Mig langar að vekja athygli á mjög áhugaverðu bandi. The Hellacopters eru sænskir og lifa eftir því mottói að öll flott sound sé búið að gera og þeir ætli bara að gera þau flott aftur. Hljómar ekki eins og góð kenning en tónlistin þeirra hljómar hinsvega vel.

Ég hafði heyrt 2 lög með þeim eða svo áður en ég sá þá á græna sviðinu (því næst stærsta!) á Hróarskeldu og þetta voru eftirminnilegir tónleikar. Í fyrsta lagi koma þessi síðhærðu gaurar á sviðið og maður var eiginlega kominn aftur um svona 25 ár eða svo. Gítarleikarinn mætti ber að ofan í gallabuxum sem voru nokkrum númerum of þröngar með ljóst hár niður á rass. Þegar fyrsta lagið var komið í fulla keyrslu var orðin brjáluð rokk stemmning í tjaldinu sem allir tóku þátt í. Þetta var alvöru powerrock sem svíarnir pumpuðu út af lífs og sálar kröftum. Af minnsta tilefni voru gítarleikarinn og gítarleikarinn/söngvarinn komnir á bakið í sólóunum að fornra rokkara sið. Þegar hljómleikarnir voru búnir stóð ég eftir með Sólheimaglott á smettinu og ákvað að kaupa disk með þeim.

Ég keypti mér svo nýjasta diskinn þeirra High Visibility. Þetta er kannski engin meiriháttar frumlegheit en þótt þeir hljómi eins og band frá fyrri hluta 8. áratugarins hljóma þeir ekki eins og hermikrákur heldur frekar eins og tímaskekkja. Mér finnst eiginlega frekar hressandi að heyra í þeim og ágætt að hafa disk í safninu sem rokkar af krafti nær alveg frá fyrsta lagi í það síðasta.

Ég mæli með að fólk reyni að ná sér í lög með þeim (uss, don't quote me on this!) enda veit ég ekki hvort platan fæst hér á landi. Tilvalin lög til að ná í eru t.d. Hopeless Case of a Kid in Denial og Throw Away Heroes en ég náði í þau á Audiogalaxy.