Baldur Benónisson gekk út í hina dimmu Reykjavík, þar sem glæpir voru á hverju strái. Hann var nýbúinn að fá sér ljúffengan kaffisopa og var því ferskur fyrir nóttina.
Hann gekk niður Laugaveginn sem var dimmur og drungalegur á þessum tíma kvölds, eins og ávallt.
Baldri leiddist þessi göngutúr, sem hann hafði tekið upp í heilsubótarskyni fyrir um viku síðan, vegna strangra fyrirmæla heimilislæknis síns. Hann var víst það hægt kominn af hreyfingarleysi, að hann væri að dauða kominn og neyddist hann þess vegna til þess að yfirgefa ástkæra, rykfallna skrifborðið sitt. Lausn flókinna mála, voru hans líf og yndi og var hann einna bestur á því sviði.
Margslags manngerðir lögðu krók á leið sína, til þess eins að fá að heyra álit Baldurs á allskyns leiðinda og stundum alflóknum málum, sem hann einn gat leyst. Langflestir viðskiptavinir hans voru furðufuglar úr Kópavogi og hafði hann mestu óbeit á að sækja þá heim. Hann rataði barasta alls ekkert í Kópavogi. Stundum, keyrði hann tímunum saman hring eftir hring og í örvæntingu sinni, til þess að komast einhvern tímann heim á yndislega Laugaveginn, keyrði hann þvert yfir fyrsta grasblettinn sem hann sá, inn í garð hjá heimahúsi. Óheppnu eigendurnir voru ekki beint ánægðir, með þá aðferð Baldurs til þess að komast úr Kópavogi.
Klukkan sló eitt og hátt heyrðist í Hallgrímskirkju sem drundi eins og í jarðskjálta eitt slag. Baldur vaknaði upp úr hugsunum sínum, staðnæmdist í smá undrun, en gekk síðan áfram þar til hann kom að gull og gimsteinabúð.
Sá hann þar tvo menn vera að læðupokast með svartan ruslapoka. Hann ákvað að skoða þetta nánar og hljóp þess vegna af stað, í áttina til þeirra. Mennirnir fylltust skelfingu, hlupu í burtu og skildu úttroðinn pokann eftir, búðareigandinn kom út og þakkaði Baldri kærlega fyrir að endurheimta stolna góssið úr búðinni hans. Baldur sagði að það væri ekkert að þakka og að hann væri vanur svona atburðum að kvöldi til.
Það hlakkaði í honum að þrjótarnir skyldu flýja í burtu, við það eitt að sjá hann. Hann vissi ekki að hann gæti verið það ógnvekjandi og leið eins og hálfgerðu ofurmenni. Spegilmyndin í búðarglugganum, brosti við honum og hann brosti á móti.
Baldur gekk áfram niður Laugaveginn. Nóttin var bleksvört og fulla tunglið eins og svissneskur ostur á kolsvörtum dúki. Byrjaði hann þá að finna einhverja ólgu í maganum, sem gaf til kynna að hann væri nú orðinn örlítið hungraður. Baldur gekk því niður að ,,Bæjarins Bestu” fékk sér eina pylsu með öllu og kók, en það var venja hans í þessari heilsubótargöngu.
Fáir voru á ferli þessa þöglu nótt og heyra mátti nál detta á götuna …. og það var einmitt það sem gerðist. Nál skall á götuna skammt hjá ,,Bæjarins Bestu”.
Baldur gekk af stað inn í nóttina sem var eins drungaleg og í hryllingsmyndunum, þar sem að kona öskrar þegar að hún hleypur undan einhverri ófreskju. Annars hafði Baldri ekkert líkað neitt sérstaklega við þess konar hrylling, en þetta var eina lýsingin sem honum fannst passa við þessa næturstemmingu.
Baldur gekk áfram og áfram alveg þangað til að hann var kominn alla leið niður í Seltjarnarnesið. Heyrði hann þá skarkala hjá gámi sem var þar rétt hjá. Voru þar þrír menn sem voru búnir að berja tvo menn til óbóta og myrða einn. Þetta var greinilega óvenjulega annasöm nótt. Baldur tók upp byssu sína, fór bak við gáminn og læddist hljóðlega eins og köttur í húmi myrkusins. Einn af glæpamönnunum heyrði létt tiplið í honum, hlóð byssuna og gerði sig tilbúinn til skots.
Án þess að vita af hverju, stökk hann fram og barði glæpamanninn í hausinn en félagar hans heyrðu það, tóku upp byssurnar og byrjuðu að skjóta að Baldri. Var þetta mikill byssubardagi og byssukúlurnar skutust fram og aftur eins og gormar. Baldur skaut og hitti annan glæpamanninn í höndina þannig að hann missti byssuna. Gekk hann þá nær gámnum, gerði sig viðbúinn til skots og stökk á bak við gáminn. Þetta var í annað sinn sem honum leið eins og ofurmenni.
Glæpamaðurinn var þó með öllu horfinn og sást hvergi nálægt þar sem Baldur var. Það var rétt eins og hann hefði gufað upp. Hvað var eiginlega á seyði?
Baldur furðaði sig á þessari glæpaöldu sem ríkti á borgarsvæðinu. Honum fannst þetta líkjast óhugnanlega mikið atburðum í dæmigerðum vestrænum kvikmyndum en þó með smá breytingu. Nú var hann nefnilega í aðalhlutverki, venjulegur en þó fluggáfaður einkaspæjari á Laugarveginum. Hafði þá Baldur reddað enn einu málinu á þessari drungalegu Reykjavíkurnóttu og áttu þau eftir að vera mun fleiri.
Menntun er það sem situr eftir þegar þú hefur gleymt öllu sem þú hefur lært