Matstofa
Frankie, Eleni og litla dóttirin leita skjóls undan rigningunni inni á matstofunni. Þá drífur þar að Buzz, sem er að farast úr áhyggjum af henni Lucy sinni. Hann biður Frank að aðstoða sig við að leita að henni systur sinni, en Frank tekur það illa upp og ítrekar að hann eigi aðeins eina systur, Harley. Buzz reynir að tjónka við hann en án árangurs. Eleni kemst að þeirri niðurstöðu að þeir séu bara OF líkir feðgarnir til að geta verið sammála. Buzz nær þó að fá lögguna í lið með sér í leitinni þegar hann nær tali af Levy og útskýrir fyrir honum að týnda stelpan Lucy sé systir Harleyar.

Húsbáturinn
Alan-Michael og Lucy ræða málin. Hann segir henni að hann sé boðinn og búinn að hjálpa henni en að hann vilji ekki komast upp á milli hennar og fjölskyldu hennar. Hún segist enga fjölskyldu eiga, aðeins föður og að hún geti séð um að hafa áhyggjur af honum. AM segir henni þá að það muni ekki efla henni nokkurra vinsælda að auglýsa vinskap þeirra, hvorki meðal vinnuveitendanna né hjá fjölskyldunni. Hún æsist nú heldur upp við það og segist líka vel við „bad seeds“. AM segir henni einnig að hann hafi ekki einungis verið giftur systur hennar heldur einnig mágkonu, Lucy kippir sér þó lítið upp við það og sér aðallega spaugilegu hliðina á þessu öllu saman og áður en nóttin er á enda er hún jafnvel farin að reyna að táldraga hann:) Hann setur þó niður fótinn og hótar að skila henni heim ef hún hafi sér ekki … í staðinn uppsker hann að vera kallaður húmorslaus. Við það tækifæri kom besta lína þáttarins þegar AM sagði að enginn hefði sagt hann húmorslausan áður nema Harley „only your sister“ hehehehehe … Erum við að sjá svipaða hluti gerast og hjá AM og Harley? Svona hálfgert love-hate samband? Kæmi mér ekki á óvart:)

Vinnustofa Mindyar
Alex leitar skjóls þar inni undan margumtalaðri rigningu. Mindy rekst á hana og þær kútveltast eitthvað áður en þær átta sig á hvor annarri. Nick kemur ástinni til hjálpar, en hún hafði öskrað eins og stunginn grís, en finnur þá enga hættu aðeins mömmu gömlu. Það er nú ekki ofsögum sagt að örlað hafi á afbrýðissemi hjá Mindy við það að Alex sé komin aftur. Þær standa þó nokkuð skýrar á því að þeim líki ekki við hvor aðra og vilji helst bola hvor annarri burt úr lífi Nicks, en þó innan þeirra marka að í hans augum eru þær þó báðar að „reyna“ að láta sér lynda. Annars var í þessu öllu markverðast þegar Alex stakk upp í Mindy með því að segja henni að hún hafi eytt svo miklum tíma heima hjá henni í æsku (líkast til bæði með Phillip og Lujack) að hún hafi litið á hana sem dóttur ÞAR til hún fór að halda við eiginmanninn hennar! Mindy gat nú lítið sagt við það. Alex var svo boðin gisting í vitanum, Mindy til mikils ama:)

Revabend (Hét ekki alltaf húsið hennar Revu það? Sem Holly býr í núna)
Ed segir Holly til syndanna. Hún eigi að hætta að skipta sér af hverjum hann sé með eða ekki. Hann segir henni að samband þeirra sé í fortíðinni og hún eigi að horfa fram á veginn. Henni líkar þetta ekki, grætur og reynir að tala og kyssa hann til, en hann stendur fastur á sínu. Þau eru slæm hvort fyrir annað og eiga enga samleið öðruvísi en sem VINIR.

Bílskúrsíbúð Bauer-heimilisins
Eve getur ekki sofið, því hún veit að Ed er hjá Holly. Hann kemur svo heim, en endar inni hjá henni. Og eftir hálfgerðar ástarjátningar enda þau saman í rúminu:) Þau eru nú sæt saman, ekki fjarri því að það sé hjónasvipur með læknunum!