfræðingar eru landkönnuðir hérna. Fólkið sjálft ræður ekki hvar það er staðsett en það getur kynnst alheiminum í gegnum söguna.

Það sem fékk mig til að hugsa um sólstöðurnar var atburður sem gerðist í nótt. Ferðlangur kom. Það hefur ekki verið algengt upp á síðkastið. Ekki síðan ég var krakki. Sagnfræðingar segja að það sé bara tilviljun. Ferðalangar eigi eftir að verða algengari aftur eftir nokkur ár. Þessi var samt á mjög einkennilegum tíma en að mati sagnfræðinga bendir það til þess að hann geti verið einn af þeim fyrstu. Raunar höfðu sumir sagnfræðingar pata af því að einmitt um þetta leiti myndi einn slíkur koma, en sagnfræði eru mjög ónákvæm vísindi, a.m.k. á okkari plánetu, og það er ekkert endilega víst að um sé að ræða sama atburð. Heimildirnar eru stopular.

Engu að síður var fólkið mitt mjög spennt og ég fór með mömmu og pabba til þess að taka á móti ferðalöngunum. Hann birtist eins og stjarna á himninum og skipið var mjög… eh… fornfálegt. Aftan úr því stóð gríðarlegur blossi sem benti til þess að verið væri að keyra á óþarflega kolefnisríku eldsneyti. Þegar skipið lenti svo neituðu farþegarnir að koma út. Þetta var frekar vandræðilegt allt saman, enda búið að skipuleggja mikla viðhafnarmóttöku. Seinna um kvöldið þegar allir voru komnir heim sá ég svo í fréttunum að stjórnvöld voru búin að tala aðeins fyrir þeim og ein fréttastofan hafði meira að segja fengið viðtal við fólkið.

Það talaði sín á milli á einhverju tungumáli sem ekki var hægt að þýða en það kom á daginn að hægt var að ræða við þau á mjög gamalli útgáfu af tungumáli sem kallast enska. Ég man nú ekki nákvæmlega um hvað þau töluðu. Þetta var einn maður og ein kona og þrjú börn og ein mjög takmörkuð útgáfa af hundi. Skipið að innan virtist mjög heimilislegt, eins og þau hefðu búið þar lengi, og jafnvel eins og það væri skreytt sérstaklega í tilefni dagsins. Tilefni landnámsins hélt ég jafnvel, en tilefnið var reyndar annað. Grænar greinar, rauðir borðar, kerti og ljós og því um líkt. Þau sögðust vera að halda upp á undanfara jólanna en samkvæmt sangfæðingunum er það ævaforn sólstöðuhátíð frá jörðinni.

Mér fannst það skemmtilegt að þau héldu upp á jól núna, einmitt þegar sólin var í lægsta punkti hér. Það er frekar mikil tilviljun. Alls ekkert of ólíklegt en ekki líklegt heldur. Eftir að hafa flett upp í sagnfræðiritunum sá ég að raun var það sem kallast aðfangadagur í gærkvöldi þegar þau lentu, en hin raunverulegu jól yrðu í kvöld. Það var nú leiðinlegt fyrir þau. Ég geri ráð fyrir því að mjög bráðlega verði sagnfræðingarnir búnir að fá upp úr þeim allar þær upplýsingar sem einhver verðmæti er í. Það verður því mikill hátíðarkvöldverður í kvöld.

Þar verður þeim slátrað, fyrst börnunum fyrir framan foreldranna og svo foreldrunum sjálfum. Æðstu sögumeistararnir munu svo borða máltíð þar sem kjötinu af þeim verður framreitt á þann hátt að þeir geti á sem bestan hátt sogað í sig söguna úr holdi þeirra. Með því að leggja hold þeirra til munns verður lífefni frá öðrum tíma og söguskeiði hluti af lífeni líkama okkar. Þannig verðum við hluti af sögu þeirra. Þessu er sjónvarpað í beinni útsendingu. Restinni af líkamsleifunum verða brytjaðar niður í gríðarstóra súpu sem allir sem áhuga hafa munu geta fengið smakka á. Vissulega er það mjög deyfður skammtur sem maður fær í súpunni, en ég er spenntur enga að síður. Ég hef aldrei áður fengið jafn gott tækifæri til að tilheyra sögunni.

Í viðtalinu í gær var fjölskyldufaðirinn á geimskipinu eitthvað að reyna að útskýra fyrir fréttamanninum hvað jól eru. Ég náði ekki alveg hvað hann sagði en ég efast um að hægt sé að finna helgari tilgang fyrir jólunum en að komast í snertingu við söguna. Gleðileg jól.