Vilhjálmur sigursæli og villa Sanorra Sturlusonar Af Vilhjálmi sigursæla
Vilhjálmur sigursæli, norrænn herkonungur, lét reisa kastala einn mikinn sem var fullgerður um 1060 og var borgarvirkið í Caen, sem enn stendur, höfuðstaður Normandí.
Vilhjálmur,sem í íslenskum bókum bar oftast viðurnefnið bastarður, sennilega af einkennilegri áráttu landans til að lítillækka aðalinn, ef færi gafst. Herleif móðir hans var talin vera lágstéttarstúlka, hafði átti hann með Hróbjarti hertoga af Normandí, en sá var af göfugum norrænum höfðingjaættum, kominn í beinan karllegg frá Göngu- Hrólfi og Rögnvaldi jarli á Mæri. Vilhjálmur náði yfirráðum á Englandi, þegar hann sigraði örþreyttan her Haralds Guðinasonar í bardaganum við Hastings á suðurströnd Englands í október 1066. Haraldur Guðinason hafði aðeins nokkrum dögum áður þurft að berjast við Tósta jarl bróður sinn og innrásarlið Haraldar harðráða hjá Stafnfurðubryggju í Jórvíkurskíri (Stamford Bridge, -það má ekki rugla þeirri bryggju saman við knattspyrnuvöll Chelsea í London). Á jóladag 1066 voru þau hjónin, Vilhjálmur sigursæli hertogi af Normandí og kona hans Matthildur krýnd kóngur og drottning yfir öllu Englandi. Allar götur síðan þá, hafa afkomendur þeirra haldið krúnunni á Bretlandi, eða í 940 ár.


Snorri Sturluson misstígur sig.
Í konungasögum þeim, sem Íslendingar varðveittu er einkennileg frásögn, sem engan vegin stenst. Þar segir að Vilhjálmur bastarður hafi banað konu sinni slysalega í byrjun Hastingsfararinnar.Segir svofrá , að þegar Vilhjálmur hafi ætlað að ríða til skipa sinna, vel skæddur og með með hælspora til að knýja klárinn, hafi kona hans þá komið út á hlaðið og átt eitthvað vantalað við bónda sinn, sem þá þegar var kominn á bak.Gerði hann sér þá lítið fyrir fyrir og sparkaði í hana með hælnum svo sporinn stóð á kafi í brjósti hennar og “fékk hún þegar bana af” stendur í Haraldar sögu Sigurðarsonar. Þetta er nú sennilega einhver vitleysa í Snorra Sturlusyni, því eins og áður sagði var Matthildur kona hans krýnd drottning 25. desember 1066, röskum tveimur mánuðum eftir “dauða” sinn.

Páfabannið og kirkjuklaustrin fallegu.
En hvað um það, Vilhjálmur þurfti aldeilis að borga fyrir ráðahaginn. Kaþólski páfinn neitaði að viðurkenna hjónabandið, taldi þau frændsystkinin vera of náskyld að mega giftast og lýsti yfir banni.
En í kaþólskunni hafa menn getað keypt sér syndaaflausn og til að bæta fyrir ráðahaginn og létta af banni páfa, réðst Vilhjálmur í það stórvirki að reisa kirkjuklaustur allmikil, ekki bara eitt heldur tvö. Eru þessar fallegu byggingar á sitthvorri hönd kastala Vilhjálms. Hið fyrra var systraklaustur Abbaye aux Dames og var vígt af Matthildi konu hans 1060 og 1063 var hið seinna fullgert, ætlað karlmunkum og nefnt Abbaye aux Hommes, helgað heilögum Stefáni (þeim er grýttur var í Gyðingalandi fyrir trú sín á Krist). Þessir þrír gæsilegu minnisvarðar um ríki Normana á dögum Vilhjálms sigursæla, kastalavirkið og kirkjuklaustrin tvö, standa enn og eru í raun það sem markverðast er að skoða í Caen. Má segja að það sé fyrir Guðs mildi að bygggingar þessar stóðu af sé alla þá eyðileggingu sem hlaust af baráttunni um Normandí í seinni heimstyrjöldinni, þegar bandamenn jöfnuðu við jörðu í loftftárásum u.þ.b. 75% af borginni.

Hertogi Normana og konungur Englands
Af Vilhjálmi og Matthildi er það að segja, að þau eignuðust tíu börn og komust sjö þeirra á legg. Af þeim er mikill ættbogi og frá þeim eðalhjónum er komin, eins og áður sagði, breska konungsættin. Vilhjálmur þykir merkilegur kóngur í enskri sögu. Hann innleiddi lögbók, Doomsday book, tók jarðir aðalsmanna eignarnámi og lét þá sverja sér eiða og kom upp skilvirku skattkerfi, sem styrkti gífurlega fjárhag konungsríkisins til lengri tíma litið.
Hann lést 9. september 1087, sextugur að aldri og varð í raun fórnarlamb reiðinnar, þess slæma lösts. Það var svo, að Vilhjálmur varð feitur mjög og þungur með árunum. Hann heyrði á skotspæni að Filipus Frankakonungur hefði í gríni líkt honum við ólétta konu, var Viljálmi ekki skemmt. Hann safnaði liði, fór yfir sundið til að berja á Frankakóngi, en ekki vildi betur til í þeirri ferð, en hann féll af baki hesti sínum í Normandí og hlaut innvortis meiðsi og blæðingar,sem leiddu hann til dauða. Hann ánafnaði öllum auði sínum svo, að honum yrði skipt milli fátækra og kirkjunnar. Hann lét Vilhjálm, næstelsta son sinn taka við konungdæmi sínu á Englandi, en Hróbjarti hálfbróður sínum eftirlét hann hertogadæmið í Normandí. Vilhjálmur og Matthildur eru grafin í Abbaye aux Hommes í Caen.