Heimsmót skáta á netinu! - JOTI Dagana 15. – 16. október næstkomandi verður JOTI og JOTA skátamótin haldin á internetinu og ,,í loftinu”. JOTI skátamótið er einstakt tækifæri fyrir skáta til að taka þátt í alþjóðastarfi skátahreyfingarinnar en þúsundir skáta munu sækja mótið úr öllum heimshornum. Ekkert þátttökugjald er á mótið.


Það er von Alþjóðaráðs að sem flestir skátar í þínu skátafélagi taki þátt í mótinu en þar geta þeir eignast fjarlæga skátavini, kynnst skátastarfi í öðrum löndum og menningu annarra landa. Þetta er því einstakt tækifæri sem allir skátar ættu að fá að nýta sér. Til þess að upplýsingar berist nú örugglega til allra skáta þurfa sveitarforingjar að kynna mótið fyrir skátum sínum, t.d. á sveitar- eða skátafundi.
Skátafélög eru einnig hvött til að vera með opið skátaheimili yfir helgina neð nokkrum tölvum tengdum mótinu. Skátaheimilið þyrfti ekki að vera lengi opið heldur einungis nokkra tíma til þess eins að gefa skátunum kost á að taka þátt í þessum viðburði. Að sjálfsögðu getur hver og einn skáti einnig tengst mótinu gegnum internetið heima.


Til þess að gera íslenskum skátum sem auðveldast fyrir að taka þátt í mótinu hefur alþjóðaráð BÍS þýtt alla opinberu heimasíðu mótsins, joti.org á íslensku. Á vefnum er hægt að nálgast allar upplýsingar um mótið á einfaldan og þægilegan hátt. Á vefnum eru öll nauðsynleg forrit með leiðbeiningum um notkun, hjálparborð og reglur mótsins svo eitthvað sé nefnt. Vefurinn býður einnig uppá nafnspjaldaþjónustu en hún hjálpar skátum að halda skrá yfir og tengslum við skátavini úti í heimi. Við hvetjum alla til að nota hana.


Að lokum minnum við á að sömu helgi eru Smiðjudagar haldnir í Borgarnesi. Þátttakendur þar geta tekið þátt í JOTI og einnig JOTA.

www.joti.org/is/