Það hafa enn ekki verið settar neinar formlegar reglur um lengd, og/eða gæði greina hér, þannig að enn er eftirfarandi “þumalputtaregla” í gildi, sem ég minntist á í tilkynningu fyrir áramótin:

…Stöku sinnum hefur efni verið sent hér inn sem nýjar greinar, sem varla geta þó kallast því nafni. Oft hefur því þó verið “hleypt í gegn”, væntanlega með því sjónarmiði að hlutverk stjórnenda sé ekki að vera gæðaeftirlitsmenn eða ritstjórar, heldur að sía út efni sem ekki tengist áhugamálinu, eða er á einhvern hátt vafasamt.

Höfundar illa skrifaðra eða bara almennt lélegra greina, verða samkvæmt þessu einfaldlega að eiga sín mál við lesendur. Þeir fá í flestum tilfellum slæm viðbrögð og gagnrýni, sem vonandi hvetur þá til að gera betur næst.


Þetta er enn sem komið er mín afstaða, og á þessum forsendum hef ég samþykkt hér efni sem ég veit vel að er lélegt.

Persónulega er ég ákaflega lítið fyrir strangar reglugerðir, en það er þó vel athugandi að herða gæðakröfurnar hér eitthvað. Þar til því verður hrint í framkvæmd, verða menn hinsvegar að lifa við að fá stöku sinnum lélegar greinar hingað inn.
_______________________