Dróttskátamótið SAMAN var haldið nú um helgina á Gufuskálum. Um 50-60 skátar og ungliðar í björgunarsveitum komu og tóku þátt og svo var líka mikið af björgunarsveitarmönnum að sjá um dagskrána.

Lagt var af stað frá Smáralind rétt fyrir 18 á föstudaginn og komið á Gufuskála um níuleytið. Þegar fólk var búið að koma sér fyrir í herbergin hófst næturleikur sem var í umsjá Vífla og Svana ef ég man rétt. Leikurinn gekk út á það að fá stafi á póstum og raða þeim svo saman í eitt orð.
Þegar næturleikurinn var búinn var kyrrð og fóru flestir að sofa.

Á laugardeginum var svo heljarinnar póstaleikur þar sem farið var að síga, klifra, synda í sjónum, sigla á gúmmíbát, kynnast rústabjörgun, læra um fjarskipti, læra að setja á börur og bakbretti, farið í FlyFox og læra á áttavita. Þetta tók nokkurn tíma og þegar þetta var búið var smá hvíld og svo kvöldmatur. Svo var kvöldvakan í umsjá Kópa og var hún alveg frábær. Eftir hana var slappað af og haft gaman á einum stað á meðan aðrir sem vildu fóru að sofa.

Á sunnudeginum hófst svo metamótið sem Hraunbúar sáu um og var farið í skátarugby, reipitog, sjómann og drukkinn var ógeðisdrykkur. Það voru “aðrir/rest” (Reykvíkingar) sem báru þar sigur úr býtum en þetta var æsispennandi keppni. Svo var tekið til og haldinn smá fyrirlestur um starf björgunarsveita. Þegar hann var búið fengu allir bol og farið var í myndatöku.
Svo var haldið heim á leið og var komið um fimmleytið í Smáralindina.
- Á huga frá 6. október 2000