“Valentínusardagurinn, puff!
Ég þarf ekki á neinum degi að halda sem er búinn til að af verslunarfólki til að taka af mér peninga. Ég þarf engan sérstakan dag til að sýna einhverjum að ég elski hann. Þetta er bara asnaleg amerísk hefð sem á ekki rétt á sér á Íslandi, við höfum bónda – og konudag. Þessi dagur er hvort eð er bara gerður fyrir pör!”

Þetta lýsir vel þeirri sjón sem margir Íslendingar hafa á Valentínusardeginum. Ég er ekki bara að segja þetta, ég fann mér nokkur blogg til að lesa um hvað fólki fyndist um þennan dag og miklu fleiri voru um hvað þessi dagur væri ömurlegur. Fólk var á móti deginum af mismunandi ástæðum og á nokkrum, ekki mörgum, bloggum sá ég mun á milli ára hvort fólk var á föstu þennan dag eða ekki.
En hvers vegna?
Hvað er það við þennan dag sem pirrar fólk?

Ég þarf engan sérstakan dag til að sýna einhverjum að ég elski hann
- Jú, hljómar það ekki rökrétt. Maður á að sýna ást á hverjum degi, ekki satt? Ég er alveg sammála því, að ég þarf ekki dag til að segja kærastanum mínum að ég elski hann. Aftur á móti finnst mér góð hugmynd að hafa svona sérstakan dag þar sem maður getur lagt extra mikið á sig. Mörgum finnst maður geta gert það á þriðjudegi eða miðvikudegi, bara hvenær sem er. En er það ekki eins með venjulega pakka? Getum við ekki gefið ástvinum okkar pakka á hverjum degi en kjósum að gera það á sérstökum tilefnum?
Valentínusardagur er í raun ekkert ósvipaður afmæli, nema dagurinn er ekki bara helgaður þér heldur öllum sem þú elskar.

Þessi dagur er hvort eð er bara gerður fyrir pör
- Wrooong.
Dagurinn snýst um ást.
Elskar þú mömmu þína? Pabba þinn? Systur, bróður, vin, vinkonu, ömmu, afa, frænku, frænda? Elskaru kannski hundinn þinn? Valentínusardagurinn er alls ekki gerður bara fyrir pör, hann snýst um ástina. Hann snýst um að láta fólk vita að manni þyki vænt um það, hvort sem maður er ástfanginn eða ekki.

Þetta er bara asnaleg amerísk hefð sem á ekki rétt á sér á Íslandi, við höfum bónda – og konudag.
- Bónda og konudagarnir eru frábærir dagar en þar er bara einblínt á annað kynið í einu. Valentínusardagurinn snýst um alla, ekki bara að strákurinn bjóði stelpunni út að borða og gefi henni rósir eins og margir virðast halda.

Margir eru líka á þeirri skoðun að dagurinn sé gerð verslunarmanna til að græða pening en síðast þegar að ég vissi þá kostaði ekki það mikið að hripa nokkur orð niður á blað. Kossar og knús og “gleðilegan valentínusardag” er heldur ekkert það dýrt. Það er engin regla að þú verðir að kaupa rándýr blóm, bangsa, súkkulaði, bjóða í kvöldmat og enda daginn á rómantísku kvöldi með rándýrum ilmkertum og tilheyrandi. Persónulega fyndist mér alveg jafn skemmtilegt að fá blóm sem eru týnd úti á túni eins og rósabúnt. Er það ekki alltaf hugurinn sem gildir?

Mig langaði bara að setja þessar hugsanir mínar niður og hvetja alla til að elska á hverjum degi – líka Valentínusardegi.
Það er gaman að halda upp á hluti í skammdeginu.
<3
-Tinna