Helstu atburðir í Nágrönnum síðustu daga Það er mjög mikið að gerast í Nágrönnum um þessar mundir og svona í lok mánaðarins langar mig til að fjalla örlítið um helstu atriði síðustu þátta.

Síðustu þættir hafa verið einir mestu dramaþættir í Nágrönnum síðustu árin.
Hápunktinum var náð þegar kveikt var í kaffistofunni og kránni og báðir staðir eru næstum verra en fokheldir eftir það. Svo virðist vera sem kráin hafi orðið öllu verr úti, en þar skemmdist líka kjallari á neðri hæð. Allt innbú á báðum stöðum er ónýtt.

Paul Robinson, sem sumir muna eftir úr þáttunum fyrir rúmum 15 árum ef mig misminnir ekki, birtist aftur kvöldið sem eldsvoðinn varð. Hann lofaði Harold og Lou að hann myndi kosta uppbyggingu staðanna en að hann vildi vera nafnlaus velvildarmaður. Paul, er sonur Jims Robinssons og konu hans Ann (sem aldrei sást í þáttunum, en hún var látin þegar þeir hófust). Helen Daniels sem margir muna eftir var móðuramma hans. Fjölskyldan bjó í húsinu þar sem Lyn Scully býr núna. Paul var mikill braskari og var forstjóri Daniels Corporation. Hann er þrígiftur, síðast Christinu Alessi. Þau fluttu síðan til Hawai. En best að eyða ekki meiri tíma hér í ævisögu Pauls. Paul er sem sagt kominn aftur og það er spennandi að komast að því hvort hann sé kominn til að vera eða hvort hann sé bara kominn í stutta heimsókn.

Í öllu fátinu sem varð í eldsvoðanum varð enginn var við ferðir Sindiar inni á kránni. Connor taldi t.d. að hún hefði farið til vinkonu sinnar. Stuart var sannfærður að hún væri enn inni á kránni og hljóp inn í brennandi húsið til að leita að sinni heit elskuðu. Hann fann hana inni á salerni og náði að koma henni fram en þá var eldurinn orðin svo mikill að þau komust ekki út. Sumir töldu jafnvel að þau hefðu brunnið inni, og þá sérstaklega eftir að eitt lík fannst í brunarústunum. Kartan var hins vegar sannfærður um að vinir hans væru á lífi inni í rústunum og hann fékk leyfi til að aðstoða lögreglu og slökkvilið við störf sín. Það var svo ekki fyrr en Sindi náði að hringja í síma Körtunnar sem það komu í ljós að þau voru bæði á lífi, föst undir braki í kjallara kráarinnar. Þeim var bjargað og bæði lögð inn á sjúkrahús með minniháttar meiðsl, fyrir utan blindu Stuarts. Læknar segja aðgerð á honum þó hafa tekist vel og ég trúi ekki öðru en að hann fái sjónina aftur.

Sindi náði í dag að segja Körtunni frá sambandi þeirra Stuarts en það hafði lengi staðið til. Það mátti sjá á þeim eftir allar þessar hremmingar hve ástfangin þau voru og það fór ekki fram hjá Körtunni svo að hann var þegar búinn að giska á að eitthvað væri á millli þessara skötuhjúa.

Max slasaðist lítillega þegar hann kastaðist smá vegalengt eftir gassprengingu. Max hætti sér aðeins of nærri eldinum til þess að bjarga af gangstéttinni uppskriftabók Madge, sem Harold hafði náð að bjarga út af kaffistofunni en missti á leið burt frá húsinu.

Nú er spennandi að vita hver það var sem kveikti í. Ýmsar getgátur eru uppi um það nú þegar. T.d. gæti það hafa verið Gus. Gus birtist aftur sama dag, daginn sem Izzy og Karl ætluðu að giftast. Ekkert varð hins vegar úr því þar sem Izzy guggnaði (þau eru samt enn þá saman). Gus gæti hafa, eins og Max sagði réttilega í þættinum í dag, kveikt í til að hefna sín á Izzy. Tryggingarfélögunum datt strax í hug að Lou og Max hafi kveikt í sjálfir, en það er ég viss um að þeir gerðu ekki. Sumir hafa giskað á að Paul eigi þarna hlut að máli. En það efast ég líka um. Mér dettur engin ástæða í hug. Hins vegar hef ég Luka sterklega grunaðan rétt eins og Serena og David. Hann á jú sögu þess að vera brennuvargur og mér kæmi það ekki á óvart að hann hefði kveikt í kaffistofunni, kannski til að hefna sín á fjölskyldu sinni eða í einhverju afbrýðissemiskasti.

Það á líka eftir að koma í ljós af hverjum líkið sem fannst er. Er það af einhverjum sem við þekkjum eða er það af óþekktum aðila? Mér dettur í hug að það sé af Luka. Að hann hafi kveikt í en síðan ekki komist burt eða ákveðið að brenna inni.

Því miður varð annað dauðsfall í Nágrönnum sama dag og bruninn varð. Charlie, pabbi hennar Lyn, dó í sófanum heima hjá henni. Steph hélt utan um hann og þetta var mjög friðsæll dauði eins og gamli maðurinn átti von á og hafði óskað sér. Hins vegar komu Lyn og hálfbróðir hennar heim einmitt á því andartaki sem Steph var að hagræða kodda látins afa síns og þau halda að Steph hafi kæft gamla manninn, til að lina þjáningar hans væntanlega. En eins og við sáum er það ekki rétt. Einnig var einhver spurning um magn verkjalyfja í blóðinu en ég er viss um að Charlie dó af eðlilegum orsökum og vonandi á þetta mál eftir að leysast hjá aumingja Steph. Það gleðilega hjá henni er þó að hún er loksins ófrísk og það er vonandi að það muni allt saman ganga vel hjá henni.

Án efa er ég að gleyma einhverju sem hefur gerst nýlega. Ég ætla þó að láta hér við sitja og leyfa ykkur að koma með viðbót ef ykkur dettur eitthvað í hug sem hefði mátt koma fram.

Karat