Komintern og íslenzkir kommúnistar - III. hluti Stefnan mótuð í Moskvu: Komintern og íslenskir kommúnistar
á þriðja og fjórða áratug 20. aldar.

eftir Hjört J. Guðmundsson

III. hluti


Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður

Árið 1928 kom hingað til lands sendifulltrúi frá Komintern, sænskur maður að nafni Hugo Sillén. Sillén hafði það verkefni að undirbúa flokksstofnun íslenskra kommúnista. Beitti hann sér m.a. fyrir því að þeir sendu fulltrúa á þing Komintern í Moskvu sama ár. Í Moskvu gafst íslensku fulltrúunum m.a. tækifæri til að ræða við forystumenn Komintern um fyrirhugaða flokksstofnun á Íslandi.
Í febrúar árið eftir efndu kommúnistar til ráðstefnu í Reykjavík að frumkvæði Jafnaðarmannafélagsins Spörtu. Varð það sjónarmið ofan á á ráðstefnunni að ráðist skyldi í það að stofna íslenskan kommúnistaflokk. Þegar líða tók að Alþingishástíðinni 1930 kom Sillén aftur til Íslands við annan mann og höfðu þeir það erindi að líta eftir fyrirhugaðri flokkstofnun kommúnista.

Útslagið varð á 10. þingi Alþýðusambandsins í lok nóvembermánaðar 1930. Kommúnistar létu þá til skarar skríða og lögðu fram sín helstu baráttumál fyrir þingið, auk þess sem þeir vöruðu við yfirvofandi kreppu samkvæmt forskrift Kominterns. Fæstir á þinginu lögðu þó trúnað á það. Undirteknirnar hjá sósíaldemókrötum voru eðlilega neikvæðar og voru tillögur kommúnista felldar. Sósíaldemókratar vildu einnig láta til sín taka og voru komnir á þá skoðun að hagsmunum Alþýðuflokksins væri best borgið með því að losa hann við háværan og skipulagðan mótstöðuarm sem væri andvígur meirihlutanum í grundvallaratriðum. Forystan var búin að missa alla von um að hægt yrði að jafna ágreininginn í flokknum. Á þinginu var látið líta út fyrir að einhverjar sáttaumleitanir færu fram á milli hinna andstæðu fylkinga, en í raun var aðeins um að ræða yfirskin. Sósíaldemókratar vildu einangra kommúnista, banna þeim aðgang að málgögnum Alþýðuflokksins og hindra gagnrýni þeirra á flokksforystuna.

Á síðasta degi þingsins þótti kommúnistum ljóst að þeim væri ekki lengur vært innan Alþýðusambandsins og var því Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður 30. nóvember 1930 og var hann strax bannfærður af forystu Alþýðuflokksins svo og öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum.

Þótt ljóst sé að Komintern hafi litið flokksstofnunina afar jákvæðum augum, og ennfremur stuðlað að henni á margan hátt, mun sambandið ekki hafa gefið íslenskum kommúnistum nein sérstök fyrirmæli um að stofna kommúnistaflokk. Samþykkt 4. þings Kominterns árið 1924 kvað einungis á um þá almennu reglu sambandsins að kommúnistar störfuðu í eigin flokkum. Hins vegar, eins og áður er getið, taldi þing Komintern 1928 æskilegt að flokksstofnunin íslenskra kommúnista ætti sér stað sem fyrst. Að því markmiði var unnið markvisst á Íslandi í samráði við Komintern. Skiptar skoðanir voru þó eðlilega uppi meðal íslenskra kommúnista um það hvenær heppilegast væri að fara út í að stofna sérstakan flokk.


Kommúnistaflokkur Íslands og Komintern

Strax og Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður var ákveðið að hann skyldi gerast aðili að Komintern. Eftir það voru íslenskir kommúnistar í svo að segja óslitnu sambandi við Komintern og voru skýrslur sendar reglulega til sambandsins m.a. um starf flokksins og árangur þess. Auk þess sátu fulltrúar flokksins þing Komintern og fundi. Flokkurinn var að mörgu leyti ólíkur öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi, þá ekki síst að því leyti að Komintern hafði vald til að breyta stefnu og ákvörðunum hans ef svo bar undir.

Með aðildinni að Komintern varð Kommúnistaflokkur Íslands deild innan sambandsins og gekkst ennfremur undir stefnu þess og skipulag. Var Komintern hugsað sem heimsflokkur kommúnista og að kommúnistaflokkar í einstökum löndum væru smækkuð mynd af sambandinu. Í hugmyndinni um “heimsflokk kommúnismans” mun einmitt vera að finna eina helstu skýringuna á hollustu íslenskra kommúnista við Komintern. Einar Olgeirsson segir þannig frá að:

„[e]itt megineinkenni kommúnista, og jafnframt höfuðkrafa sem gera verður til þeirra, er tryggðin við hugsjónina. Fyrir flokk eins og Alþjóðasamband kommúnista, sem ætlaði sér að verða heimsflokkur, og einstakir flokkar deildir út frá því, gat oft á tíðum verið býsna erfitt að sameina hugsjónina bæði aganum og sjálfstæðinu.“

Íslenskir kommúnistar áttu þannig í töluverðum erfiðleikum með að starfa alfarið eftir því skipulagi sem reglur Kominterns kváðu á um. Kom þar einkum til fámenni flokksins svo og smæð vinnustaða. Það sem stóð íslenskum kommúnistum m.a. fyrir þrifum, í samskiptum sínum við Komintern, var aginn sem einkenndi allt starf sambandsins og krafist var skilyrðislaust. Reyndu íslenskir kommúnistar að haga starfi sínu í samræmi við aðstæður á Íslandi jafnvel þótt það væri stundum á skjön við reglur Kominterns. Var eitt í því sambandi reglur um myndun sella á vinnustöðum. Annað var spurning um hvaða leið skyldi farin til að ná völdum í landinu, byltingarleiðin eða þingræðisleiðin, en byltingarleiðin var hin almenna regla Kominterns. Einar Olgeirsson segir svo frá þessu í bók sinni Kraftaverk einnar kynslóðar:

„Við leituðumst við, þegar frá upphafi, að skilgreina íslenskar þjóðfélagsaðstæður og taka mið af þeim þótt við um leið viðurkenndum hina almennu reglu, byltingarleiðina, því að það var bert að í þeim löndum þar sem kommúnistaflokkar voru bannaðir, engin þingræðishefð til, allar friðsamlegar leiðir lokaðar, var uppreisn eina færa leiðin … En hvor leiðin sem farin væri, byltingarleiðin eða þingræðisleiðin, töldum við nauðsynlegt að verkalýðurinn gæti treyst á alþjóðlega samhjálp og til þess að leggja áherslu á hina alþjóðlegu baráttu gengum við í 3. alþjóðasambandið.“

Mjög skiptar skoðanir munu hafa verið meðal íslenskra kommúnista hvora leiðina ætti að leggja áherslu á. Einar Olgeirsson var einn af þeim sem hlynntur var þingræðisleiðinni og taldi hana eiga frekar erindi við íslenskar aðstæður en byltingarleiðin, þrátt fyrir að það gengi í raun gegn reglum Kominterns:

„Alþjóðasamband kommúnista setti á oddinn að alþýðan tæki ríkisvaldið í sínar hendur með uppreisn og byltingu. Þessi stefna var eðlileg þar sem flestir kommúnistaflokkanna urðu að starfa leynilega fyrir utan lög og rétt og þingræðisleiðin þar með ófær. Við íslensku kommúnistarnir reyndum að móta stefnu okkar eftir aðstæðum og sérkennum íslensks þjóðfélags og ýmis okkar skilgreindu aðstæður þannig að þær væru með öðrum hætti en víðast hvar annars staðar.“

Í samræmi við þetta ritaði Einar grein í Rétt árið 1930 þar sem hann hélt þeirri skoðun sinni á lofti að valdataka alþýðunnar væri vel hugsanleg með þingræðislegum hætti. Þetta rökstuddi hann með því að aðstæður á Íslandi væru alveg sérstakar þar sem yfirstéttirnar „… hefðu aldrei fullkomnað ríkisvaldið sem kúgunartæki með því að koma sér upp eins konar stéttarher.“ Meðan yfirstéttirnar létu slíkt ógert taldi Einar að þingræðisleiðin væri vel fær.

Þetta sjónarmið Einars gekk þvert á byltingarleiðina sem 6. heimsþing Kominterns hafði lagt áherslu á 1928. „Þannig tókum við [kommúnistar] allsjálfstæða afstöðu í þessum efnum og reyndum eftir bestu samvisku og skynsemi að samræma þetta tvennt.“


Heimildaskrá:

Arnór Hannibalsson: Moskvulínan: Kommúnistaflokkur Íslands og Komintern. Halldór Laxness og Sovétríkin. Reykjavík. 1999.
Árni Snævarr og Valur Ingimundarson: Liðsmenn Moskvu: samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin. Reykjavík.1992.
Einar Olgeirsson: Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1980.
Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1983.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Vinstri andstaðan í Alþýðuflokknum 1926-1930. Reykjavík. 1979.
Ingólfur Á. Jóhannesson: Úr sögu kommúnistaflokks Íslands. Reykjavík. 1980.
Þorleifur Friðriksson: Gullna flugan: saga átaka í Alþýðuflokknum og erlendrar íhlutunar um íslensk stjórnmál í krafti fjármagns. Reykjavík. 1987.
Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934. Reykjavík. 1979.

(Þessi ritgerð er það löng að ég sá mig knúinn til að skipta henni í fjóra hluta. Síðari hlutarnir munu birtast hér á næstunni.)
Með kveðju,