22 Desember Fimmtudagur.

Við vorum að vona að hið óumflýjanlega myndi seinka aðeins meira. Tjaldhimininn rifnaði af nærri því í heilu lagi snemma í gærmorgunn og hleypti nístingssköldu rokinu inn. Nær allt sem var í tjaldinu rauk út og dreifðist um allann ísinn , það var fyrir einhverja blessun að við náðum mestu aftur, þar á meðal mestu af matarbirgðunum og sjúkrakassa. Talstöðin fauk þó út í veður og vind. Prímusinn varð fyrir heilmiklu hnjaski en virkar þó. Við eyddum öllum deginum í að endurheimta nauðsynlega muni og byggja helli í næsta snjóskafl. Maður orðinn ansi máttvana þegar við loks náðum að flytja allt okkar hafurtask í nýja skjólið. Við vorum svo langt fram á nótt að hlúa að Svölu og halda henni heitri. Slysið í gær var heilmikið áfall og fékk langmest á hana. Hún heldur meðvitund en er mjög illa farin. Hún er komin með kalbletti í andlitið, handleggurinn hefur bólgnað enn meira.

Við erum reyndar öll illa farin. hægri höndin á mér er illa farin af kali og skurðum. fjórir fingur frosnuðu í gegn og eru orðnir gráir. Þeir hafa verið að þiðna smátt og smátt í dag og eru ekki beint tilfinningalausir. Stöðugur sársaukinn er hægt og sígandi að gera mig brjálaðann. Slitlaus æpandi taugaboð sem taka allt rými í heilanum og ýta öllum öðrum tilfinningum út. Ég get enn skrifað eins og þessar línur gefa til kynna enda er ég örvhentur. (Gæti einhver ímyndað sér skriftin yrði hjá manni, skrifandi með einskisnýta stubba, þumalinn einan starfhæfann?!).

Vonin um björgun er farin að þverra hjá okkur enda matarbirgðir aðeins til þriggja daga, (Vetur konungur tók eitthvað til sinna nota) sex ef við skömmtum og þá að mestu leiti fyrir okkur Halldór. Það hljómar eflaust virkilega kuldalega og hræsnaralega (hæfir veðrinu) en við erum heppnir að Svala er svo illa farin að hún borðar nær ekkert, lifir nær eingöngu á vatni og lyfjum. Verð að hætta, verkurinn í hægri hendinni er orðinn óbærilegur. Með guðs hjálp lifum við þetta af… vonandi.


23. Desember. Föstudagur.

Verkurinn í hendinni hefur minnkað talsvert síðan í gær en kannski er það merki um að vefurinn í fingrunum sé að drepast. Það er samt dálítið erfitt að skrifa fyrir skjálfta í hinni hendinni en ég læt mig hafa það. Líðan Svölu hefur ekkert breyst, sama með veðrið. Að minnsta kosti virðist hámarki veðurofsans vera náð, þó ekki sé hægt að segja það sama um Svölu. Ástand hennar er orðið hrikalegt og líkur á að hún deyi innan hálfrar viku komist hún ekki undir læknishendur. Halldór er orðinn ansi taugaveiklaður og stagast sífellt á því að við munum frosna í hel hér í þessu ískalda helvíti. Ég sjálfur hef haldið haus hingað til. Við höfum nú enn möguleika.


24. Desember. Laugardagur.

Við héldum jólin hátíðleg þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Skreyttum hellinn með bjöllum og jólatrjám sem ég klippti úr restini af tjaldhiminum. Skreytingingarnar gera nóg til að laga andrúmsloftið. Við “dekruðum” við okkur með stærri mataskammti og sungum jólalög.

Líðan Svölu minnkaði jólagleðina, en hún hefur ekkert lagast. Hún hafði meðvitund allan morguninn en var svo rænulaus það sem eftir var af deginum. Hún gerði okkur dálítið skelkaða þegar hún vaknaði um kvöldið. Hún starði upp í loftið eins og vofa og fór að söngla eitthvað óskiljanlegt, eins og hún þyldi einhverja gamla indjánamállýsku. Hún virtist ekki taka eftir okkur á meðan þetta gerðist, hún leit út fyrir að vera í einhverjum lokuðum drungalegum draumaheimi. Þetta gekk í hálftíma þangað til hún þagði eins snögglega og hún byrjaði. Þetta hafði slæm áhrif á Halldór en hann er orðinn eins og guðhræddur miðaldabóndi, þyljandi Maríubænir og faðirvorið (Hann er trúleysingi!).

Hvernig ætli mamma og pabbi hafi það? Sjálfsagt harmi sleginn yfir bestu drengjunum sem er nú horfnir. Halldór, stolt fjölskyldunnar (Pabbi sprakk nánast úr monti þegar elsti sonurinn varð sá fyrsti í fjölskyldunni til að ljúka háskóla og til að opna tannlæknastofu.). og ég, ungi íþróttamaðurinn sem átti alla möguleika á feril sem handboltaleikmaður, ég batt enda á þær vonir sjálfur þegar ég klessti fyrsta bílin minn á ljósastaur þegar ég var nýbúinn að ná tvítugsaldri. Vinstri fóturinn á mér klemmdist milli sætisins og gólfsins og hnéð fór í mél. Þeir þurftu að stífa fótinn svo ég er með staurfót enn í dag, ég he ekkert átt í vandræðum með fótinn nema í rigningaveðrum þegar sársaukinn er stundum að drepa mig. Jólin hjá gamla fólkinu heima eru sjálfsagt lítið betri en hjá okkur.



25. Desember. Sunnudagur.

Við höfum komist að því að eitthvað af matnum er skemmt. Þriggja daga vistir eru eftir, með skömmtun. Kannski maður ætti að byrja að lifa á lyfjabirgðunum.
Ég veit hreint ekki hvernig við eigum að lifa þetta af eftir þessar hörmungar síðustu daga. Líðan Svölu hrakar dag frá degi og geðheilsa Halldórs virðist versnandi sömuleiðis. Hann reyndi fimm sinnum í dag að brjótast út úr snjóhellinum og út í hríðina. Ég náði í öll skiptin að stöðva hann, oftast með hörku. Rétt fyrir fyrsta skiptið var hann óvenjulega rólegur, hugsi á svipinn eins og hann væri að ráðfæra sig við sjálfan sig. Það gerðist eldsnöggt, eina sekúnduna lá hann undir teppi, allt í einu rauk hann upp með skaðræðisöskri. reif niður tjaldhiminin sem lokaði hellinum og var á leiðinni út þegar ég náði að rífa í hann. Hann dró mig með sér nokkra metra áður en hann hneig emjandi niður í hjarnið. Hann leit á mig ásakandi og reyndi að slá mig af sér. Ég lá stjarfur fyrir aftan hann, hálf lamaður af kulda, ég var að fá sjokk. Með gífurlegu átaki náði ég að hreyfa mig og toga hann með mér aftur inn. Hann lét leiða sig eins og smákrakka á leiðinni á barnaheimili, vælandi og togandi á móti. Hann var ekki eins djarfur í seinni skiptin en gerði mér samt helvíti erfitt fyrir þar sem styrkurinn hjá mér er í lágmarki þessa stundina. Núna er hann rólegur eins og kettlingur, sem gerir mig stressaðan og spenntan. Hann gæti rokið út á hverri stundu! Ég hef velt því fyrir mér hvað hann myndi lifa lengi í þessum veðurofsa, 40 stiga frosti í ullarpeysu og buxum einum fata. Hálftíma? klukkutíma? tíu mínútur?. Verð að hætta, er kominn með skjálfta í hendina.
—–