Ég hef verið að því undanfarið að dusta rykið af gömlum bókum sem ég á. Inn á milli finn ég eina og eina skákbók sem ég á. Það er eins og að hitta gamla vini þegar ég finn þessar skákbækur.

Nýlega rakst ég á skákbók sem heitir: Heilbrigð skynsemi í skák og er eftir Emanuel Lasker. Guðmundur Arnlaugsson skrifar formála að bókinni og kemur hann nokkuð inn á feril Laskers. Magnús G Jónsson þýddi þessa ágætu bók.

Ég ákvað að fara yfir bókina því á sínum tíma fór ég ekki yfir hana, bara gluggaði í hana. Ég verð bara að segja eins og er að ég hafði gaman að fara í gegnum þessa bók. Margar skákbækur sem ég hef gluggað í eru þannig skrifaðar að það er teygt og togað efnið sem er verið að ræða um. En í þessari bók kemur höfundurinn: Emanuel Lasker sér beint að efninu án orðaskrúða. Margar perlur eru í þessari bók og langar mig að sýna ykkur eina þraut sem ég náði ekki að leysa sjálfur en varð að notast við bókina. Ég mun nota eins og er í bókinni lengri gerð af ritun skákar.

Svartur: kóngur á h5 og peð á f5.
Hvítur: Peð á h2, peð á f4 og kóngur á g3.

1. Kg3-h3 Kh5-h6
2. Kh3-g2 Kh6-h5
3. Kg2-g3 Kh5-h6
4. Kg3-f2 Kh6-h5
5. Kf2-e2 Kh5-h4
6. Ke2-d3 Kh4-g4
7. Kd3-e3 Kg4-h3
8. Ke3-d4 Kh3xh2
9. Kd4-e5 og vinnur
.

Ég prufaði aðrar leiðir en þá fór það þannig að báðir aðilar misstu peðin sín og úr varð jafntefli.

Hérna kemur ein skák þar sem hann talar um liðskipun. Sumir hunsa liðskipun og þá kemur það niður á viðkomandi.

1. e2-e4 e7-e5
2. Rg1-f3 d7-d6
3. Bf1-c4 h7-h6
4. Rb1-c3 Bc8-g4
5. Rf3xe5 Bg4xd1
6. Bc4xf7+ Ke8-e7
7. Rc3-d5 mát


Stutt og snotur skák.

Það er hægt að skipta bókinni í þrjá kafla. Fyrstu kaflarnir fjalla um byrjunina og hvað á að varast í þeim efnum. Þar með talið hvernig best sé að skipa út mönnum sínum á góða reiti þar sem þeir hafa pláss til að athafna sig. Nokkrir kaflar fjalla um miðtaflið og hvernig standa beri að yfirráðum á miðborðinu. Síðustu kaflarnir fjalla um endataflið og sýnir nokkur dæmi um það. Til dæmis þrautin hérna að ofan er úr þeim köflum.

Eftir að hafa farið fyrir þessa bók finnst mér ég hafa lært af henni. Hún opnaði augu mín fyrir ýmsu í skákinni og hvað ber að varast í byrjun skákarinnar, miðtafli skákarinnar og svo endataflinu. Ég sé það líka að þessi bók er góð fyrir þá sem eru að hefja sín spor í að skoða skákbækur.