Þúsund metra upp og heil eilífð fyrir neðan.

Gabríel í turninum.

Þúsund ár og þúsund ár. Varirnar þurrar. Hann lítur til vesturs, blóðrautt ljósið sökkvandi bak við sjóndeildarhringinn, flatur bjarminn lýsir upp endalausan hafsjó af byggingum, háhýsum sem teygja sig langt upp fyrir skýin, ljósið blindandi í glerinu.

Hann er hreifingarlaus. Skuggi sem vofir yfir borginni, skapaður úr ljósi. Síðasti stríðsmaðurinn. Sverðið hangir samt við síðuna óhreift. Hornið í hönd.

Þúsund ár og þúsund ár. Hann sat meðal þeirra, drakk meðal þeirra, hló með þeim, sá hvað þeir gátu gert við hvorn annan. Fullkomlega gölluð vera. Heimsins stærstu harmleikir skapaðir úr eigin græðgi og ótta. Á þúsund árum sér maður samt margt. Hann hafði samt bara upplifað hana eitt andartak, starandi á sig óhrædd þar sem hann kleif turninn. Fullkomlega tær tilfinning í ringulreiðinni allt í kring. Allur ótti og væntingar berstrípaðar frá. Hún gat horft beint á hann án þess að blindast og skríða aftur í myrkrið. Aldrei áður og aldrei aftur.

Hann finnur nánast fyrir sorg.

Síðustu geislarnir horfnir bak við öldurnar. Bleitir varirnar.

Andartak stöðvast tíminn. Hann lokar augunum og ber hornið að munninum og blæs.

Dynjandi hljómurinn berst um alla veröld, hver einasta mannvera leggur við hlustir í myrkrinu. Fljóðbylgjan eins og veggur sem geysist ósýnilegur í gegnum hvert einasta hús, nánast ærandi.

Og síðan þögn. Myrkur og þögn.

Það draga allir andann, eins og hann sé sá fyrsti sem þau finna. Eins og gusa af köldu, tæru bergvatni. Fullkomlega tært. Og úr vestri kviknar ljós, bjartara en það sem nokkurntíman hefur sést. Nóttin tærari en nokkur dagur.

Og allur heimurinn stendur kyrr og starir í þetta fullkomna ljós. Agndofa yfir því að eitthvað svona fullkomið geti verið til.

Hornið fellur til jarðar og brotnar í þúsund mola.

Gabríel opnar augun. Hann hefur unnið sitt verk. Hann upplifir í andartak þúsund ár og þúsund til sem öll sameinast í einu andartaki á stúlkunni sem stóð og starði á hann. Stúlkan sem var eina ljósið nógu bjart til þess að þola hans eigið.

Fullkomna veran Gabríel upplifði ófullkomnustu tilfinningu allra. Ást.

Með ástinni kom eftirsjá og með eftirsjánni ótti. Þúsund ár og eitt andartak var Gabríel maður.

Þúsund metra fyrir neðan stóð haf af fólki og starði í ljósið, ljósið sem varð bjartara og bjartara. Þangað til það varð ekki bjartara heldur blossaði sem eldur í vesturhimninum, og eldur varð það. Veggur af fullkomnu ljósi kom æðandi yfir hafið svo það sauð. Upp á ströndina og yfir borgina.

Upp í turninum breiddi Gabríel úr vængjunum og steypti sér niður þúsund metra, sveif yfir milljónir manna starandi stjörf af alsælu á hinn fullkomna vegg af ljósi sem kom æðandi að þeim.

Hann sveif yfir risavaxinni hraðbrautinni, allt í kring um hann sprungu rúður háhýsanna, klæðning fuðraði upp, málningin á bílunum flagnaði af, málmurinn bráðnaði. Malbikið sauð. Eldveggurinn gleypti allt, hverja einustu mannveru standandi stjörf, fuðruðu upp í reyk og ösku.

Hann fann fjaðrirnar sviðna, fötin brenna af sér. Barði vængjunum eins fast og hann gat.

Og þarna var hún. Standandi á miðjum veginum. Eins óttalaus og í fyrsta skiptið sem hann sá hana. Og það var eins og hann finndi ekki hitann lengur.

Hann lenti beint fyrir framan hana. Hún brosir til hans. Ljósið fyrir aftan hann. Hann gengur til hennar. hallar sér að eyra hennar og hvírslar. Hvírslar og hvírslar eins og tíminn bíði eftir þeim. Eldur og málmur og gler allt í kring, þeytast framhjá á meðan veggurinn tætir upp veginn við fætur þeirra.

Hann hvílir höfuð sitt á öxl hennar. Þau standa tvö í eldhafinu. Vængir hans vefjast utan um hana í fullkomnu faðmlagi. Hylja hana.

Og Gabríel brennur. Fjaðrirnar leysast upp í ösku, andlitið verður að sóti. Og hann blæs í burtu með síðasta vindinum.

Og síðan er ekki neitt. Þögn.

Reyknum blæs í burtu, allt farið, Engin minning um það sem áður stóð. Ekkert nema hún. Ósnert, óhrædd.

Og hún horfir til austurs, þar sem sólin rís í fyrsta skipti, og hún man hverju var eitt sinn hvírslað að sér.