Ég læt það stundum eftir mér að horfa á B&B maraþonið á laugardögum og dagurinn í dag var einn af þeim. Það bregst sjaldan að maður fylgist með 2-3 hlutum sem eru að ske. B&B er ekki fjölhæfara en svo að það er pláss fyrir í MESTA LAGI 2-3 atburðarásir í einu og það tekur um 1-2 mánuði að útkljá þær … ef ekki enn lengur! Getur verið mjög pirrandi þegar um er að ræða leiðinlegt fólk og endurtekin vandamál, en nú var það ekki svo og ég fylgdist með, ekki beint hægt að segja spennt - hef nebbla spoilað soldið fyrir mér þar sem að annars væri áhorfið kvöl og pína!

Þrátt fyrir að meginplott vikunnar hafi verið afar skemmtilegt, þá skil ég barasta ekkert í því hve handritshöfundar þáttanna geta haft fólkið HEIMSKT! Ekki nema að ríka og fræga fólkið í henni Ameríku sé bara svona í alvöru, en ég efast um það …

Í þáttum vikunnar snerist allt um það að ná Amber heim til Ricks núna STRAX og helst í gær. Þar sem að fjögurra mánaða samningurinn var skotheldur, var brugðið á það ráð að reyna að leysa Amber undan vistinni hjá Deacon með því að bjóða honum umgengisrétt við son sinn, litla D (hef ákveðið að kalla hann það frekar en litla Eric), í staðinn fyrir frelsi móðurinnar nú þegar svo að hún geti gifst honum Rick sínum hið fyrsta.

Það tók svoldið á fyrir Amber að sannfæra Deacon um taka þessum nýja samningi, en ég er ekki fjarri því að Brooke hafi rétt fyrir sér (og Deacon líka) um það að Amber sé að falla fyrir þessum harða nagla sem er svo undurblíður inn við beinið (og mun flottari en Rick!). En að lokum féllst hann á það og Forrestarnir höfðu sigur af hólmi …

En þá er komið að MESTU heimskupörum vikunnar … Eric, Thorne, Stephanie og Brooke halda af stað til Deacons til að ógna honum til þess að hitta ekki Amber og Litla D fyrr en eftir brúðkaupið … hann er ekki par sáttur við það og segir að þau fái engu ráðið um það hvenær hann hitti son sinn, en þau halda nú annað þar sem að heimsóknirnar þurfa að vera samþykktar af báðum aðilum og engar heimsóknir verði leyfðar fyrr en eftir stóra daginn … í reiði sinni heimtar þá Deacon milljón dalina sem honum höfðu verið lofaðir en Forrestarnir segja að hann hafi gefið þá upp á bátinn fyrir umgengnisréttinn. Nú fer allt í háaloft og kemur meðal annars til handalögmála milli Deacons og Erics sem enda með því að Deacon hótar hefndum …

Einhver veltir því kannski fyrir sér af hverju þetta teljast heimskupör, voru þau ekki bara að vernda fjölskylduna fyrir “vonda” Deacon? Þá skulum við minnast þess að Deacon var fallinn fyrir Amber og þráði ekkert heitar en að hún, hann og litli D yrðu saman til eilífðar sem lítil og hamingjusöm fjölskylda. Þetta sama kvöld og hersingin kom voru þó þessir draumar hans kramdir og hann missti Amber og litla D (sem hann má þó heimsækja nokkurum sinnum í mánuði). Hann er því ekki sem best fyrirkallaður og hver heilvita maður getur séð að þessi heimsókn þeirra gerði ekkert annað en að egna hann enn frekar gegn Forresterunum! Því þau mega vita það að Deacon mun gera hvað hann getur til að hefna sín og allt lítur út fyrir að það verði Bridget sem verði fyrir barðinu á því …

En þetta er ekki það eina! Rick var alveg ofboðslega hissa að litli D saknaði Deacons og vísaði til hans sem “pabba”. Hann skildi barasta ekkert í þessu, að Amber skildi hafa tekið það í mál að litli D kallaði föður sinn PABBA og að honum hafi verið leyft að lesa fyrir hann sögur og tengjast honum feðraböndum! Hve vitlaus getur einn Rick verið?!? Litli D er búinn að vera hjá Deacon í langan tíma þar sem að Deacon hefur verið að tengjast syni sínum, að sjálfsögðu felur það í sér að kalla hann pabba! Hann ER jú pabbi hans og Rick getur engum nema SJÁLFUM sér um kennt að Deacon sé orðinn hluti af lífi litla D. Það var hann sjálfur sem leitaði hann uppi og sagði honum frá því að hann hefði eignast son með Becky … Mér er því fyrirmunað að vorkenna litla aumingja ríka stráknum!

Þá er nóg komið af nöldri yfir B&B!