Without Face - Astronomicon Without Face - Astronomicon
Elitist Records (Earache Records)
http://www.withoutface.com
http://www.elitistrecords .co.uk

Without Face er hljómsveit sem kemur frá Ungverjalandi - landi sem virðist vera að vaxa hvað varðar að gefa af sér fleiri gæða þungarokkshljómsveitir. Síðasta ungverska sveitin sem ég kynntist vel er sveitin Stonehenge, sem gerði allt vitlaust í prog-heiminum þegar þeir gáfu út plötuna Angelo Salutante og fengu m.a. sjálfan Daniel Gildenlow úr Pain of Salvation til að syngja nokkur lög með live og í stúdíói (ekki þó á Angelo Salutante).

Ungverskar sveitir virðast hafa svolítið edge sem aðrar vestrænar sveitir hafa ekki og það er að alast upp við annan tónlistarbakgrunn (austur- evrópskan) en við hérna í Vestur-Evrópu og þess vegna er möguleiki á að maður sé að heyra einhverja samblöndu af tónlist með áhrifum sem maður hefur e.t.v. ekki heyrt áður. Kannski vegna þessa er alveg full ástæða til að leita til fjarlægra landa ef maður er orðinn eitthvað leiður á einsleitu tónlistarúrvali vesturlanda.

En hvað um það, Without Face er sveit sem, með Astronomicon, er að gefa út sína aðra plötu eftir að hafa fengið góða dóma fyrir sínu fyrstu plötu Deep Inside. Þá plötu gáfu þeir út á Dark Symphonies útgáfunni bandarísku sem er leiðandi í melódísku goth og extreme metali í Bandaríkjunum. Ég hef ekki heyrt Deep Inside, en ef mark er takandi á þeim umsögnum sem ég hef lesið er um að ræða meira extreme tónlist en er að finna á Astronomicon, en á nýju plötunni hafi bandið augljóslega haft stærra budget, enda er sándið frábært og öll production’in til fyrirmyndar.

Hljómsveitin spilar sambland af progressive metal og gothic metal, allt með frekar drungalegum yfirtón. Tónlistin á Astronomicon er af þeim toga að maður fattar hana ekki alveg til fullnustu fyrr en eftir margítrekaðar hlustanir, því það er svo margt í gangi (söngvararnir syngja t.d. oft mismunandi laglínur) og lögin löng og yfirgripsmikil. Ég er örugglega búinn að hlusta á diskinn 10 sinnum og enn er ég að fíla þetta betur og betur… sem í mínum bókum er merki um gæði. Diskurinn inniheldur þó einungis sex lög, en fimm af þeim eru við 8-9 mínúturnar og er diskurinn fyrir vikið 44 mínútur sem er fínt þó það sé í styttra lagi. Þeir bæta upp fyrir hina stuttu lengd með svo djúpstæðri tónlist að hlustandinn (þ.e. ég) spilar diskinn að meðaltali tvisvar yfir í hvert sinn.

Liðskipan Without Face telur 6 manneskjur, þar af eina söngkonu sem sér um sönginn ásamt einum karlanna. Þetta er týpisk liðskipan eins og margar af gothic “beauty and the beast” metal sveitunum hafa, og gerir það að verkum að progressive metal Without Face tekur á sig drungalegri og meiri gothic ásýnd. Söngkonan er með virkilega góða rödd og syngur eins og engill, ekki ósvipað The Gathering og karlsöngurinn er oftast á clean nótunum en tekur endrum og eins á sig meiri extreme mynd. Það mætti lýsa þessari blöndu sem Dream Theater meets Within Temptation.

Þessi plata hittir alveg í markið hjá mér og er líklega með því besta sem er að gerast í þungarokkinu í ár.

Sjá tóndæmi hér að neðan:

In the Garden: http://www.elitistrecords.co.uk/WFNew2.mp3 (7 MB, 7:26 allt lagið)
Weird Places: http://www.earache.com/mp3s/weird.mp3 (heilt lag, 10MB)
eða http://www.earache.com/mp3s/mono_weird.mp3 (heilt lag, 2 MB mono 32 kpbs)
The Violin of Erich Zann: http://www.elitistrecords.co.uk/wfnew.mp3 (6MB, 4:31, sample)

Einkunn: 9,5/10

Þið getið líka séð umsögn um þennan disk í Metal Hammer UK, þar sem platan var valin plata mánaðarins fyrir stuttu: http://www.elitistrecords.co.uk/wfhammer.jpg
Resting Mind concerts