Vindurinn feykti hárinu í Dóru í allar áttir þegar hún steig út á tröppurnar á raðhúsinu sem hún bjó í. Klukkan var orðin nokkuð margt og ef Dóra ætlaði að ná því að kaupa púsluspilið fyrir búðarlokun í kvöld þyrfti hún að drífa sig. Veturinn var að ganga í garð og þar af leiðandi byrjað að kólna allverulega. Hún hneppti því kápunni sinni alveg upp og lagði af stað niður götuna. Dóra bjó í miðbænum og fór því alltaf varlega svona seint úti á kvöldin. Hún tók stór skref og gekk hratt niður litla hliðargötu sem lá á milli tveggja stærstu verslunargatnanna í miðbænum. Hún þurfti ekki að labba langt þaðan enda var búðin sem leið hennar lá í, rétt við hliðina á hliðargötunni litlu. Hún rölti niður tröppurnar sem leiddu niður í portið þar sem búðin var og að búðinni. Á litlum bleikum miða sem hékk á hurðinni stóð: Opnunartímar: Mið-Fim 11:00 – 22:00. Dóra leit á úrið sem hún geymdi á vinstri úlnliðnum, á því stóð 22:07. “Ohh, andskotinn,” muldraði Dóra. Hún kíkti inn um gluggann og sá að það var ekki búið að slökkva öll ljósin. Hún prófaði að banka létt á hurðina, ekkert. Hún bankaði aftur og aðeins fastar í þetta skiptið, aftur, ekki neitt. Hún snéri sér við og gerði sig tilbúna til að leggja af stað heim aftur þegar hún heyrði hurðina opnast. Hún snéri sér vongóð við og leit á manninn sem stóð í dyrunum. Hann var í brúnum buxum flauelsbuxum og hvítum bol sem á stóð: “Talk Nerdy To Me.” Dóra starði á bolinn gat ekki varist brosi þegar hún sá hvað á honum stóð. “Get ég hjálpað þér?” sagði maðurinn í dyragættinni, mjög mjóróma. Dóra skellti næstum því upp úr þegar hún heyrði röddina en gat þó hamið sig. “Já, ég var að vonast til þess að þú gætir nokkuð opnað búðina í nokkrar mínútur, ég er að leita að púsli.” “Nei, ekki hægt,” sagði maðurinn nokkuð frekjulega en ennþá jafn mjóróma. “Æj, gerðu það. Bara fyrir mig,” sagði Dóra og brosti sínu fallegasta brosi. Maðurinn stóðst ekki brosið og sagði þá: “Jæja, komdu þá inn, en vertu fljót.”

Dóra dreif sig inn í búðina á eftir manninnum. “Hvar geymið þið púsluspilin?” spurði Dóra. “Þarna í vinstra horninu,” sagði maðurinn og benti í eitt hornið á meðan hann gluggaði í einhverju kvikmyndablaði. Dóra rölti út í hornið þar sem maðurinn benti henni að fara. Í hillunum voru margskonar púsl af öllum stærðum og gerðum. Hún sá eitt púsl sem henni leist vel á. Það var með öllum karakterunum úr The Simpsons. Það var líka eitt annað sem henni leist mjög vel á, það sýndi London og ef þú snérir því á hvolf þá sýndi það grá ljón í boltaleik. Henni leist betur á London púslið og ákvað því að lokum að kaupa það. Hún setti það undir hægri hendina og gekk að afgreiðsluborðinu. “Ég ætla að fá þetta, takk,” sagði hún. “Ertu viss”? svaraði maðurinn. “Ég á líka svolítið annað sem ég hannaði og gerði alveg sjálfur.” “Nú, já?” spurði Dóra. “Hvernig er það?”. “Ég get hvorki sagt þér það né sýnt, en ég get lofað þér því að þetta er besta púsl sem þú munt nokkurn tíma púsla.” “Æj, ég er ekki viss, ég er alveg sátt við London púslið mitt.” “Þú ræður,” svaraði maðurinn. “En ég er viss um að þér á eftir að líka mikið betur við mitt púsl.” Hroll setti að Dóru þegar hann sagði “mitt” en hún lét sem ekkert væri. “Jæja, en ég treyst því þá að þitt púsl sé alveg einstaklega gott.” “Já, því geturðu treyst,” svaraði maðurinn um hæl og glotti svo að sást í skjannahvítar og beinar tennurnar. “Má ég fá að sjá spilið?” “Þú mátt sjá kassann en spilið sjálft máttu ekki skoða fyrr en þú kemur heim til þín.” Dóru fannst þetta skrítið en ákvað að gera enga athugasemd við þetta. Maðurinn dró fram fjólubláan kassa undan borðinu og rétti Dóru. “Hérna, þetta er spilið.” Dóra virti það vel og vandlega fyrir sér. Kassinn var bara fjólublár, engin mynd eða neitt sem gaf til kynna hvernig púsl þetta væri. “Ég ætla þá að taka þetta, hversu mikið kostar þetta?” “Þú færð þetta á mjög lágu verði, tvö þúsund krónur.” Dóra var sátt við það og rétt honum peninginn. Þakkaði svo fyrir sig og fór.

Hún fann að það var orðið mikið kaldara þegar hún kom út heldur en þegar hún fór inn. Það var orðið aldimmt og það eina sem hindraði myrkrið í að heltaka allt voru ljósastaurarnir og ljós úr einstaka húsglugga. Henni leið sjaldnast vel úti svona seint á kvöldin og kvöldið í kvöld var engin undantekning. Hún gekk því hratt og rösklega upp litlu hliðargötuna sem lá í götuna hennar. Hún gekk upp tröppurnar að hurðinni, stakk lyklinum í skránna og snéri honum. Hurðin opnaðist og hún gekk inn í dimman stigaganginn. Henni gekk brösulega að finna ljósrofann en eftir smá þóf hafðist það. Ljósið kviknaði og án þess að bíða neins stökk Dóra upp tröppurnar eins hratt og hún gat. Hún hægði ekki á sér fyrr en hún var komin að íbúðinni sinni sem var á fjórðu hæð. Hún gekk inn til sín og starði inn í myrkrið. “Andskotans myrkur.” Hún kveikti á ljósinu og andvarpaði eins og henni væri létt. Púslið lá þarna ennþá ofan í pokanum úr búðinni. Hún tók það upp og lagði varlega á stofuborðið, rétt eins og það væri brothætt. Hún var orðin spennt yfir að fá að púsla það. Hún henti kápunni þvert yfir stofuna í sófann eins og hún væri mesta rusl og peysan hennar fór fljótlega sömu leið. Hún settist í svartmálaða tréstólinn sem var við stofuborðið. Hún néri saman lófunum af spenningi og tók lokið af kassanum. Ofan í kassanum voru fleiri hundruðir örsmárra púsluspila sem áttu eftir að verða að einni stórri heild. Dóra ákvað að bíða ekkert með þetta og hvolfdi úr kassanum öllum púslunum á borðið.

Mamma kenndi mér að auðveldast væri að byrja neðst og vinna sig upp, hugsaði Dóra með sér og það gerði hún. Þegar neðstu þrjár raðirnar voru fullkláraðar sýndi myndin parketlagt gólf. Hún hélt áfram og smátt og smátt birtist meira og meira. Næst birtust svartir stólfætur og á milli þeirra fætur, klæddir í gallabuxur. Dóru fannst þetta frekar skrítið, því þetta minnti hana eilítið á sína eigin íbúð. Hún hélt áfram og sá borð birtast, alveg eins og borðið sem hún var að púsla á. Dóra var orðin frekar hrædd en gat einhverra hluta vegna ekki hætt að púsla. Næst sá hún hvítan bol birtast, alveg eins og hún var í. Núna var hún orðin gríðarlega hrædd en fannst hún knúin til þess að halda áfram. Hjartað barðist inni í henni og hún andaði ótt og títt eins og hundur. Næst á púslinu birtist andlitið hennar og þegar hún sá það þá öskraði hún upp fyrir sig. Hún stoppaði örlitla stund til þess að ná andanum en hélt svo áfram. Hún hélt áfram og veggurinn bakvið hana var næstur til þess að birtast sem og stóri skápurinn sem stóð upp við vegginn. Hún átti bara eftir að púsla í kringum höfuðið á sér og fyrir ofan það. Hún byrjaði og bakvið hana birtist maður í bol sem stóð á “Talk Nerdy To Me.” Maðurinn sem var bakvið hana hélt á exi, reidda til höggs. Hún leit bakvið sig og öskraði hátt.