Nágrannar á nýju ári Það er ekki laust við að mér finnist eins og eflaust fleirum að fáar greinar hafi borist á áhugamálið á þessu ári. Mér datt í hug að bæta smávegis úr þessu með því að skrifa loksins smá grein. Ég ætla að skrifa nokkrar línur um það sem staðið hefur upp úr í Nágrönnum að undanförnu.


Eins og flestir vita er Paul Robinson kominn aftur til Erinsbæjar. Paul byrjaði á því að koma sér í mjúkinn hjá fólkinu í Ramseygötu og virtist vera hinn besti náungi og mikið gæðablóð. Hann bauð fram peninga til að byggja upp í Lassiterskjarnanum eftir brunann og hefur aðstoðað með margt fleira og verið mörgum góður ráðgjafi.

Paul kom David Bishop í bæjarstjórnina, eingöngu til að geta stjórnað honum á bakvið töldin. Paul virðist einnig hafa fallið fyrir Lil, eiginkonu Davids og er án efa með plön um að komast yfir hana. Ég vona að Lil muni ekki láta undan honum. Það er örugglega gaman að vita að einhver er hrifinn af manni, ef maður er giftur manni eins og David (hann er upptekinn af bæjarstjórnarmálum). David hefur nóg annað að gera núna en að heilla Lil. Svo áhugi Pauls er örugglega heillandi fyrir Lil.

Paul er búinn að sannfæra bæjarbúa um að Ramseygata muni sökkva í vatn (svona óbeint var það hann). Fólkið verði að flytja burt. Hann mun líka missa sínar fjárfestingar (þá virðist hann ekki eiga neina sök á málum). Strákarnir í strákahúsinu virðast meira að segja vera farnir að leika sér að því að skemma húsið sitt því að þeir munu fá bætur fyrir það þrátt fyrir skemmdir. Ég er viss um að það mun koma í ljós að það er engin hætta vegna vatns og vona að þeir hafi ekki skemmt húsið of mikið!
Það er bara Harold sem neytar að sætta sig við að þetta sé satt. Eflaust munum við komast að því að Paul er ekki sá góði maður sem hann vill þykjast vera. Hann ætlar örugglega að byggja eitthvað sem hann og félagar hans græða mikið á á svæðinu í kringum Ramseygötu.

Börnin hennar Janelle eru öll komin í Ramseygötu og flutt inn á aumingja Lyn. Ég skil eiginlega ekki hvernig hún getur haft þau yfir sér. Ég ætla nú ekki að lýsa þessum krökkum en það er óhætt að segja að þau hafa skipt gáfum móður sinnar á milli sín, fyrir utan Gadda sem er heilinn í hópnum.

Aðal gleðiefnið að mínu mati er að Stuart er kominn með sjónina aftur og var ótrúlega fljótur að ná sér. Það hlaut auðvitað að koma að því að þetta myndi gerast.

Karl fékk nýlega hjartaáfall en er óðum að ná sér. Hann er loksins að fara til Afríku að taka þátt í verkefninu Læknar án landamæra, en í gegnum árin hefur hann oft verið að spá í að taka þátt í því. Ég held að hann hafi tekið ákvörðunina vegna þess að Izzy studdi hann, en það hafði Susan aldrei gert. Þau Izzy og Karl eru hætt saman, en hvað veit maður? Kannski taka þau saman aftur síðar. Vonandi ekki, nema þá að hún segi honum sannleikann varðandi barnið og að hann fyrirgefi henni.

Nýlega kom í ljós að Boyd væri með heilaæxli. Atburðirnir í sambandi við þá uppgötvun minna mig á bókina Engla alheimsins (eftir Einar Má Guðmundsson) þar sem stúdent nokkur var talinn geðveikur en var einmitt, eins og Boyd sem fyrst var talinn vera með geðklofa, með heilaæxli.
Boyd er búinn að fara í aðgerð og er nú í dái. Það er spurning hvort hann nær sér að fullu eftir þetta.

Þetta eru þau atriði sem mér finnst merkilegust í Nágrönnum á þessu ári enn sem komið er. Eflaust hef ég gleymt einhverju og þið megið endilega bæta einhverju við hér fyrir neðan.

Karat.