Loksins er hún komin út, ég hef beðið lengi eftir þessari plötu. Þegar ég setti hana í spilarann vissi ég ekki alveg við hverju ég átti að búast. Þegar fyrsta lagið byrjaði að rúlla gerði ég mér grein fyrir því að hérna væri á ferðinni meistaraverk. Ég ætla nú ekki að greina hvert lag fyrir sig enda er það ykkar hlutverk. Með hverju lagi sem ég hlusta á því betur líður mér, hérna eru komnir saman snillingar sem eiga vonandi eftir að gera fleiri hluti saman í framtíðinni. Töluverðar mannabreytingar hafa orðið hjá sveitinni, á fyrri plötunni voru það Billy Howerdel, Maynard James Keenan, Paz Lenchantin, Josh Freeze og Troy Van Leeuwen. Paz og Troy fóru í önnur verkefni en í staðinn komu Jeordie White og James Iha. Takturinn finnst mér hafa breyst aðeins, nokkuð rólegri en alls ekki verri. Ég vildi hins vegar fá að heyra kraftinn sem var í Judith aftur, ég náði ekki alveg að finna sömu tilfinninguna og í því lagi. En allt í allt þá er þetta mjög svakalega flott verk og mæli ég með henni fyrir alla APC aðdáendur.