Samkvæmt Wikipedia er einelti samfélagslegt hegðunarmynsur sem einkennist af grófri niðurlægingu og stríðni, andlegri og líkamlegri, sem beinast að ákveðnum einstaklingi af hálfu annars einstaklings eða hóps. Fyrirbrigðið er þekkt vandamál í skólum og á vinnustöðum. Sums staðar er einelti bannað með lögum, t.d. í Skotlandi.

Hópar, sem stunda einelti í ákveðnu samfélagi (t.d. vinnustað eða skóla), einkennast oft af geranda, sem á við persónuleg vandamál að stríða, t.d. í æsku, eða hefur áður verið lagður í einelti sjálfur; hóp einstaklinga sem styðja eineltið af svipaðri ástæðu og stærri hóp fólks sem styðja eineltið, fylgjast með því og aðhafast ekki. Fórnarlömb eineltis eru oft sjálfstæðir persónuleikar sem hafa litla þörf fyrir að fylgja umhverfinu þegar kemur að t.d. tísku eða háttalagi en eru hins vegar ekki síður hæfir þegar kemur að almennum hæfileikum, svo sem greind.
Í mörgum samfélögum, ekki síst vestrænum, er einelti litið alvarlegum augum og víða hafa félagslegar stofnanir það verkefni að koma í veg fyrir einelti í samfélaginu. Vandamálið er líklega helst í skólastofnunum, en einnig á vinnustöðum.

Það sem einelti felur í sér er að fórnarlambið upplifir sig óvelkomið í og útilokað af hóp, sem það getur ekki annað en tilheyrt í daglegu lífi, t.d. vinnuhóp, skólabekk, fjölskyldu o.s.frv.
Einelti felur í sér að fórnarlambið upplifir alla eða flestalla í hópnum á móti sér, þó svo að í langflestum tilvikum sé meirihlutinn óvirkur í stuðningi sínum við eineltið. Aðeins lítill hluti hópsins er yfirleitt virkur, en nýtur stuðnings hins hlutans í gegnum aðgerðarleysi hans, en flestir þeirra líta svo á að hættulegt sé að taka upp hanskann fyrir fórnarlambið. Það gæti leitt til þess að þeir sjálfir verði lagðir í einelti.
Sú staðreynd að fólk þorir ekki að hjálpa þeim einstaklingi sem verður fyrir eineltinu er vel skiljanleg en þó sorgleg. Það getur verið erfitt að hætta sinni eigin stöðu í lífinu fyrir annan einstakling, sérstaklega þegar niðurstöðurnar myndu líklegast koma niður á manni sjálfum. Persónulega séð, eftir að hafa upplifað þetta sjálf (að verða fyrir einelti) myndi ég aldrei hika við það að standa upp fyrir einhvern minni máttar. Vegna þess að ég vildi óska þess að einhver hefði gert það fyrir mig. Þetta er einfalt karma, what goes around, comes around. Eða ef ég á að nota hina kristilegu túlkun: komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Það eru til dæmi um að einstaklingar leggist á aðra einstaklinga, án stuðnings annarra í hópnum, en þá er ekki talað um einelti í sama skilningi, þar sem fórnarlambið upplifir sig ekki einangrað og útilokað á sama hátt og getur varið sig með því að líta á ofsækjandann sem veikan eða vondan.
Einelti er þannig félagslegt fyrirbæri. Það tengist alltaf hópi fólks og valdabaráttu einstaklinga innan hópsins og óöryggi þeirra um stöðu sína innan hans. Það er því ekki einangrað samspil á milli tveggja einstaklinga. Slík samskipti eru ekki kölluð einelti.

Einelti myndast aðeins í hóp, þar sem einhvers konar vanlíðan er til staðar. Líði öllum einstaklingum vel í hópnum, finnist allir meira eða minna jafnir, finni að allir njóti þokkalega jafnrar virðingar, finni að allir hafi eitthvað að segja og að hlustað sé jafnt á alla, myndast ekki einelti í hópnum. Sé hins vegar ríkjandi ójöfnuður í hópnum, hlustað sé á suma en aðra ekki og mikill munur á virðingu milli einstaklinga, myndast vanlíðan í hópnum.Fyrri hópurinn hefur flatan valdapíramída eða goggunarröð, þar sem jöfnuður og vellíðan ríkir og sátt er um forystuna. Síðari hópurinn hefur brattan valdapíramída eða goggunarröð, þar sem ríkir ójöfnuður, vanlíðan og valdabarátta.
Það er einungis í síðari hópnum sem einelti getur myndast og alltaf sem hluti af valdabaráttunni, sem á sér stað í hópnum. Sú valdabarátta er ekki einungis á efstu þrepunum, vegna þess að í slíkum hópi ríkir mikið óöryggi um stöðu sína hvar sem er í goggunarröðinni og því myndast þörf hjá öllum fyrir að klifra ofar og þá gjarnan á kostnað þeirra, sem neðar eru.
Sé ríkjandi vanlíðan og óöryggi í hóp og valdapíramídi hans brattur leita allir einstaklingar hópsins eftir einhvers konar stöðugleika og öryggi. Það er hins vegar ekki endilega leitað eftir vellíðan, því vellíðan er aftar í þarfaforgangsröð einstaklinga en öryggi. Í slíkum hóp lítur alltaf út fyrir að mesta öryggið um stöðu sína sé á efstu þrepum hans, sérstaklega vegna þess að svo virðist sem þar sé mesta virðingin, áhrifin og völdin.
Þess vegna leita einstaklingarnir upp goggunarröðina með því að koma öðrum í henni niður fyrir sig. Það er hægt að gera með því að smjaðra fyrir forystunni, leggja henni lið eða sýna henni fram á hollustu á ýmsan hátt t.d. með því að andmæla henni ekki, hlægja að uppátækjum hennar eða örva hana til dáða á annan óbeinan hátt. Eftir því sem ofar dregur í goggunarröðinni kemur þó fram nýtt óöryggi hjá einstaklingunum í hópnum, sem felst í aukinni hættu á að falla (aftur) neðar í goggunarröð hópsins eða, fyrir þá sem efstir eru, að missa völd sín, ef tekið er feilspor.
Þannig verða meðlimir hópsins að viðhalda völdum sínum eða klifri upp á við og hópurinn er fastur í neti óöryggis og vanlíðunar. Í hópnum myndast síðan hópbundnar hegðunarreglur (norm), sem halda honum enn fastar í þessum viðjum og að lokum er það einungis utanaðkomandi stjórnun eða aðstoð, sem getur hjálpað honum út úr þessum vítahring. Allir meðlimir hópsins eru fastir í netinu og það að gera tilraun til að brjótast út úr því eykur hættuna á að falla niður goggunarröðina og þá jafnvel lenda neðst í henni og eiga þar með á hættu að verða veikastur í hópnum. Allir skynja hættuna af þeirri stöðu við þessar aðstæður og forðast hana eins og heitan eldinn.
Þannig er nú eðli hópsins. Þessi grein fjallaði augljóslega um einelti. Ég byrjaði á því að skilgreina einelti á mjög róttækan hátt. Síðan fjallaði ég um hvernig og hvers vegna það byrjar. Greinilegt er að ef vanlíðan ríkir í ákveðnum hóp leitar hann ósjálfrátt í það að finna blóraböggul, þ.e.a.s. manneskju sem hægt er að ýta niðurávið í goggunarröðinni og þannig sameina hópinn.
Þessi aðferð virðist styrkja hópinn, samstaðan verður meiri þegar það er einhver ákveðin „óvinur“ sem hægt er að níðast á. Og þar sem enginn þorir að hætta stöðu sinni til þess að koma honum til bjargar, viðhelst þetta oft í mörg ár.
Stundum grípur einstaklingurinn tækifærið og segir sig úr hópnum og skiptir yfir í nýjan, oft betri hóp. En í mörgum tilvikum leyfa aðstæður ekkert slíkt, þar má nefna fjölda ástæðna.
S.s. lítið samfélag (það koma ekki aðrir hópar til grein), væntingar og vonir (foreldrar eða einstaklingurinn sjálfur þarf að vera í hópnum, t.d. í vinnuhóp) og svo einfaldlega þor og uppgefni (einstaklingurinn þorir ekki að skipta um hóp og ákveður að sætta sig einfaldlega við meðferðina).
Einelti er ömurlegt fyrirbæri að lenda í og tilheyrir hringrás lífsins. The survival of the fittest ríkir. En, just because it IS, doesn‘t mean it SHOULD. Og fyrir ykkur sem ekki skiljið, meina ég að þó að hlutirnir ERU svona, þýðir það ekki að þeir EIGI/ÞURFI að vera svona.
Það sem ég vildi sýna fram á með þessari grein er að einelti hefur afleiðingar. Þetta er ekkert grín. Krakkar hafa og eru að deyja daglega vegna þess að þeir telja sig ekki gegna neinu hlutverki í lífinu. Við gerendur segi ég: spurðu sjálfan þig hvort þú sért að leggja einhvern í einelti. Hefur þú virkilega löngun til þess að eyðileggja líf annarrar manneskju? Ef svarið er já, leitaðu þér hjálpar, hættu strax því þetta er ekki sniðugt!
Við þolendur segi ég: þú átt skilið betra, leitaðu þér hjálpar, talaðu við einhvern og gerðu eitthvað í málinu. Ekki láta vaða svona yfir þig!
Dýrð sé móðurinni sem ól þig!