19. Desember . 2011 , Mánudagur.

Ég veit ekki hví í ósköpunum ég er að skrifa þetta því þetta pár mun sjálfsagt aldrei finnast. Ef svo gerist heiti ég Guðmundur Friðriksson. Við erum þrjú saman innikróuð í hripleku tjaldi sem gerir lítið til að halda hitanum inni. Hinir heita Halldór Friðriksson og Svala Óskarssdóttir. Við höfum ekki hugmynd um hvar við erum, sjálfsagt einhversstaðar nálægt Pensacola fjöllum. Við erum búin að halda okkur á lífi núna í hálfa viku, höfum nægar vistir til einnar viku í viðbót og fullann sjúkrakassa. Ég vona að hans verði ekki þörf í bili. Við höfum haft dálítið skjól eftir að hafa hlaðið snjóhús yfir skemmdari enda tjaldsins og höfum það skítsæmilegt enn sem komið er.
Ég er búinn að spyrja sjálfan mig hvernig ég lét plata mig út í þessa heimskulegu ferð til Suðurskautsins, bara til að húka með fúlum skyldmennum í brjáluðum hríðarbyl. Það var í raunini Halldór bróðir minn sem náði því létta afreki að heilla mig með fyrirheitum um ævintýri og óvissur syðst í gaddfreðnu rassgati. Eins og það sé ekki nægur snjór heima!

Ég man þegar hann hálf ruddist inn í íbúðina hjá mér baksandi um með stafla af ferðabæklingum, landakortum og ljósmyndum þyrlandi upp ryki setjandi allt á annann endan, röflandi af ákafa um ferð sem honum hafði boðist hjá lítilli ferðaskrifstofu í austurbænum á spottprís. Hann lét eins og hún væri nýjasta jólagjöf tíu ára krakka. Þetta átti að vera ævintýraferð á vélsleðum yfir auðnir Antarktíku til að taka þátt í jólafagnaði (sem fór reyndar fram í gær) sem yrði haldin af tilefni 100 ára síðan Roald Amundsen fór á suðurpólinn. Svo átti að halda athöfn þar sem formlega yrði opnað safn til minningar um Roald Amundsen og Jens Amundsen barnabarn hans sem átti stóran þátt í allsherjarfriðun dýrategunda á landinu með einhverjum alþjóðasamningi sem gerði suðurskautslandið að einum þjóðgarði. Jæja lítið um hátiðir núna hjá okkur.

Fyrri hluti ferðarinnar fyllti mann nú heilmikilli þrá í ævintýrin. Flug og gisting í Argentínu á allveg hreint frábæru hóteli, fín ferjusigling án sjógangs til Eldlands og hlýlegar móttökur þar. Heilmikil tilbreyting frá vinnunni hjá Domino's, enda er maður búin að fá ógeð á öllu sem tengist pizzum og hvítlauksbrauði, vinnuveitandinn var hvort sem er farinn að fækka starfsfólki. Ég var farinn að rotna í þessari kitru sem ég fékk fyrir algjöra heppni í austurbænum á smápening fyrir miskunn mágs mín sem er orðinn einn stærsti leigusalinn í borginni. Nóg um það. Það var ekkert sem benti til vandræða í ferðinni. en þau byrjuðu fljótlega eftir að við héldum af stað með litlum hópi á vésleðum frá Pine island flóa. Konan hans Halldórs, Svala hafði slegist með í för, hafði hitt okkur á Eldlandi og virtist margfalt ákafari en Halldór sjálfur því hún hóf varla samræður nema hafa ferðina sem aðalumræðuefnið. Jæja, sleðinn hennar byrjaði á einhverjum meltingatruflunum og hópurinn þurfti að doka við á meðan sleðinn var lagaður.
Spáð hafði verið hríðarbyl þannig að þessi töf var ekki beint til að laga aðstæðurnar og móralin í mannskapnum. Við vorum komin hálfa leið þegar við lentum í bylnum. Það var ákveðið að taka lítinn sveig og halda áfram að rannsóknarstöð í eigu Bandaríkjanna, Byrd og leita skjóls þar. Stóra áfallið kom stuttu eftir af bylurinn hófst. Halldór missti af okkur og Svala gerðist svo (ótrúlega vitlaus) djörf að snúa við til að leita að honum, án þess að láta hópinn vita. Við urðum að stöðva förinna og leita að skötuhjúnum á meðan bylurinn versnaði stöðugt. Þó að flestir í hópnum hafi haldið nálægð við hvor aðra við leitina, a.m.k. í sjónfæri var ég það erkifífl að missa af þeim sem var næst mér og ráfa út í óvissuna. Ég fann Halldór og Svölu á endanum, hún hafði fallið illilega af sleðanum sínum þegar hún fór yfir sprungu og var ekki beint vel farin. Við settum upp tjald, (eða reyndar nælontægjur, keyptar í verslun í Mosfellsbæ,) og settum upp sæmilegt skjól með vélsleðunum í kring. Talstöðvar eru í mínum vésleða og sleða Halldórs en talstöðin virkar aðeins í sleða Halldórs og þá aðeins til að hlusta á sendingar, mækinn slitnaði af.
Við höfum verið að hlusta á viðleitni björgunarsveita til að finna ummerki eftir okkur en veðrið tefur leitina umtalsvert. Manni líður eins og mállausum manni föstum ofan í holræsi, veifandi til vegfarenda, reynandi að ná áthygli með hljóðlausu angistaröskri þegar við hlustum á allar þessar raddir og getum ekki gert rassgat til að láta vita af okkur.

Svala hefur ekkert lagast síðan atvikið með sprunguna gerðist. Hún er handleggsbrotin og með nokkur brotin rif. Hún hefur haldið meðvitund allan tíman og er með réttu viti þó hún eigi það til að hljóða upp úr svefni og röfla eitthvað óskiljanlegt. Vel á minnst, hún hefur sofið meira og minna síðan við festumst. Það hefur tekist að halda kvölum hennar niðri með deyfilyfjum en það mun ekki virka endalaust. Sem betur fer er nóg til af Lidokaine. Ég hef tekið nokkrar sjálfur reglulega til að halda niður verk í bakinu (Það var ekki beint létt verk að ýta níðþungum Kawasaki sleða yfir hnédjúpan snjó). Við höfum tvo prímusa þannig að engin vandræði eru í sambandi við hitun, þ.e.a.s. ef þetta tjald heldur.


20. Desember Þriðjudagur.

Bylurinn hefur versnað og virðist hóta endalaust að rífa tjaldið ofan af okkur með öllu draslinu. Við höfum heyrt í talstöðini umtal um að hætta leit þangað til veðrinu slotar, sem virðist ekki útlit fyrir að gerist því þetta helvítis veður hefur akkúrat ekkert lagast síðan það byrjaði heldur hefur það magnast stig af stigi. Febrúar-mars hríðarveðrið heima líkist heitu sumarlogni miðað við þetta. Maður er stundum að ærast úr hávaða þegar mestu hviðurnar rífa í tjaldið eins og risavaxin ískló sé að rífa í nælonið. Tjaldið heldur enn sem komið er en ég er orðin hræddur um að ég og Halldór þurfum bráðum að reisa stærra snjóhús. Við höfum lítið að gera núna nema spila rommí og hlusta á fréttir af leitinni. Ég hef gert tilraunir til að tengja mækinn við talstöðina, lítið hægt að gera í rauninni.
—–