Í Leiðarljósi er fjöldinn allur af athyglisverðum karakterum, sem lengi verður deilt um hvort séu frábærar, ömurlegar eða einhvers staðar þar á milli. Hér ætla ég þó að segja hvað mér finnst …

Lewisklanið
Vanessa hefur tekið sér hlutverk ættmóðurinnar á síðustu misserum, eða allt frá því að hún og Billy náðu loks saman að nýju eftir að hann skildi við Nadine. Þetta er verðskulduð staða, þar sem að stór hluti nýju kynslóðarinnar lítur á hana sem móður sína og að hún stjórnar fjölskyldufyrirtækinu með afbrigðum vel. Allt frá því að hún tengdist fjölskyldunni fyrst hefur hún einnig staðið með henni gegnum súrt og sætt, sem hafði það oft í för með sér að hún gat ekki gert það sem kom Spaulding best, þegar hún var enn einn af toppunum þar. Það mætti því segja að hún sé best geymd hjá Lewisoil. Nú hefur hún svo einnig fundið sér nýjan ástmögur, sem tekið hefur sess Billys í lífi hennar. Með öðrum orðum merkir það að á milli þess sem hún kemur lúalega fram við hann innan um annað fólk, kelar hún við hann í einrúmi! Vanessa á tvö börn og verður hún seint sökuð um að hafa gert einhverjar rósir í uppeldi sínu á þeim … annað, Dinuh, gaf hún frá sér og endaði það í farandsirkus og hitt, Bill, er eins og það er, yfirmáta frekt og leiðinlegt! Svo er það nýjasti fjölskyldumeðlimurinn hann Peter, og við skulum bara vona að hann komi betur út en hinn sonurinn …

Josh hefur ekki átt sjö dagana sæla frá því að hann missti hana Revu sína og stóð uppi einstæður með 2 lítil börn. Það aftraði honum þó ekki frá því að fleka barnfóstruna, Harley, og dömpa henni svo í miðjum brúðkaupsundirbúningi til þess að elta uppi drauga heitinnar konu sinnar! Hann sneri aftur nýlega og stofnaði þá til sambands við Tangie, en það varði ekki lengi. Hann hefur verið óttalega mikið til friðs eftir að hann kom aftur í bæjinn, lítur út eins og uppfyllingarefni (líkt og Lillian!) og er það aðeins til hins betra frá því sem áður var þegar hann gat ekkert gert nema einhvern óskunda … eins og sjá má er Josh greyið ekki í miklu uppáhaldi hjá mér!

Melinda Sue er hálfgerð væluskjóða og pabbastelpa. Ég er á þeirri skoðun að hún hefði átt að velja rétt og flytjast til Tulsa með honum Rusty sínum þegar henni bauðst það. En nei! Hún gat ekki gert það og er óhætt að segja að allt frá því að hún tók þá ákvörðun sína hafi hún aðeins verið til vansa. Ef við stiklum á stóru þá tók hún ROGER THORPE fram yfir Rick Bauer! Með því tók hún sér hlutverk hjónadjöfulsins í hjónabandi Rogers og Alexar. Hún tók svo saman við son fyrrum vinkonu sinnar sem hún hafði svo illilega stungið í bakið og leyndi hann móðerni sínu! Nú er hins vegar svo komið að það hriktir allverulega í stoðum sambands hennar og Nicks, sem fær suma til að segja að fólk uppskeri sem það sái!

Dylan er þrátt fyrir aldur frekar ný viðbót við fjölskylduna, en hann er launsonur Revu og Billys. Enginn vissi þó af tilvist hans nema Reva og Sarah fyrr en hann dúkkaði upp 18/19 ára gamall. Honum var þó tekið opnum örmum í fjölskylduna og má ekki sjá að hann hafi alist upp sem eitthvað allt annað en Lewis! Hann hefur þó gengið í gegnum margt frá því hann kom í bæjinn; komst að því að hann ætti dóttur með Harley sem hún hafði gefið til ættleiðingar, missti móður sína, unnustan lamaðist og varð ástfangin af lækninum sínum, ekki beið hans svo betri kona því sú hélt fram hjá honum daginn fyrir brúðkaupið og svo þegar allt virtist vera á réttri leið þá blindast hann! Við vonum þó öll að hann komi til, þó svo að hann sé óttalega leiðinlegur … rétt eins og flestir í þessari fjölskyldu!

Til að koma í veg fyrir allsherjar þunglyndi þá ætla ég að hætta að fjalla um þessa fjölskyldu og snúa mér að þeirri næstu.

Spauldingættin
Alan er blessunarlega komin aftur heim, eftir 5 ára refsivist sem var okkur áhorfendunum eflaust verri en honum! Hann er meistari svika og pretta og hef ég gefið honum titilinn mesta og besta illmenni Springfield. Þegar kemur að klækjum, brögðum og að notfæra sér annað fólk stendur honum enginn á sporði! En ólíkt öðurm heldur hann samt alltaf sæti sínu meðal elskaðra Springfieldbúa. Nú munum við í næstu þáttum sjá hann taka sinn sess sem höfuð fjölskyldunnar eftir að hafa komist aftur yfir eignir sínar … það verður yndislegt!

Alexandra er systir Alans og er ættmóðir þessarar fjölskyldu. Hún kemst næst Alan í klækjum og bellibrögðum en er þó eins og einu skrefi á eftir honum. Hún er drottning Springfield, enginn kemst nálægt henni í virðug- og glæsileika auk þess sem að hún kemur alltaf niður á löppunum sama hvað gengur á í einka- eða viðskiptalífi hennar. Nú þegar að hún hefur sameinast bróður sínum getur maður ekki annað en beðið spenntur þeirra yfirburða sem þau munu hafa yfir öðrum íbúum Springfield!

Alan-Michael er besta skinn og hinn mesti ljúflingur. Hann á það til að sverja sig í ættina og beita hinum ýmsustu bellibrögðum til fá sínu framgengt. Annað en faðirinn og frænkan sér hann þó jafnharðan eftir öllu saman og reynir að bæta fyrir misgjörðir sínar. Drengurinn er þrígiftur og eru flestir eflaust sammála því að bestur var hann með sinni fyrstu, Harley. En þar sem hún er nú off limits þá skulum við barasta vona að hann sjái ljósið og haldi aftur til hennar Lucy sinnar svo að Tangie geti tekið upp samband við föður hans. Það væri þróun sem allir yrðu vafalaust ánægðir með, Lucy er nefnilega glettilega lík hálfsystur sinni og mætti segja að hún og AM eigi saman eins og skefti og blað!

Nick hefur farið úr öskunni í eldinn að undanförnu. Mér líkaði aldrei neitt sérstaklega við hann, ekki aðeins vegna þess að hann tók Mindy fram yfir móður sína heldur ekki síður vegna þess hve yfir hafinn Spauldingunum hann þóttist vera. Nú hefur þó komið á daginn að hann er engu skárri, og vil ég meina miklum mun verri! Enda ekki alvöru Spaulding hér á ferð …

Cooperfjölskyldan
Buzz er einn sá leiðinlegasti í ljósinu um þessar mundir. Þegar að við hefðum getað verið að fylgjast með spennandi þróun mála í Spauldingsamsteypunni þá var óhóflega mörgum mínútum eytt í óþolandi tuð hans um ástarmál sín. Til þess að bjarga geðheilsu áhorfenda getur maður þó ekki annað en vonað að hann nái saman við Jennu og við fáum þá smáfrið fyrir kjaftinum á honum!

Nadine gerði reginskissu þegar að hún leyfði sér að falla fyrir Buzz að nýju eftir að hann kom til baka. Hún er svo góð og yfir sig ástfangin en hann var bara að nota hana, hún var bara varaskeifan hans og það er henni ekki bjóðandi! Nú virðist þó vera að birta til hjá henni, Buzz farinn en Carroll að gera hosur sínar grænar fyrir henni …

Frank er ömurlegur! Hann hefur alla tíð farið í pirrurnar á mér og mun eflaust gera þar til hann hættir í ljósinu. Ég hef þó enga haldbæra ástæðu fyrir hvers vegna, það er bara þannig.

Eleni hefur farið frá því að vera svona lala í það að vera einna efst á hötulistanum og svo niður í lala aftur! Það skal engum dyljast að hún var hötuð þegar hún hélt framhjá honum AM mínum en nú þegar mikið vatn er runnið til sjávar og allir hafa fyrirgefið hver öðrum hef ég gert slíkt hið sama og því er hún svona lala, hvorki í uppáhaldi né hötuð. Hún er hins vegar góður vinur, hin besta móðir og metnaðargjörn með meiru. Ég er þó þeirrar skoðunar að hún eigi betri mannkost skilið en Frank, ég meina maður féll fyrir tæfunni Julie þegar hann hafði slíkan kvenkost og hvað segir það um hann?!?!

Lucy er skemmtilegasta kvenpersóna Springfield um þessar mundir. Hún er lífsglöð og ákveðinn og alveg eins og sniðinn fyrir Alan Michael! Þeirrar stundar er því beðið í ofvæni að þau átti sig á því sem við áhorfendur vitum nú þegar … þau eru meant for each other!

Jæja, ég veit að ég á marga eftir en ég er því miður komin með “skrifkrampa” og verð því barasta að tæma mig síðar!