Sigurður sat á bekknum í sólinni. Lou Reed söng ljúft um New York rokk í heyrnartólum hans og bílarnir þutu framhjá. Lou Reed þagnaði um stutta stund og krakkarnir sem léku sér allt í kring hrópuðu og hlógu. Vörubíll þaut framhjá og kæfði hljóðin í litlu krökkunum og Sigurði finnst það vera lífið í hnotskurn. Stór vörubíll þaggar niður í litlum krökkum, lífið í hnotskurn. Lou Reed og félagar tóku við á ný og Sigurður fann friðinn sem hann kom til að finna. Sólin skein á andlitið hans og hann þurfti að píra augun til þess að geta fylgst betur með litlu krökkunum að leika sér.

Guli bekkurinn var orðinn gamall og sömuleiðis þessi líðan Sigurðar, hún var orðin gömul og þreytt. Hann var löngu orðinn þreyttur á því að þurfa hlaupa út af sínu eigin heimili. Hann var löngu orðinn þreyttur á þessu stanslausa bulli heima hjá sér. Alltaf þegar hann stökk út af heimili sínu þegar foreldrar hans rífust heiftarlega eða jafnvel slógust endaði hann á þessum bekk. Alltaf þegar Helga var tekin í gegn eða þegar Jói fór að leika löggu endaði hann á þessum bekk. Hann endaði allt of oft á þessum gula bekk.

Helga systir hans hafði komið heim fyrir korteri síðan eftir að hafa horfið í 4 daga(væntanlega aðeins horfið til að taka dóp í einhverju bælinu). Sigurður dæmdi hana samt ekki en hann bað guð um að forða henni frá mömmu sinni og pabba, og frá Jóa bróður sem réðust á hana með orðum um leið og hún gekk inn í íbúðina og hann bað guð um að forða henni frá lífsstíl sínum. Guð hjálpi henni, ó Guð, hjálpa þú þeim öllum sagði Sigurður með sjálfum sér.

Ungur piltur gekk framhjá bekknum, hann var í þykkri blárri peysu og í víðum stuttbuxum, með svört sólgleraugu, vel gelað hárið og hund í bandi. Sigurði fannst vera mikill stíll á drengnum og honum fannst drengurinn líkjast einhverjum töffaranum í sjónvarpinu en kom honum ekki alveg fyrir sér. Sigurður gat ekki annað en efast um stíl sinn þegar hann sat þarna á gula bekknum, með klaufalega klippt hárið og í gallabuxum úr Hagkaup. Peysan hlaut að vera úr svipaðri búð, hann vissi það ekkert enda móðir hans vön að versla á hann föt. Sigurður var allt það sem fólkið í tískublöðunum var ekki. Sigurður hafði hinsvegar nóg á sinni könnu, það var nógu andskoti mikið að gerast í hans litla heimi til þess að hann færi að pæla í einhverjum tískustraumum svo hann var fljótur að kæfa þessu hugsun um stíll sinn.

Sigurður stóð fyrir utan útidyrahurðina. Grænblá útidyrahurðin horfði beint í augun á honum og nöfnin á póstlúgunni voru eins og syndandi fiskar í hafi huga hans. Hann dró andann djúpt og opnaði hurðina. Ekkert heyrðist, engin óp og engin merki um að allt væri ennþá vitlaust. Satt að segja bjóst Sigurður við öllu því versta, þó að móðir hans hefði verið dáin í anddyrinu eða að systir hans hefði ráðist á Sigurð í anddyrinu hefði það ekki komið honum á óvart. Hann hafði lært það fyrir mörgum árum að það var ekkert sem kom á óvart á þessu heimili. Í þessari íbúð höfðu mörg tárin fallið, mörg höggin verið veitt, mörg ópin verið sköpuð og þetta voru bara endalaus rifrildi og allt gat gerst nema kannski kraftaverkin, og þó….

Sigurður settist í rifinn tveggja manna sófann. Sjónvarpið sagði ekki neitt en sýndi táknmálsfréttir. Systir hans sat við hlið hans, andlitið hennar var grafið í höndum hennar. Frá Helgu lögðust eins og lítíl tísturshljóð og hún saug upp í nefið, var þetta grátur? hugsaði Sigurður með sér. Kemur ekki neitt annað til greina á þessu heimili sagði hann svo. “Ha?” sagði Helga með hásri röddu, nú horfði hún beint í augun á bróðir sínum. Tárin leyndu sér ekki og hún reyndi ekki að fela neitt. Sigurður hlaut að hafa verið að hugsa upphátt. “Já nei var bara að bulla eitthvað, en hva, ert þú bara ein heima?” – “Já hin ruku út til að fara í bíltúr” og Helga setti upp gæsalappamerki með höndunum til að leggja sérstaklega áherslu á orðið bíltúr. “Örruglega bara til þess að ræða um mig, dópistann og aumingjann” Sigurður sagði ekki neitt en týndi sér í að fylgjast með systur sinni er hún fór að fylgjast með þögla manninum í sjónvarpskassanum. Svarta hárið á Helgu var grútskítugt og virtist vera ein klessa. Sigurður gat ekki annað en hugsað til baka þegar hárið á Helgu var slétt og fallegt, þegar Helga var bara venjuleg stelpa.

”Þetta drama kjaftæði á þessu heimili er að ganga fram af mér” sagði Sigurður og Helga virtist skilja hann. Helga var sú eina sem Sigurður gat talað við af einhverju viti á þessu heimili, foreldrar hans voru bara gamalt fólk með gamla siði sem héldu að allt væri slæmt og Jói var hræðilegur. Jói var stundum eins og lögga, sakaði alla um allt og lét eins og allir, sérstaklega Helga og Sigurður væru glæpamenn. Stundum lét hann eins og lögfræðingur og hélt yfir Sigurði eða Helgu miklar yfirheyrslur.

”Helga, þú þarft ekki að gráta yfir þessum sívirðingum þeirra, þau eru bara svona. Þau vilja stjórna þér, þau þykjast vita hvað er þér fyrir best. Þau halda að þau viti hvernig þú átt að lifa lífinu þínu. Þó að ég sé ekki að segja að lífstíll dópistans sé rétti lífstílinn er það lífsstíll. Fólk velur sér sínar eigin leiðir og á að geta lifað sínu lífi í friði, hvort að það er dópfíkíll eða bisnessmaður. Þetta var þín ákvörðun að fara útí þetta og þó að mamma og Jói reyna allt til þess að kenna öðrum um hvernig fór er það þér að kenna og þú veist það. Það er enginn sem neyðir mann til að byrja á svona. Þú þarft væntanlega að taka afleiðingum þess seinna en ég ráðlegg þér sem bróðir þinn og sem vinur að fara íhuga annan lífsstíll og mundu ég segi þetta án þess að hafa nokkurn ásökunar tón í röddinni, þú ert systir mín og mér þykir vænt um þig. Ég hef horft uppá þig fara alla leið niður á botn án þess að segja orð en maður á ekki að reyna stjórna því hvað fólk ákveður. Ég segi þetta bara sem manneskja við aðra manneskja, íhugaðu annan lífsstíl.”

Helga hafði hlustað vel á það sem litli bróðir hennar hafði sagt henni, þetta var ný hlið á Sigurði, hún hafði aldrei séð Sigurð tala svona. Hún hafði ekki sagt orð meðan hann talaði, hún hafði bara hlustað vel og vandlega. Hún var þakklát Sigga bróðir fyrir að láta ekki eins og hin og faðmaði hann þéttingsfast að sér.

Við þetta komu hinir þrír fjölskyldumeðlimirnir inn um dyrnar. Sigurður stóð upp, gekk að útidyrahurðinni, sagði bless og skellti á eftir sér. Hann ætlaði ekki að verða vitni að enn einu rifrildinu í þessari íbúð. Hann setti heyrnartólin á sig og Lou Reed hljómaði í eyrum hans á ný. Hann gekk í átt að gula bekknum.