“Ísland hið góða er horfið”


Sigur var það sem ég þráði mest. Sigurinn þráði ég fremur en allt annað í gjörvöllum heiminum. Ég þráði svo mikið að vinna, að ég missti sjónar á upphaflegu markmiði mínu. Mun göfugra markmiði, markmið sem þjónaði ekki eingöngu mínum eigin hagsmunum. Ég ætlaði að breyta hugsunarhætti landsmanna. Ég ætlaði að beina hugum þeirra inn á nýjar og áður óþekktar brautir, kynna þau fyrir friði og velsæld. En eitt leiddi af öðru og tilhugsunin um sigur átti hug minn allan. Á örfáum vikum breyttist ég úr afslöppuðum og rólegum manni, í pólitíkus af allra verstu gerð. Ég var orðinn uppstökkur og undirförull, og allt í einu snerist allt um hluti sem ég hafði áður fyrirlitið. Einhvers staðar á leið minni til velgengi, hafði ég orðið leiður á því að hafa engin völd, og undið kvæði mínu í kross með þeim afleiðingum að gjörvöll stefnuskrá mín breyttist. Hlutir sem áður höfðu verið mér svo hjartfólgnir voru nú einungis minningar úr gleymdu lífi. Allt breyttist. Ég var nýr maður, með ný sjónarmið. Ekki lengur minnipokamaðurinn með sjónarmið minnihlutahópa í forgrunni, heldur hugsaði ég nú um þjóðfélagið í heild, auk minna eigin hagsmuna. Þannig snapaði ég flest atkvæði.
Ef að svo ólíklega vildi til að ég yrði kosinn, sem var reyndar ekkert svo ólíklegt lengur, hafði ég ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að gera. Ekki það að ég væri að hafa áhyggjur af því. Seinni tíma vandamál.
Þarna var ég settur upp á stall, ásamt hinum stórlöxunum í íslenskri pólítík, og hugsaði aðeins um eitt. Ef yrt var á mig, setti ég upp falsbros og hóf samræður um fiskveiðar eða veðrið. En innra með mér leyndist fyrirlitning, svik og viðbjóður. Mér var lýst sem “afar geðþekkum manni”, “björtum punkti í íslenskri stjórnmálasögu” og sagður vera “lifandi sönnnun þess að spillingin hefur ekki náð valdi á þeim öllum” í fjölmiðlum. En ekki er allt sem sýnist. Fyrir mér voru þessi orð einungis sönnun þess að allt gengi sem og í sögu; þau féllu öll að fótum mér. Siðferðiskennd mín var svo brengluð að ég leiddi ekki einu sinni hugann að afleiðingum gjörða minna. Ég laug að öllum, líka þeim sem stóðu mér næstir. Fjölskylda mín fagnaði velgengni minni, en hafði ekki hugmynd um svikin, prettina og lygarnar sem ferill minn var byrjaður að byggjast á. Kosningastjórinn minn taldi ötult starf hennar og aðstoðarmanna sinna vera lykillinn að velgengi minni. Hún hafði ekki hugmynd um það sem fór fram á bak við þau tjöld er ég setti upp við mannfögnuði, viðtöl og samræður. Og jafnvel þó hún hefði komist að því, hefði hún engan veginn getað stöðvað mig. Það er ekkert hægt að segja til afsökunar manninum sem rústaði efnahagslífi Íslands. Hve mikið sem ég þrái að geta breytt atferli mínu, er einfaldlega ekki hægt að breyta gangi sögunnar. Það er svo einfalt.

Ég var lengi að jafna mig eftir stjórnmálaárin mín. Slíkt baktjaldamakk og endalausar lygar hafa ótrúlega skemmandi áhrif á sálina. Það var erfitt að hætta. Og sú staðreynd að ég var kosinn, aftur og aftur, hélt mér í starfi. Ég stóð í þeirri trú að ég hefði fundið uppskriftina að fullkomnum stjórnmálaferli. En allt það sem ég gerði í eigin hagsmunaskyni, kom niður á mér seinna í lífinu. Svikin komu aftan að mér, þegar mig grunaði síst, og felltu mig svo ég féll beint ofan í svaðið sem ég hafði skapað sjálfum mér öll þessi ár. Öll mín ár í starfi, hafði ég ekki gert handtak, og það hlaut að koma að því að almenningur komst að því. Með reynslunni komst ég að því að gamla máltækið “góður á jafnan góðs von”, er svo sannarlega satt.
Þau áhrif sem ég hafði á íslenskt efnahagskerfi, voru svo mikil að fræðimenn töldu ógerlegt að áhrif eins manns gætu verið svo mikil. Skattar voru gífurlega háir, stuðningur við fólk í kröggum var lítill sem enginn og verðbólgudraugurinn laumaðist ósýnilegur ofan í veski landsmanna. En ég gerði góða hluti líka. Góðir hlutir, framkvæmdir í illri nauðsyn. Ég endurbætti skólakerfið og hækkaði laun í landinu, en hirti svo stóran hluta launanna aftur í skatta, þannig að launin voru raunverulega verri en áður. Ef ég var gagnrýndur fyrir stjórnunarhætti mína, skýldi ég mér á bak við það sem ég hafði betrumbætt og þá setti menn hljóðan.
En núna er þetta allt búið, og nú sé ég villur vega minna. Og þær voru svo sannarlega ekki fáar. Það er nú einu sinni eins og vitringarnir segja “Þar grær gras sem girt er um.” Og ekki hafði ég vit á að girða garðinn minn. Langan tíma mun taka að laga allt það sem aflaga fór í stjórnartíð minni, og á meðan má fólkið í landinu líða skort. En ekki ég. Ég hafði vit á því að hugsa fram í tímann og draga dágóða summu úr ríkissjóðnum til elliáranna. Þess vegna flatmaga ég núna á ströndinni á Maui, og læt þjónana færa mér framandi drykki í skrautlegum glösum. Ég fylgist þó með fréttum frá fróninu og í þau fáu skipti sem ég hitti Íslendinga hérna, fer ég duldu höfði. En á þessum árum sem ég lifði góðu lífi á því Íslandi sem nú er horfið, lærði ég eitt og annað um pólítíkina. Ég komst meðal annars að því að fólk eins og ég var forðum daga, hjartahreint og grunlaust um spillinguna, fer verst út úr pólitíkinni. Því að pólitíkin er afl sem knýr fólk til að gera undarlegustu hluti; afl spillingar og ósiðsemi.
Það er óhjákvæmilegt að æðstu stjórnarmenn þjóðarinnar geri vafasama hluti. Það er ekkert hægt að segja, gera eða banna til að þeir stöðvi ráðagerðir sínar. Svo lengi sem stjórnmálamenn eru til, verður langt þangað til að svik, undirferli og lygar fari hallandi fæti.
Ísland hið góða er horfið.

*Veela*